fimmtudagur, júní 09, 2005

 

Stór stelpa

Er orðin það sem næst því kemst að vera fullorðin. Búin með framhaldsskóla. Byrjuð að vinna og bíð eftir að komast í háskólann fyrir sunnan. Allar einkunnir komnar og enginn vafi leikandi á því hvort ég mun útskrifast frá Menntaskólanum á Akureyri þann 17. júní næstkomandi. Sumsé, eftir 11 daga, eða svo. Maður er ekkert að átta sig á þessu, undirmeðvitund mín telur sig munu snúa aftur í G13 að hausti. Þetta væri allt mjög sorglegt ef ég væri fær um að gera mér grein fyrir aðstæðum. En það gerist væntanlega ekki fyrr en á föstudaginn í næstu viku og þá verður sko grenjað, hah! Eiginlega ætti ég alveg að sleppa því að mála mig, nema ég finni mig knúna til að líkjast Picasso málverki á góðri stundu.

Ekki nóg með það að ég sé orðin stór, heldur er ég líka ískyggilega stressuð yfir væntanlegum útskriftarklæðum mínum. Saumakonan ágæta sem var ráðin til að sníða mér appelsínugulan kjól og jakka (nei, Inga, þetta verður ekki svona gulrótarbúningur) liggur með strekkta kokka og er ekki einu sinni búin að máta á mig sniðið... og ég fer í myndatöku á þriðjudaginn, daddara... Æ, hún lofar að koma til mín á morgun og svo get ég mátað dressið á sunnudag og þá ætti allt að vera klappað og klárt fyrir þriðjudaginn. Eins gott! Ég er ekki það vel fötuð að ég geti bara dregið eitt stykki útskriftarklæðnað fram úr erminni eða fataskápnum (sem er tómur, by the way) bara rétt si svona, og með mín komplexa er næsta ógerlegt að strauja bara niður í bæ og inn í Gallerí og finna þar umbúðir við hæfi. Úff, þetta er erfitt líf.

Það eru 99% líkur á að ég fái inni í Bókabúð Máls & menningar Laugavegi, ég á að hitta verslunarstjórann þegar ég fer suður í júlí - merkilegt með fólk á Stór-Reykjavíkursvæðinu, hvað það heldur alltaf að að landsbyggðarbúar eigi sí og æ erindi suður. Persónulega, þá hef ég hvorki efni á né minnstu löngun til að eyða helgi í borginni, þennan takmarkaða tíma sem ég hef til að vinna áður er haldið verður til Þýskalands. Ég einfaldlega neyðist til þess, því við Kata og Erla þurfum að skoða Bergstaðastrætið þar sem við ætlum okkur að dveljast í vetur. Vinsamlegast krossið fingur og óskið þess mér hlotnist þetta stöðugildi, annars neyðist ég til að kasta mér fyrir björg.

Allir virðast vera að gera gagngerar breytingar á sínum lífsháttum þessa dagana. Við öll að klára menntaskólann, fara að heiman og út í lífið, Ester frænka að klára hönnunarnámið sitt fyrir sunnan og Dúnna frænka að ljúka við hjúkrunarfræðinginn í HA, Aldís frænka að fara frá Ítalíu til Danmerkur í arkítektanám, Bretarnir mínir að leita sér að nýju húsnæði, Steinlaug og Freyja, kollegar mínir, nýbúnar að kaupa sér íbúðir og Freyja líka að fjárfesta í nýjum bíl, Traustinn að hætta í Bókval og stefnir á tækniháskóla í Baunverjalandi, litla systir á leið undir skólans menntamerki, Anna, fiðlukennari fjölskyldunnar í Kambagerði 1, flutt til Póllands, Gunnar Dungal barasta að selja mig og allar bókaverslanir Pennans, Eymundsson, Máls & menningar og Blaðadreifinguna eins og hún leggur sig (spurning hvort þessi umræddi "hópur fjárfesta" er Baugur Group - híhí, Helga grúppía), Björk búin með framhaldspróf á fiðlu og hélt þessa líka þrusueinleikstónleika, og meira að segja mamma ætlar að skella sér í HÍ í haust.

Við verðum góðar saman í enskudeildinni. Mamma er menntaður grunnskólakennari, sem sagt með B.Ed.-gráðu og nú mun hún láta gamlan draum og rykfallnar áætlanir rætast og taka aðra Bachelor-gráðu, að þessu sinni B.A í ensku, hennar aðalfagi. Það þýðir að hún þarf að ljúka nokkrum kúrsum sem hún getir tekið í fjarnámi, en þetta eru einmitt námskeið sem ég þarf líka að sækja, enda stefnum við augljósalega að sama markinu. Svo verður voða stemming þegar mamma kemur suður og við skellum okkur saman í próf...

Og já, ég er byrjuð að hlaupa aftur! Mjöðmin er að lagast og í gær tók ég 12 km, bara á góðu æfingatempói, 58 mín :-) En nú í dag vil ég hvíla svo þetta taki sig ekki upp.

Kílómetrar: 0 - samspil álags og hvíldar, jájá
Kaffibollar: er á 1., rétt að byrja

miðvikudagur, júní 01, 2005

 

Helga auli

Hm, var að skoða My Profile og þar stóð skýrum stöðum að ég væri Virgo. Nú, eins og gefur að skilja þá er ég Aquarious, þar sem ég átti ammæli 9. febrúar síðast þegar ég gáði. Mér virðast tvær ástæður mögulegar:

a) blogger.com þykist vita að ég sé svona voða hrein virgin mey, finnst það gasalega fyndið og setti það í prófílinn minn handa öllum heiminum að hlæja að
b) ég sjálf er erkifífl og skráði í date of birth: 9/2... gengur sumsé ekki upp þar sem þetta er amrísk bloggsíða, og þá skal rita mánaðartöluna á eftir deginum... jáhá, í USA er ég fædd 2/9

Kílómetrar: bleh
Kaffibollar: ...

 

Búin í prófum

Ókei, það er fínt að vera búin í skólanum. Æfði mig í dag að segja við Andra litla bróður: "Þegar ég var í MA..."

Síðasta prófið mitt hjá Erni Þór var bara bærilegt. Karluglan var þó búinn að breyta ritgerðarefnunum sem hann hafði gefið okkur upp fyrirfram, en svona er lífið, maður getur víst ekki gengið að neinu sem vísu.

Svo varð þetta yndislegur dagur:
- fór í Bókval að skoða vaktaplanið mitt, vei!
- fór í linsumælingu og pantaði þar einhverjar súrefnislinsur (þorði ekki að spyrja konuna hvort þær önduðu)
- fór í hádegi með föður mínum elskulegum
- fór í Nettó með mömmu (hún er ágæt líka)
- sótti afmælisgjöfina hennar Unnar - hún var loksins tilbúin, ó svo fín, tveir keramikbollar sem ég fékk listakonu til að gera sérstaklega og mála á annan "Unnur" og á hinn "Helga", loksins, grey Unnur er búinn að bíða eftir þessu í 4 mánuði
- skutlaði Unni og Rósu á Glerártorg
- fór með Unni og Sigga í Brynju, uhm, ljúft
- tjillaði með Unni og Sigga í Stekkjargerðinni, hey, flott að vera bara heima hjá þeim og þá meina ég að bara þau eigi heima þar
- sótti lokaverkefnið mitt í íslensku niður í skóla
- eldaði dýrindis ommelettu í kvöldamatinn
- gerði skyrtertu fyrir skólaslitin hennar Hildar Söru, hún þykist vera búin að ljúka 10. bekk
- bloggaði

þetta

Á morgun: vinna

Kílómetrar: er meidd, látiði mig vera
Kaffibollar: einn og tveir

 

Ó mig auma

Helga dugleg, fór á hlaupaæfingu hjá UFA á mánudaginn:

3 km upphitun
drills
5 x 100 m vaxandi sprettir
10 x 200 m á undir 40 sek (ekki hraðaæfing) með 2 mín bataskokki
10 mín skokka niður
teygjur og mýking í 20 mín
"fitness"
teygjur í 10 mín

dauði

dauði og djöfull, fer á eina æfingu og tekst að meiða mig!

minnir á mína fyrstu fimleikaæfingu þegar ég var í 2. bekk og byrjað glæstan feril minn í því sportinu með því að stökkva niður úr rimlunum og slasa mig á ökkla

dauði yfir allt saman!

Fann s.s. fyrir eymslum í mjöðm í síðustu viku, hélt að hefði bara teygt illa einhvern daginn, tók öllu rólega fram á seinasta mánudag... Hefði klárlega átt að hvíla lengur því mér tókst að koma mér upp þessum líka fína verk. Hann er þeirrar náttúru að ég get ekki gengið. Hvað þá hlaupið.

dauði

Má ekki hlaupa. Á að tala við sjúkraþjálfara. Er á biðlista. Er sjúklingur. Er biluð. Er aumingi.

Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum þá má ég ekki hlaupa. Get ekki einu sinni hjólað eða farið á stigvél eða skíðagönguvél eða róðravél því það teygir allt framan á mjaðmarliðnum og það er VONT VONT VONT!

Lífið er vont og allt er á móti mér.

Lærði annars helling á þessari æfingu:

halla betur fram, of mikill bakhalli

lengri skref í hraðahlaupum

meiri kraft í hvert skref (sem langhlaupara er mér eðlilegt að eyða lítilli orku í skrefin, voða sparneytin)

betri spyrnu frá braut

meiri vinnslu vinnslu vinnslu

hraðara í beygjur

standa ákveðið og rugga fram, aftur, fram áður en tekið af stað í tímatökuæfingu

það þýðir að ég á ekki að rugga hægri vinstri aftur vinstri og lenda á maganum

keyra yfir línuna

hlaupa innst á brautinni

hlaupa í öxlinni á næsta

ekki beint fyrir aftan, lokast þá inni og fæ gadda í andlitið

annars gott

Já, kláraði MA í dag. Nei, vil ekki ræða það frekar.

Kílómetrar: 0 0 0 0 0, já, rub it in...
Kaffibollar: 2

This page is powered by Blogger. Isn't yours?