miðvikudagur, janúar 31, 2007

 

Það er lítil systir

á Akureyri og í dag er hún 18 ára.
Einu sinni var þessi litla systir bara yngra systkini, næsta barn í röðinni á eftir mér og á undan því yngsta.
Mér þótti vænt um hana eins og vera bar.
Líka þegar hún var til trafala og best til þess fallin að valda vandræðum.
Svo, dag nokkurn, uppgötvaði ég að ég átti ekki lengur 2 yngri systkini.
Hins vegar bjó núna heima hjá mér þessi manneskja sem skildi mig.
Og ég lærði að treysta henni því við hugsuðum eins.
Ég áttaði mig á því að það yrði aldrei önnur sál sem passaði minni eins og hún gerir.
Og það gladdi mig að hafa eignast litla systur.

Til hamingju með daginn, elsku Hildur Sara, stóra litla systir.
Ég sakna þín alltaf.

mánudagur, janúar 29, 2007

 

Er mögulegt

að vera ekki í heiminum en samt ekki fyrir utan hann?
Að geta ekki horfti inn á fólk því maður er á meðal þess en vera engu að síður ekki hluti af neinu?

I'm perpetually inhibiting a liminal space.

Ótrúlegt hvernig lestur getur stundum fært manni orðin yfir hlutina sem maður upplifir en hefur ekki verið fær um að útskýra.

Þegar maður er ekkert og hvergi, en engu að síður til staðar, er sérlega óhugnalegt þegar annað fólk nálgast mann. Og þegar vingjarnlegt viðmót annarra hræðir mann þá verður maður hræddur við sína eigin hræðslu - því klárlega eiga almennilegheit að vera til huggunar en ekki valda angist. Hvers kyns manneskja er það eiginlega sem bregst alltaf öfugt við? Hvers kyns manneskja er það sem á bara rangar tilfinningar?

Indæli afgreiðslumaðurinn á Lindsey Café hinum megin götunnar hlýtur að hafa séð að ég var ekki í góðu standi á sunnudaginn. Hann var minna reffilegur en venjulega, og beitti röddinni eins og hann væri að tala við veikt barn þegar hann afgreiddi mig. Og svo gaf hann mér aukafroðu í cappuchinobollann. Og hræddi mig.

Í dag reyndi ég að vera fierce -

Fight face, fight face, little fake
How I wonder if you'll break

Það skilaði ekki miklum árangri en latte- og chaibollarnir með Kríu og fleirum um eftirmiðdaginn glöddu mig þó. Sama má segja um bækurnar 6 sem biðu mín í bögglaafgreiðslunni

"The Book of Dave" eftir Will Self
"Dracula" eftir Bram Stoker
"A Christmas Carol" eftir Charles Dickens
"The Confessions of a Justified Sinner" eftir James Hogg
"The Book of Illusions" eftir Paul Auster
og síðast en ekki síst
"The Cambridge Introduction to Narrative" eftir H. Porter Abbott
sem er jólagjöf frá góðu fólki á Íslandi

Ég var að lesa "Narratology" eftir Mieke Bal síðastliðna nótt og ef ég sofna ekki í kvöld þá mun ég byrja á gjöfinni góðu og fylla hugann af actants, hero-victims, focalization, internal narrators/character-narrators from without, helpers opponents, the power, objects og subjects apiring to a goal

því nú er lampinn kominn aftur, eða öllu heldur bróðir hans - ekki sá sami og var numinn á brott. Og þar af leiðandi er ég enn án hárteygjunnar góðu.

sunnudagur, janúar 28, 2007

 

Sex is Sainsbury's

Svo ég vitni nú í gamalt dægurlag með ensku bílskúrspoppbandi sem aldrei meikaði'ða.

Ég velti því stundum fyrir mér hversu margar vörutegundir sé að finna inn í einum vel útilátnum stórmarkaði og kemst ævinlega að sömu niðurstöðu: eins gott og þú veist það ekki, andarungi, því þú gætir aldrei talið upp að svo hárri tölu. Maður er alltaf að passa upp á egóið, sko. Stelpur, hvað eru aftur margir hálfir l í 4 l?

Alla vega, þá keypti ég inn í dag. Og "eldaði" mína fyrstu máltíð síðan ég kom til UK. Hannaði meira að segja sjálf uppskriftina og hér er hún:

Dressed-Up Potato Wedges / Kartöflubátar í sparifötunum
- 1 bakki Sainsbury's Taste the Difference Potato Wedges
(400g kartöflubátar með sjávarsalti, svörtum pipar og jurtaolíu)
- 2 stórir flat mushrooms
(einhverjir sveppir með stórum, flötum hatti, ekkert merkilegir)
- blue stilton
(mjúkur blámygluostur, kallaður konungur enskra osta)

Brytjið sveppina og myljið blámygluostinn og blandið saman við kartöflubátana í ofnföstu formi (klárlega þá komu bátarnir mínir í álbakka). Bakið við 250g C° í 35 mín. Smakkast vel með sultu (cf blámygluosturinn).

Nú, það ætti ekki að vera erfitt að skera sínar eigin kartöflur í báta og velta þeim upp úr sjávarsalti, svörtum pipar og góðri olíu ef maður byggi við mannsæmandi eldhúsaðstæður / á Íslandi þar sem Sainsbury's er ekki til staðar. Sömuleiðis skiptir ekki öllu hvernig ferskir sveppir eru notaðir, en ég held að það sé betra að nota flata, kjötmikla sveppi heldur en kúlulaga. Og þó stilton sé kallaður royalty hérna í UK þá er hann ekki fínaststi blámygluostur heims, og íslenskir frændur hans ættu að vera alveg nógu góðir.

Þetta er það eina sem ég hef skapað í dag. Annars hef ég bara verið neytandi - keypti mér Elle Magazine og drakk sojalatte á uppáhaldskaffihúsinu mínu inni í Castle. Og keypti inn, auðvitað.

Ég hef reyndar aðstoðað. Í búðinni nálgaðist mig strákur, greinilega frá Mið-Austurlöndum, og spurði mig hvort Earl Grey væri svart te. Ég kannaðist við gaurinn frá Keele en ákvað að ath hvort ég gæti feikað það að ég væri Englendingur. Útskýrði fyrir honum að samkvæmt minni bestu vitund kallaðist Earl Grey light blend, en innihéldi engu að síður koffín, svo ef það væri það sem hann sæktist eftir þá væri hann á réttri leið. Sem var raunin. Og svei mér þá ef hann lét ekki blekkjast af RP-hreimnum mínum.

Nú eru tea beliefs Englendingar skemmtilega flóknar. Heimsbyggðin öll (maður segir svona, klárlega eru sveltandi börn í myrkustu Afríku og stéttleysingjar á Indlandi ekki meðtaldir) veit auðvittað að Englendingar eru tedrykkjuþjóð Evrópu, en menn verða að búa hér meðal þeirra á enskri grund til að læra við hverju megi búast og hvað sé alveg bannað.

"Builders tea" er svona sterkt, svart te sem drekka ber með mjólk / sykri eða hvoru tveggja. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta drykkur fyrir the working class - og já, stéttskiptingin í ensku samfélagi er skýr, greinileg og óbifanleg. PG Tips er sígilt.

Eftir því sem menn eru ofar í stéttarstiganum verður teið þeirra ljósara og bragðdaufara. Einfalt. Twinnings English Breakfast er svona stiginu ofar en áðurnefnt (og ógeðslegt) PG Tips.

Earl Grey, sem blessaður drengurinn var að spá í, er drykkur efri stéttanna og það er ávallt drukkið sykurlaust. Að nota sykur í teið sitt er hreinlega merki um að þú sért úr "óæðri" hluta samfélagsins (haha, mig langaði mikið til að skrifa "óæðri enda").

Te þykir allra meina bót hérlendis. Visareikningurinn er of hár og "I'll put the kettle on". Einkasonurinn kemst ekki inn í Kings Collage og "I'll put the kettle on". Fjölskyldufaðirinn missir ökuleyfið fyrir ölvunarakstur og "I'll put the kettle on". IRA / al Quaeda sprengja the Underground í tætlur og "I'll put the kettle on".

Og eftir verslunarferð dagsins hefur mér tekist að sanka að mér 12 mismunandi tegundum af tei. Best að koma sér að verki...

fimmtudagur, janúar 25, 2007

 

Dónaskapur

!!!

Í dag hefur verið níðst á mér. Fjórum sinnum.

Fyrst skreiðist ég úr rekkju minni fram á gang til að komast í sturtu og vakna og mæti þá Ellie. Sem hlær og kallar mig óhugnarlegan uppvakning. Sko, ef hún hefði náð að festa blund um fimmleytið í nótt og vaknað á klukkutíma fresti fram til 11 í morgun, þá hefði hún ekki verið mikið fríðari. Og svo þreif ég ekki maskarann af mér í gær/nótt.

Svo fæ ég mér chai tea latte á Le Café. Og það var enginn vökvi í bollanum, bara froða. Ég fer og kvarta eins og menn kvarta í UK, s.s. set upp þjáningarsvip og biðst afsökunar á tilveru minni og heimtufrekju með þessum nytsamlegu inngangsorðum: "Excuse me, hate to bother you but..." Útskýri að ég hafi oft keypt mér chai á kaffihúsum og það sé yfirleitt í vökvaformi. Kaffibarþjónagæsin heldur því fram að það sé alltaf svona, nei, nei, nei! Ég hafði sko séð að það var önnur afgreiðslustelpa sem þurfti að kenna henni handtökin við að blanda drykkinn... Þetta er EKKI þjónusta, kúnninn hefur ALLTAF rétt fyrir sér. Tell me about it, eftir öll árin í Pennanum-Bókval.

Svo kem ég heim og tek eftir því að náttborðslampinn minn er horfinn. Það líður heil mínúta og ég er bara ringluð. Kíki undir rúm. Kíki ofan í náttborðsskúffu. Banka svo hjá Mel og kemst að því að allir lampar í blokkinni hafa verið sendir í tékköpp. Ok, það er kannski lágmarkið að skilja eftir tilkynningu. Eða alla vega hengja hana upp fram á gangi. Mel hafði s.s. farið niður á Accommodation Services og spurst fyrir.

Og ekki nóg með það, heldur var hárteygjan mín eina á lampanum. Og hún er þar enn. Ekki inni í herberginu mínu. Ég vona að það hafi verið lús á henni og dóninn sem ruddist inn í mitt privacy sé núna að drepast úr kláða og pirringi.

Hah.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

 

Fuglinn Fönix

Reis úr öskunni einhvers staðar og kannski er kominn tími á að blása í glæðurnar hér á þessu bloggi...

Mér finnst ég reyndar ekki þurfa að afsaka mig því eftir jólafrí kom prófatíð og eftir prófatíð og vetrarfrí með tilheyrandi tölvubindindi EN hafi einhverjum þótt ég léleg, þá biðst ég hér með forláts og aflausnar (svona rétt til að hita upp fyrir páskaföstuna, nei, spaug, ég er ekki einu sinni lengur í Þjóðkirkjunni...)

Með nýrri önn - en sem námsmanni er mér lífsins ómögulegt að mæla tímann í mánuðum og áramótum heldur verð að styðjast við annarskipti - er ég líka ný og betri kona. Nema hvað.

Og hér kemur öppdeit og ofervjú yfir undanfarinn janúar:

Vika 1
Vansælasti ferðalangur heimsins snýr aftur til Keele -ekkert ferlega gaman að kyssa fjölskylduna bless á miðri jólahátíð og halda á vit prófanna í UK. En í flugvélinni voru Bergþóra og Emmi og alla leiðina með lestinni inn á Euston Train Station í London. Þar skildu leiðir; þeirra lá til Asíu en mín til Staffordshire. Vei.

Í farteskinnu var fartölvan mín og um 7 kg af bókum og ljósrituðum heimildum fyrir jólafrísritgerðarvinnuna. Guði sé lof fyrir enska karlmenn sem kunna að búa í stórborg með almenningssamgöngum sem vita að allt gengur hraðar fyrir sig ef þeir aðstoða litlu konuna með græna ferðaskrímslið í stiganum.

Keele heilsaði kuldalega með tómri C-blokk. Engin ljós, bara tilkynningar frá húsverðinum um að íbúarnir yrðu rukkaðir sameiginlega vegna skemmda sem unnar voru í jólapartíinu. Jólapartíinu sem ég vissi ekki einu sinni af því ég var farin áður en það var haldið. Gott að koma heim, brrr.

Vond og ljót próf. Tímaritgerðir eru ekki mitt forte og alls ekki þegar skrifa þarf 2 í sama prófinu – undantekningarlaust er sú seinnu unnin á 15 mín. Reyndar hefur mér tekið að temja mér að gera uppkast að báðum svörum í upphafi svo þetta ætti að hafa reddast. Svaf varla, borðaði varla og lærði varla. Hm... Ekki besta hegðunin í prófatíð en ég var í rugli og rusli. Vildi bara skríða ofan í holu og deyja þangað til ég kæmist til Íslands aftur. Prófin klárast ég fagnaði því með tea and fruit scones. Lifi Bretaveldi og gúrkusamlokurnar þeirra.

Vika 2:
Pakkaði niður og fór til London. Away, away with thee! Á þessu stigi var allt á campus til þess fallið að vekja með mér ógleði. Langþráð heilafrí. Ég ferjaði svolítið af drasli með mér til að geyma hjá Drífu í Woodend – kvíði ekki lítið fyrir að fara með allt mitt hafurtask í lestarnar suður eftir þegar ég þarf að rýma herbergið mitt. Geri fastlega ráð fyrir að senda 3,5 tonn af bókum í pósti. Það mun verða dýrt.

Inga Steinunn gerði sér ferð frá Bremen til að eyða nokkrum dögum með mér í Lundúnaborg og við áttum skjólshús í Woodend. Hvað get ég sagt? Madame Toussauds og þar voru Jamie Oliver og Winston Churchill og Ghandi, Starbucks, Baker Street (cf Sherlock Holmes), Whittard of Chelsea þar sem við keyptum te og súkkulaðihjúpaðar kaffibaunir,Underground, ítalskir veitingastaðir, British Museum með sérsýningu um the Enlightenmen inni í salnum sem upphaflega hýsti bókasafn George III og svo var líka Rosetta-steinninn og við lásum textaspjöld samfleytt í 4,5 klst, Underground, Toy Museum því miður lokað, Starbucks, Underground, James Bond í bíó, Starbucks, ný regnhlíf, Shakespeare’s “Twelfth Night” í Old Vic Theatre á West End með all-male company sem þýðir að það voru bara karlleikarar í öllum hlutverkum eins og á 16. öld svo þarna voru karlar að leika konur að leika karla, Underground, Oxford Street þar sem voru útsölur og Inga fékk 3 pör af hælaskóm og ég kjól og mörgum mörgum mín eytt inni í stóru Borders bókabúðinni, Starbucks, Underground, Victoria&Albert Museum þar sem við lærðum um uppruna orðsins “portrait miniature”, Harrods (en bara að utan) þar sem voru líka útsölur sem vöru samt of dýrar fyrir okkur, Underground, Underground, Underground, leitin að cream custard til að gefa Ingu að smakka með rhubarb crumble, Underground, Underground, Underground, Starbucks kannan sem Inga gaf mér til minja um góðar stundir Ég sakna hennar skelfilega. Inga, komdu aftur!

Fleiri dagar í London. Ég lofaði Drífu og Mark að taka mér tak og reyna að sofa og borða almennilega sem er klárlega ekki vanþörf á. Þau eru uppáhalds fólkið mitt og Drífa er best og það sem næst kemst mömmu minni. Eastenders og Eastenders og mikið spjallað. Ég vil ítreka að Drífa er best. Þegar ég er hætt að vera blankur háskólanemi og á mína eigin íbúð þá er fjölskyldunni í Woodend velkomið að búa hjá mér eins oft og lengi og þau vilja. Daníel litli frændi gerði sitt besta til að auka fótboltafærni mína en hann mun ávallt mala mig. Svo var líka lego og mér hefur aldrei áður þótt neitt gaman í lego – svo lengi lærir sem lifir. Og spilað og þau Isabella sigruðu til skiptis: Animal Yatzy, Don’t Bug Me, Wozzit, Memory, líka teiknað á blöð með Barney litunum og dansað við The Feeling, líka Twister sem var það eina sem mér tókst að vinna í (allt þetta yoga og auðvitað limbóið hér í den). Svo bilaði hitavatnsketillinn og sunnudagurinn var kaldur dagur og húkt inni í stofu við rafmagnsofninn – ekki kjöraðstæður þegar menn eru 6 og 3ja ára.

Aftur til Keele við upphaf nýrrar annar. Verð sorgmædd við það eitt að hugsa um hvað það var leiðinlegt að fara. Lærði loksins að það á ekki að ferðast um lestarkerfi London á sunnudögum. Lenti í hjáleið með rútu frá Sutton til West-Croydon og afar hægfara lest þaðan inn á Victoria Station og þá loksins (eftir 2ja tíma aukalegan þvæling) komst ég inn í Underground og upp á Euston Train Station. Sem var full af löggum og ég varð svooo hrædd og hugsaði:

SPRENGJA

en það reyndust “bara” vera fótboltabullu og hooligans á leið til Manchester eftir að United tapaði fyrir Arsenal. Með lestinni minni, nema hvað. En þar sem ég hafði keypt miðann minn online með afar stuttum fyrirvara og borgað svívirðulegt verð fyrir þá átti ég sæti á 1.farrými... Sem var klárlega ekki ætlunin. Og hooligans ferðast ekki á 1st class, þannig er það bara. Þurfti reyndar að troðast fram hjá þeim til að komast í veitingavagninn og þeir lyktuðu af ódýru vínu og þeir kölluðu á mig og klipu í mig en löggan kom. Löggan er góð, ah. En enski boltinn er frá djöflinum!

Vika 3:
Back to school again. Fyrsti kaffibollinn með Kríu á nýju ári reyndist vera fullur af froðu en ég nennti ekki að kvarta. Margt að brasa. Negla niður áfangana mína: The Novel Now (Contemporary English Fiction) og Gothic Fiction og hann tekur téð Kría einmitt líka. Kaupa bækurnar á Amazon Marketplace og borga 0,01 GBP fyrir kilju en 2,75 GBP í sendingarkostnað. Nú streyma til mín pakkarnir sem er gaman þó ég viti hvað er í þeim. Ráða fram úr stundaskránni og það er svooo sætur doktorsnemi sem sér um Gothic Fiction málstofuna mína! Fara í Morrisons og Sainsbury’s og kaupa matvæli sem blotna í leka ísskápnum mínum. Nú eru Keele Accomodation Services minn versti óvinur en þeim er sama um það því þeim er sama um mig. Grrr... Fara á bókasafnið og safna critical reading í sarpinn áður en aðrir nemendur ná bókunum, hahah. Þetta er dog eat dog, every man for himself. Og nú munu vera 2 mánuðir þar til ég þarf að vera búin að lesa allt og skrifa allar ritgerðir til að vera ekki í stressi í páskafríinu sem er allur apríl. Ég get ekki beðið. Og þessi vika er ekki
einu sinni búin -

miðvikudagur, janúar 10, 2007

 

Reification and Utopia in Mass Culture

Ertekkjaðgrínast?

Gamall félagi minn, Fredric Jameson, er sko ekki dauður úr öllum æðum. Hann er víst líka til prófs í Popular Fiction and Cultural Theory - sem sagt á morgun. Ég sem hélt ég hefði afgreitt hann með hinum áfanganum mínum, sem lauk með illgjörnu prófi á mánudaginn var. Æ og ó.

Jameson er ekkert vitlaus. Hann er bara langorður.

En ég, ég mun hugsa minn gang í fríinu sem hefst á fimmtudaginn. Ég er nefnilega heldur ekki svo vitlaus. Og andlegt ástandu mitt undanfarið hefur verið tóm vitleysa. Tómt tjón.

Er ég stelpa eða kona?

föstudagur, janúar 05, 2007

 

Nýir tímar

Það eru takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að hata sjálfan sig svona mikið.
Alla vega nenni ég ekki meir.

Nú er líka árið "liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka" svo ef þetta er ekki tíminn til að horfa fram á veginn þá veit ég ekki hvað.

Engu að síður þykir mér við hæfi að lítu ogguponsu lítið um öxl og rifja upp hvað mér þykir markverðast við árið 2006. Auðvitað er alsendis óvíst hvort nokkur deilir þeim skoðunum með mér, en eins og vitur maður sagði einhverju sinni þá eru skoðanir eins og rassgöt; það hefur hver sína og allar lykta þær jafnilla.

Dagur ársins: 9. febrúar, nema hvað - fyrsti afmælisdagurinn sem ég fagnaði að heiman, og hélt veisluna ein og óstudd á mínu eigin heimili

Mánuður ársins: júní, þegar 1 ár var liðið síðan ég útskrifaðist úr MA

Maður ársins: Pabbi minn, fyrir að sína stakt jafnaðargeð og umburðarlyndi þegar ég fékk ranga einkunn í Amerískri menningarsögu og hélt ég myndi deyja (og dó næstum við að hrapa niður kjallarastigann í örvæntingu minni)

Athæfi ársins: búferlaflutningar; af Bergstaðastræti í Kambagerði til Keele

Drykkur ársins: sojalatte

Skólafélagi ársins: mamma mín

Íþróttamaður ársins: Daníel 5 ára frændi minn, fyrir að hjálpa mér að máta sig í skák

Bók ársins: allir enskar samheitaorðabækur heimsins

Samgöngukerfi ársins: leiðarkerfi strætisvagna Akureyrarbæjar

Strætisvagnstjóri ársins: gaurinn sem keyrði fram hjá mér á stoppistöðinni þegar ég var á leið til vinnu einn þriðjudagsmorgunn í sumar

Kennari ársins: Scott McCracken, say no more

Vinnufélagi ársins: Nonni, fyrir að hreinsa fartölvuna mína og setja upp í henni alls kyns fínerí sem ég kann engin skil á

Risaeðla ársins: Barney the Pink Dinosaur, besti vinur Isabellu frænku

Lestarstöð ársins: London-Euston

Verslunarferð ársins: ferð okkar Adda á Oxford Street, þegar afrakstur innkaupa hans varð eftir í lestinni til Sutton, ó ó

Systir ársins: Hildur Sara, hver annar?

Heimili ársins: Woodend 5, hjá elsku Drífu frænku þar sem mér finnst ég vera svo velkomin

Verktaki ársins: klikkaða kerlingin sem prjónar lopapeysurnar sem við seljum í Bókval og þekkir ekki muninn á kvittun og reikningi

Sms ársins: þegar við Una vorum á hlusta á sama Coldplay lagið, hvor í sínu landinu

Jólasveinn ársins: Kertasníkir, sem gaf mér Olive body butter

Ferðalag ársins: road trip mitt, Valdísar og Unu í Mývatnssveit; jarðböð, út að borða og svo OC að lokum

Frumkvöðull ársins: Aldís frænka, fyrir að stofna kaffihús

Vesen ársins: Erasmus-umsóknarferlið

Matvara ársins: hnetusmjör

Vinnustaður ársins: Penninn-Bókval, og hana nú

Brúður ársins: Unnur Helga, bestasta besta

Afmælisgjöf ársins: Fishbone stígvélin (og Alkemistinn) frá stelpunum mínum

Hetja ársins: ég sjálf, fyrir að þramma inn á skrifstofu hjá Sævari og heimta launahækkun (og fá hana, naturally)

Heimsókn ársins: þegar Inga Steinunn kom í nokkra daga í kringum júbíleringuna í júní

Flík ársins: kjóllinn sem ég keypti fyrir brúðkaup Unnar og Sigga

Hjón ársins: afi Addi og amma Helga fyrir að hafa verið ástfangin í 55 ár og hamingjusamlega gift í 50

Viðbjóður ársins: Accommodation Services hér í Keele

Framtak ársins: kaup Eyrúnar á heilum flygli

Mágkona ársins: Valdís Anna, ohohoh

Jólagjöf ársins: ullarskór x2

Gleði ársins: að hitta Valdísi Ösp aftur þegar hún sneri frá Sölden

Kaffihús ársins: Kaffitár, fyrir allar góðu stundirnar þegar það hýsti mig og Kríu og jafnvel Lindu og Siggu líka

Bjartasta vonin: Valdís Ösp og Helgi Valur

Eitthvað hefur að sjálfsögðu gleymst en það rýrir ekki gildi þess. Kannski man ég það á morgun, kannski á hinn. Þó það sé gleymt í bili þá er það geymt, eins og allir góðir hlutir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?