fimmtudagur, júní 09, 2005

 

Stór stelpa

Er orðin það sem næst því kemst að vera fullorðin. Búin með framhaldsskóla. Byrjuð að vinna og bíð eftir að komast í háskólann fyrir sunnan. Allar einkunnir komnar og enginn vafi leikandi á því hvort ég mun útskrifast frá Menntaskólanum á Akureyri þann 17. júní næstkomandi. Sumsé, eftir 11 daga, eða svo. Maður er ekkert að átta sig á þessu, undirmeðvitund mín telur sig munu snúa aftur í G13 að hausti. Þetta væri allt mjög sorglegt ef ég væri fær um að gera mér grein fyrir aðstæðum. En það gerist væntanlega ekki fyrr en á föstudaginn í næstu viku og þá verður sko grenjað, hah! Eiginlega ætti ég alveg að sleppa því að mála mig, nema ég finni mig knúna til að líkjast Picasso málverki á góðri stundu.

Ekki nóg með það að ég sé orðin stór, heldur er ég líka ískyggilega stressuð yfir væntanlegum útskriftarklæðum mínum. Saumakonan ágæta sem var ráðin til að sníða mér appelsínugulan kjól og jakka (nei, Inga, þetta verður ekki svona gulrótarbúningur) liggur með strekkta kokka og er ekki einu sinni búin að máta á mig sniðið... og ég fer í myndatöku á þriðjudaginn, daddara... Æ, hún lofar að koma til mín á morgun og svo get ég mátað dressið á sunnudag og þá ætti allt að vera klappað og klárt fyrir þriðjudaginn. Eins gott! Ég er ekki það vel fötuð að ég geti bara dregið eitt stykki útskriftarklæðnað fram úr erminni eða fataskápnum (sem er tómur, by the way) bara rétt si svona, og með mín komplexa er næsta ógerlegt að strauja bara niður í bæ og inn í Gallerí og finna þar umbúðir við hæfi. Úff, þetta er erfitt líf.

Það eru 99% líkur á að ég fái inni í Bókabúð Máls & menningar Laugavegi, ég á að hitta verslunarstjórann þegar ég fer suður í júlí - merkilegt með fólk á Stór-Reykjavíkursvæðinu, hvað það heldur alltaf að að landsbyggðarbúar eigi sí og æ erindi suður. Persónulega, þá hef ég hvorki efni á né minnstu löngun til að eyða helgi í borginni, þennan takmarkaða tíma sem ég hef til að vinna áður er haldið verður til Þýskalands. Ég einfaldlega neyðist til þess, því við Kata og Erla þurfum að skoða Bergstaðastrætið þar sem við ætlum okkur að dveljast í vetur. Vinsamlegast krossið fingur og óskið þess mér hlotnist þetta stöðugildi, annars neyðist ég til að kasta mér fyrir björg.

Allir virðast vera að gera gagngerar breytingar á sínum lífsháttum þessa dagana. Við öll að klára menntaskólann, fara að heiman og út í lífið, Ester frænka að klára hönnunarnámið sitt fyrir sunnan og Dúnna frænka að ljúka við hjúkrunarfræðinginn í HA, Aldís frænka að fara frá Ítalíu til Danmerkur í arkítektanám, Bretarnir mínir að leita sér að nýju húsnæði, Steinlaug og Freyja, kollegar mínir, nýbúnar að kaupa sér íbúðir og Freyja líka að fjárfesta í nýjum bíl, Traustinn að hætta í Bókval og stefnir á tækniháskóla í Baunverjalandi, litla systir á leið undir skólans menntamerki, Anna, fiðlukennari fjölskyldunnar í Kambagerði 1, flutt til Póllands, Gunnar Dungal barasta að selja mig og allar bókaverslanir Pennans, Eymundsson, Máls & menningar og Blaðadreifinguna eins og hún leggur sig (spurning hvort þessi umræddi "hópur fjárfesta" er Baugur Group - híhí, Helga grúppía), Björk búin með framhaldspróf á fiðlu og hélt þessa líka þrusueinleikstónleika, og meira að segja mamma ætlar að skella sér í HÍ í haust.

Við verðum góðar saman í enskudeildinni. Mamma er menntaður grunnskólakennari, sem sagt með B.Ed.-gráðu og nú mun hún láta gamlan draum og rykfallnar áætlanir rætast og taka aðra Bachelor-gráðu, að þessu sinni B.A í ensku, hennar aðalfagi. Það þýðir að hún þarf að ljúka nokkrum kúrsum sem hún getir tekið í fjarnámi, en þetta eru einmitt námskeið sem ég þarf líka að sækja, enda stefnum við augljósalega að sama markinu. Svo verður voða stemming þegar mamma kemur suður og við skellum okkur saman í próf...

Og já, ég er byrjuð að hlaupa aftur! Mjöðmin er að lagast og í gær tók ég 12 km, bara á góðu æfingatempói, 58 mín :-) En nú í dag vil ég hvíla svo þetta taki sig ekki upp.

Kílómetrar: 0 - samspil álags og hvíldar, jájá
Kaffibollar: er á 1., rétt að byrja

Comments:
Blendnar tilfinningar verður klárlega þema föstudagsins!
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?