miðvikudagur, apríl 20, 2005

 

Mikil ósköp

Þetta er allt mjög dularfullt. Um 5 vikur eftir af skólanum og þar af 4 í maí, sem vill verða svolítið losaralegur, þið vitið, Brynjuferðir, Litlu ólympíuleikarnir, dimmisjó... Jamm, er að verða stúdent. Vei! En s.s., það er ofar mínum skilningi hvernig ég á að ljúka þessum, tja, 80% sem eru eftir af áföngunum mínum. Bara stór og ljót verkefni, próf, ó, öll þessi viðurstyggilegu próf. Og það vill svo skemmtilega til að flestir kennaranna þykjast ekki ætla að hafa nein lokapróf, heldur frekar mörg verkefni og svona smápróf í síðustu vikunni fyrir próftíð. Það ætla allir að prófa í vikunni fyrir próftíð. Og dimmisjó er á þriðjudegi... Strembinn mánudagur, hah.

Var einmitt í mjög svo ekki ánægjulegu spænsku málfræðiprófi hjá Erni kallinum. Það var einhverjar 6 bls. upp úr gerundio, presente, preterito perfecto, preterito pluscuamperfecto, preterito indefinido, preterito imperfecto, futuro imperfecto, perfecto immediado og fleiri gömlum kunningjum. Alla vega, það var fremur fúlt og barasta erfitt.

Kannski bara erfitt því ég nennti ekki að læra neitt í gær. Það er nefnilega vor í maganum á mér og ekki möguleiki að ég nenni að sitja á rassgatinu og beygja sagnir til andskotans.

Svo nenni ég heldur ekki að sofa. Málið er jú að þegar maður er sofnaður, þá er dagurinn (og jafnvel nóttin) búin og þá kemur næsti dagur með öllu tilheyrandi. Og þá þarf maður að gera allt upp á nýtt, þetta leiðinlega sem maður var rétt búin að ljúka við þegar maður hallaði sér á koddann. Þannig að ég hef tekið þann pól í hæðina að fara bara ekkert að sofa þegar ég hef lokið dagsverkinu, heldur nýta þennan dauða (svefn)tíma í að lesa skemmtilegar skáldsögur. Og það skilar sér í svona gasalega flottum baugum og góðum geispum. Ég get auðvitað ómögulega gert neitt af viti yfir daginn fyrir syfju, og allra síst íhugað spænska djöflamálfræði. Það gæti náttúrulega verið ein af ástæðunum fyrir slöppu prófi áðan. Eða kannski HATA ÉG BARA MÁLFRÆÐI! Rass.

Kaffibollar: 1 (and counting)
Kílómetrar: 3,1

Comments: Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?