þriðjudagur, desember 27, 2005

 

Jólin

eru góð. Gleðileg þau, allir saman.

Nú er ég ekki mikið fyrir að skrásetja einkunnir mínar á opinberum vettvangi, en sökum yfirgengilegrar hamingju þessa stundina fæst ég ekki orða bundist:

Ég fékk 10 í breskum bókmenntum!

Rass, ef ég er ekki á réttri hillu...

þriðjudagur, desember 20, 2005

 

Þið sem heima sitjið

- ég er að koma!

Já.

laugardagur, desember 17, 2005

 

Áðan

reyndi ég að sjóða frosinn spínatköggul í von um að fá vöðva eins og Stjáni blái.

Nei, þetta er lygi. Ég reyndi að sjóða frosinn spínatköggul í örvæntingarfullri tilraun til að borða eitthvað sem vex, en er ekki mjólkað/hleypt/niðursoðið. Spínatið varð að ógeðslegri grænni drullu sem samsamaðist vatninu í pottinum, slepjulegt eins og rotinn froskur.

Í morgun vaknaði ég extra snemma til að læra hljóðfræði fyrir vinnu, en eyddi þess í stað klukkutímum í taugastrekkjandi og afar slítandi fjárhagsáhyggjur - smooooooooth.

Á vaktinni minni tók ég þátt í samtali dagsins:

(h)eldri maður: Ég þarf að fá bókina um Harry Potter.
Helga-svör-við-öllu: Já, viltu þá nýjustu bókina?
(h)eldri maður: NEI!!! Þessa númer 3...

Úff.

Þessa stundina er ég á eftir áætlun með hljófræðina og afréð því að storka örlögunum með því að blogga út í eitt. Ég spái því að fyrir miðnætti muni ég hafa misst glóruna endanlega.

Einn dagur eftir. Svo er það bara heimsyfirráð eða dauði.

föstudagur, desember 16, 2005

 

Kannski ég leggist í dvala

þangað til kl. 16:00 á mánudaginn. Þá verður lífið aftur þess virði að lifa því.
Ég gerði mér kíló af túnfisksalati áður en ég hóf lesturinn í dag, og þarf því ekki að elda neitt það sem eftir er hér í prófakör.

1 dós túnfiskur
1 dós maísbaunir
1/2 stór dós kotasæla
1/2 rauðlaukur
Krydd Lífsins (án gríns, það er heitið)

Þetta er gott með brauði eða hrökkbrauði eða hrísgrjónum eða hafrakexi eða bara því sem er í skápnum hjá fátækum námsmanni. Bragðast örugglega ekki illa á piparkökum.

Málvísundurinn er ekkert að yfirgefa mig enn - ég hef verið andsetin síðan í gærmorgun og hugsa í syntagm og paradigm, asymptomaticity og modality, lexiacal innovation, structural ambiguity, philology, circumfix og allomorphy af því að bölvaður tuddinn er með sjálfseyðingarhvöt á háu stigi, enda í bráðri útrýmingarhættu.

Nú ætla ég að svíða nokkur hár á kertaloganum mínum og sniffa. Það er svona um það bil það fjörlegasta sem mér flýgur í hug. Svo er það bara heit sturta og klippa táneglur.

Ég gæti kannski reynt að safna afskurðinum og smíða skip eins og þeir gerðu þarna í jötunheimum eða Hel, einhverntíma í fornöld. Sigldu svo inn í Ásgarð og brytjuðu niður goðin -

en spennandi!

fimmtudagur, desember 15, 2005

 

Ég vaknaði

og sá að ég hafði fengið ipod í skóinn. Jólasveinninn hafði líka verið svo sætur að hlaða inn á hann öllum mínum uppáhaldslögum, líka þeim sem ekki er enn búið að semja. Í morgunverð snæddi ég nýbökuð rúnstykki með osti og sultu, las blaðið og hlustaði á muldrandi útvarpsþul. Um hálftíu hringdi Tolli í mig og sagði að ég þyrfti ekkert að taka málvísindaprófið, heldur mætti velja mér einkunn - já, og skilaboð á sömu leið frá Pétri varðandi hljóðfræðina á mánudag. Glöð í bragði settist ég við tölvuna, kíkti á dagatalið mitt og hlotnaðist þar flugferð til Evrópu. Ákvað að draga Unni með mér til Ítalíu eða Parísar, ekki þyrftum við að hafa áhyggjur af eyðslufénu því ég var líka búin að vinna í Víkingalottó, ein. Því sprangaði ég niður á Skólavörðustíg og keypti jólakjól og fínerí í Glamour og fleiri skemmtilegum búðum. Inni á Kaffitári skrifaði ég skáldsögu og rakst ég á Adrian Brody sem bað mig að giftast sér. Ég játti því en að sjálfsögðu ekki fyrr en eftir jól, ég þyrfti að vinna í Bókval fram á aðfangadag. Við ákváðum að skella okkur saman á tónleika með Maxim Vengerov og Sinfó en þeir Adrian eru félagar góðir. Vengerov tileinkaði mér Mendelson fiðlukonsertinn og líka Tschaikowski 1 sem hann tók á flygilinn, svona upp á grín. Þá lá leiðin í Kringluna þar sem jólagjafarispa tvö gekk vonum framar og við nutum þess að fylgjast með öllu aumingjans fólkinu sem var að deyja úr stressi. Í Bókabúð Máls & menningar á Laugaveginum nældi ég mér í allar bækurnar sem komu út nú fyrir jólin og las þær fram að kvöldmat. Jólahlaðborðið var einkar ánægjulegt en þaðan héldum við Adrian á alls kyns kórtónleika, já og Ellen og KK og Ragnheiði Gröndal og Anthony and the Johnsons og ég veit ekki hvað og hvað - allir voru til í að endurtaka leikinn nú þegar ég mátti loks vera að því að sækja eitthvað. Að því loknu snerum við heim á leið og bökuðum alvöru enska jólaköku og þýskt stollen, ásamt 12 smákökusortum á mettíma. Ensku stelpurnar mínar litu við, og Björk, og gömlu bekkjarfélagarnir úr Ainu, og Egill og Regína, og Inga, Sarah og Carolyn frá Þýskalandi, Ingrid og Kunihiko og Hsin-Yi, og Valdísirnar mínar og Una, Þórunn, Unnur, Siggi, Steinlaug, Freyja, og að sjálfsögðu stórfjölskyldan. Allt í einu vorum við stödd í Austurhlíðinni uppi í Mývatnssveit og amma og afi bjuggu þar enn. Þetta varð hin besta kvöldskemmtun og gaman að fá símhringingu frá Oxford og boð um skólavist og styrk og allan pakkann. Það voru líka norðurljós og lítil lömb og kettlingar, kerti og jurta-steina-dýra, arineldur, gott kaffi og mjúk handklæði. Nokkuð ánægjulegur dagur, verð ég að segja.

miðvikudagur, desember 14, 2005

 

Gott kvöld, þið þarna nær og fjær

Ég sit hér við kertaljós, hlusta á Bing Crosby syngja 'Rudolph the Red Nosed Reindeer' og er það vel. Nei, nú eru The Platters byrjaðir á 'Please Come Home for Christmas', það er jafnvel enn meira viðeigandi. Prófið mitt í Breskri menningarsögu var hins vegar algjörlega óviðeigandi, ég fer hjá mér, svo djúpt er blygðunarkennd mín særð.

Í dag fór ég í Bónus og gekk ágætlega. 357 kr þar varið í nauðsynleg næringarefni.

Nei, þetta var slæm saga. Hér kemur ein góð: Á morgun verður lokað fyrir kalda vatnið hjá mér milli 8:30 og 14:00. Þá má ég ekki reyna að kveikja á þvottavél. Ég ætla að vera fyrirhyggjusöm og setja vatn á brúsa fyrir svefninn í kvöld. The End.

Hvað get ég sagt? Það er ósköp lítið að gerast um þessar mundir. Hápunktur dagsins yfirleitt þegar ég opna jóladagatalið mitt og fæ ekki vinning.

En... Ég á graflax! Oggulítinn bita sem var á 40% afslætti. Hvað ætli greyið hafi gert af sér til að vera lítillækkaður svona ógurlega? Ég er búin að máta bitann á hrökkbrauðsneið og hann smellpassar, svei mér þá. Hver þarf sósu? Þær eru bara fyrir veimiltítur og kónga.

Ef ég væri kóngur þá mundi ég fá mér mangó á hverjum degi. Svo myndi ég líka kaupa mér Manolo Blahnik (eða hvernig sem það er stafsett) skó og ganga í þeim alltaf.

Nú, skyldi einhver þarna úti þrá að gefa mér jólagjöf upp á 6000 kr þá væri Blackadder The Complete Series vel þegið.

Takk og bless

þriðjudagur, desember 13, 2005

 

Mig langar í ASBO

eða Anti-Social Behaviour Order, sem bannar manni að taka próf.

Pant -

ekki vaska upp pottinn. Hann er ömurlega skítugur eftir andskotans soðnu ýsuna sem ég hafði enga lyst á. Það var bara það fljótlegasta sem mér datt og var ekki skyr eða hafragrautur eða eggjakaka.

Á morgun á að vera hvasst og því nenni ég ekki, þar sem ég þarf að lalla upp í HÍ og leggjast undir fallöxina öðru sinni. Svo hafði ég líka hugsað mér að póstleggja eins og 1, 2 jólapakka sem eru orðnir of seinir. Ó. En ljótt af mér, slæmur jólasveinn!

Mig vantar líka stílabók og 18 kynþokkafulla skylmingaþræla sem kunna að yrkja ljóð og nudda.

mánudagur, desember 12, 2005

 

Helga 1 - Háskóli Íslands 0

One down, three more to go...

Veit ekki hvort það telst jákvætt að byrja á eina faginu sem maður getur eitthvað í - vissulega hressandi fyrir andann en þeir kraftar duga skammt þegar framundan er svartnættið eitt.

Nei, ég segi bara svona.

Það er yfir mér einhver eftir-prófs-doði, Linda, þú veist hvað ég meina. En þetta var gott próf af minni hálfu, þótt kennarinn fljóti sofandi að feigðarósi hvað vinnubrögð varðar.

Annað mál, hvar eru þessir jólasveinar eiginlega? Ég er búin að vera þvílíkt góð stelpa og læra rugl mikið í marga, marga, alltof marga daga, en fékk ekki einu sinni lambasparð í skóinn í nótt. Og ég á sko helling af skóm - hér í þessu herbergi eru 8 pör og meira til fram í forstofu. Ég er heldur ekkert að fá vinning í jóladagatali Íslandsbanka og mánuðurinn hálfnaður. Dagatalskertið bregst hins vegar ekki og enska jólakakan er hamingjukaka.

Ég er víst búin að skuldbinda mig til að birta hin og þessi netkeðjubréf hér en það verður að bíða fram yfir próf, núna nöldra ég bara um það sem mér sýnist. Já, nú og nú sýnist mér sem svo að löngu tímabært sé að nöldra yfir veðrinu í þessarri borg; fjandinn hafi það, það rignir endalaust! Eins og það sé ekki nógu þungbúið yfir sálartetrinu í mér um þessar mundir. Hún Amma Helga sendi mér reyndar andlega lopapeysu með símtalinu sínu áðan, það var bara nokkuð ánægjulegt. Pant verða nákvæmlega eins og hún þegar ég verð gömul kona. Og ég ætla að eiga gamlan mann eins og Pétur Knútsson, ekki hann þó, því Kristín var fyrst, en alla vega þannig manneskju og gjarnan með hár í allar áttir líka. Svo væri ágætt ef hann kynni að meta Yeats og Joyce og Lawrence og Tennyson, já, og auðvitað Keats kallinn. En ég fer svo sem ekkert sérstaklega fram á það. Bara hárið.

sunnudagur, desember 11, 2005

 

Eruðekkjaðgrínast? (tilvitnun lýkur)

Var fyrirsögnin á seinasta bloggi virkilega titillinn á nýju Nylon-plötunni, og enginn benti mér á þetta HRYÐJUVERK!

Meira af slíku, því veröld versnandi fer - og til marks um það hlaut Íslendingur titilinn Ungfrú Heimur 2005, sem er neikvæðara en allt. Já, ég get ómögulega óskað grey stúlkunni til hamingju, einungis þess að hún skilji fyrr en síðar hvað hún er að gera sjálfri sér. Og þessir foreldrar hennar, í alvöru, er það þeim hjartans mál að einkadóttir þeirra verði seld sem lambakjöt á alheimsmarkaði? Þetta þykir mér ekki til marks um ást og umhyggju. Ég hélt að það væri hlutverk uppalenda kenna börnum hvað einkenni góða og mikilsverða manneskju, og að meta sjálfa sig á þeim forsendum. Ef einhvern langar að bæta heiminn þá getur hann farið í stjórnmál eða gengið til liðs við hjálparsamtök. Það breytir engu fyrir fólkið sem sveltur og frýs í Pakistan hvort einhver uppstríluð gervinagla-dúkka með kórónu segist finna til með þeim. Og mér finnst forseti Íslands ekki hafa neitt umboð til að óska stelpunni til hamingju, alla vega ekki frá mér - þetta er skammarlegt og ekki landi og þjóð til sóma. Síðan hvenær taldist það góð landkynning að auglýsa okkur sem yfirborðskennda og sjálfhverfa útlitsdýrkendur?

Lykla-Pétur: "Hvað hefur þú gert í lífinu?"
Unnur Birna: "Ég var sko fallegust."
Lykla-Pétur: "So?"
Unnur Birna: "En það var sko Beauty with a Purpuse..."

Á léttari nótum þá keypti ég mér ekta enska jólaköku í Bernhöfsbakaríi - skilst að sé ein sú frægasta sinnar tegundar í bænum. Nú finnst mér áfengisbragð vont og þessi ávaxtakaka er sko böðuð upp úr koníaki, en what the hell, maður lifir bara einu sinni, og mér leiddist. Kemur svo ekki upp úr krafsinu að kökuskömminn er geeeeeeeðveikt góð! Vá, hún verður sko jólahefð hjá mér héðan frá. Afgreiðslustúlkan sagði að ég mætti ekki keyra eftir að hafa borðað eina sneið, sem gæti útskýrt hví mér þótti svona voðalega gaman að læra eftir kaffi á föstudaginn.

Annars er ég ekkert svakalega hress. Fyrsta prófið á morgun og ég er búin að vera upp fyrir haus í lestri í næstum viku. Það góða við að láta svona langt líða milli bloggfærslna er reyndar hversu mörgum kommentum maður nær að safna... Það slæma er að maður hefur svo mikið að segja að það er ekki hægt að pikka það inn í einni stuttri lespásu.
Hér kemur því brot af því besta:

Búið að kaupa ALLAR jólagjafirnar
Unaðsleg verslun á Ingólfsstrætinu sem heitir Frú Fiðrildi
Kvöldheimsókn frá Siggu minni sem færði smákökur og kaffisúkkulaði
Uppgötvun: fólk getur kynnst mér á 3 mánuðum (sbr. kaffisúkkulaði)
Jólapakki frá Kunihiko í Japan - a.m.k. 7 bækur, já!
Engin vinna á milli jóla og nýárs
Menntamálaráðherra er að draga í land með samræmdu stúdentsprófin
Búið að gera upp baðherbergið heima
Ég og Valdís Anna saman á vakt á aðfangadagsmorgun, gleði gleði
Jóladagatal Íslandsbanka, þó ég sé ekki búin að vinna rassgat
Tilraun Adda til að borða smákökur hjá mér, nýkominn úr tannréttingum
Símtal frá elsku Ingu Steinunni með miklum umræðum um íslenska menntakerfið
Já, og enska jólakakan (hæ, hó og rommflaska með!)
Sarah-Mama á MSN
Fleiri kerti í kassanum en ég hélt
Mandarínur í Rope Yoga
Og Drífa frænka kemur heim milli jóla og nýárs!

Bless.

þriðjudagur, desember 06, 2005

 

Góðir hlutir

Kertaloginn að brenna niður dagatalskertið mitt
Að coke-lestin sé til í alvörunni og keyri niður Laugaveginn um helgina
Sjóðandi heitt neskaffi eftir kvöldmat
Að vera (næstum) búin að kaupa allar jólagjafirnar
Ljóta mömmupeysan
Að hafa keypt ógeeeeeeeðslega flotta gjöf handa Hildi Söru, oh
Handstúkur úr ull
'The Sally Gardens' eftir Yeats við enskt þjóðlag
Pabbi minn sem hringir í mig þegar ég þarf að tala við einhvern en er ekki búin að fatta það
Að það sé til fólk sem vilji hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni
Pétur Knútsson
Að það séu 2 jólabúðir í mínútna göngufæri frá húsinu mínu
Kertavax á puttann
Að börn leigusalanna ætli að leigja af okkur íbúðina yfir jólin - lifi hússjóðurinn
Að Finnbogi eigi þykjustutrukk
Jesúbarnið, auðvitað
Litla systir mín sem hringir þegar hún sér á blogginu mínu að ég sé í krísu
Að eyða laugardagskvöldi með vinkonum mínum úr enskudeildinni
Að mamma skuli hafa sent mér uppáhaldsjóladiskana mína að heiman
Kaffitár
'Tuck Everlasting' eftir Natalie Babbit
Að Inga skuli virkilega senda mér Hussel súkkulaði fyrir jólin
Að við mamma skulum báðar hata Composition
Tölvupóstur frá vinum mínum í Japan og Taílandi
Gúbbý
Johnny Martin að syngja 'When A Child Is Born'
Stúdentsmyndin af Unni sem ég fæ í jólagjöf
Að eftir 2 vikur verði ég heima á Akureyri
Að sofna í Rope Yoga
Að fljótlega hitti ég Valdísi Önnu og Freyju og Steinlaugu í Bókval og vinni með þeim, vei
Útskriftartónleikar Kristínar söngkríu
Að spjalla við Valdísi Ösp áður en hún fer til Austurríkis og hlýna í maganum af gleði
Jólin, bráðum

mánudagur, desember 05, 2005

 

Hversu ömurlegt?

Hárið á mér er þurrt og slitið.
Sjampóið mitt og hárnæringin eru búin.
Ég á ekki pening til að kaupa nýtt sjampó og hárnæringu.
Húðin á mér er þurr.
Neglurnar á mér eru þurrar.
Ég get ekkert gert í því.
Maskarinn minn er að klárast.
Ég verð að bíða fram til 19. des. með að kaupa nýjan.
Ég vaki fram til klukkan 3 á næturnar.
Ég hef ekki ástæðu til að vaka, bara get ekki sofið.
Sauðdrukkið og leiðinlegt fólk öskrar hástöfum í götunni minni að næturlagi allar helgar.
Ég er með rauðsprengd og þrútin augu og fjólubláa bauga.
Baugahyljarinn minn er búinn.
Ég verð að bíða fram til 19. des. með að kaupa nýjan.
Nýju náttbuxurnar mínar hlupu í þvotti.
Það er kalt úti og ég á engan bíl.
Það er aðventa óg ég er fangi í herberginu mínu með ekkert að gera nema læra.
Ég nenni ekki að læra.
Ég kvíði svo mikið fyrir prófunum að ég tárast núna.
Það er ekki einu sinni dimmt svo ég geti haft kveikt á kerti.
Ég kemst ekki á neina jólatónleika.
Ég er úrvinda eftir vinnuna þessa helgi.
Næsta vinnuhelgi verður helmingi verri.
Þá ætti ég líka ekki að vinna heldur lesa fyrir síðasta prófið.
Ég get ekki lesið neina jólabók og varla kynnt mér þær að nokkru leyti.
Því er ég lélegur starfskraftur.
Maður var barinn í spað fyrir utan vinnustað minn 3 klst áður en ég mætti þangað til vinnu síðastliðinn laugardag.
Ég á ekki jólaföt.
Ég er hrædd um að ég finni ekki jólaföt á þessu eina kvöldi sem ég hef til að redda þeim.
Mér er búið að vera illt í maganum í 3 daga.
Mjólkin er búin.
Ég þarf að senda pakka til Taílands og Japan sem kostar mikinn pening sem ég á bara ekki.
Það er aftur komin sprunga í hælinn minn.
Ég sakna mömmu og pabba hræðilega.
Ég vil ekki að Valdís fari burt til Austurríkis í marga mánuði og Þórunn til Noregs og Una til Frakklands og að Inga búi í Þýskalandi.
Ég skrifaði ömurlega lokaskýrslu fyrir Composition.
Ég get ekki hugsað mér að læra hljóðfræði núna.
Ég kíkti óvart í ógeðslega bók um barnaperra, morðhund, nauðgara og drulluhala sem lét mér líða illa í sálinni.
Sæti viðskiptavinurinn sem ég ætlaði að reyna við reyndist vera höfundur sóðabókarinnar.
Mér varð óglatt eftir þau kynni og fæ velgju enn við að hugsa um þau.
Ég á ekkert súkkulaði.
Ég á engar smákökur.
Það fást engar góðar smákökur í Krambúðinni.
Why?

sunnudagur, desember 04, 2005

 

Það fór kertavax á tölvuna mína

og í augnablikinu hef ég óbeit á jólunum.

Nei, annars, ég hef óbeit á barnaníðungum og kokteilsósu - best að endurskoða þetta.

Aha.

Ég hef óbeit á próflestri á öðru sunnudagskvöldi aðventunnar.

fimmtudagur, desember 01, 2005

 

Elskuleg litla systir mín

hringdi og sagðist ekki vita hvernig hún ætti að mála sig fyrir árshátíð MA. Mér er illt í hjartanu, mig langar svo að hjálpa henni!

Góði guð, gefðu mér þyrlu...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?