mánudagur, nóvember 27, 2006

 

Now that my ladder is gone

I must lie down where all ladders start
In the foul rag-and-bone shop of the heart

Eftirlætis ljóðið mitt. Ever.
W.B. Yeats - þegar allt kemur til alls þurfum við bara að geta horfst í augu við okkur sjálf.
Er það ekki ég sem þarf að lifa með mínum ákvörðunum?

Og núna er mér illt í maganum því ég er þralli.
Aðeins of mikið stress og ég dett í Cadbury's Dairy Milk Fruit and Nut. Og mjólk að drekka.
Takiði eftir þessu? Dairy MILK, og MJÓLK með.
Og þetta frá konunni sem hefur lært af biturri reynslu að of mikið af mjólkurvörum, það er laktósamenguðum, óbeinum dýraafurðum, lætur aumingja mallann minn kreistast og kremjast og engjast um af óverðskulduðum kvölum.
Að ekki sé minnst á hvernig ég finn allar mettuðu fitusýrurnar teppaleggja æðarveggina mína, og helvítis hydrogenated olíurnar úr súkkulaðiklumpunum fremja valdarán í frumubyggðarlögunum inn í mér og þjóðarmorð í fitukirtlum andlits míns.
Stundum held ég að ég sé ofnæm - mér finnst ég skynja hvert einasta blóðkorn og þekkja alla mína vöðvaþræði, og ef einhver er illa smurður, eða nærður, eða mengaður, eða dauður og rotnandi þá byrjar mig að klæja í tærnar, og kláðinn skríður upp í hnésbætur og handarkrika og hálsakot og svo springur á mér hársvörðurinn og ég finn, finn, finn fyrir öllu en engan frið.

Þannig líður mér núna, í ofanálag við magakveisuna.
Það hefur sumsé verið mikið að gera. Og ég brotnaði. Óó.

Góðu fréttirnar eru hins vegar að fórnir hafa ekki verið færðar til einskis heldur skila sér í ánægjulegum afköstum. Hvað á ég eftir að læra á þessari önn?
- endur- /umrita ritgerðaruppkast fyrir Con Am (ljúka á föstudag)
- 1 skáldsaga fyrir Pop Fic (lesa á þriðjudaginn eftir 1 viku)
- 1 skáldsaga fyrir Con Am (lesa á sunnudaginn eftir 2 vikur)
- ritgerð fyrir Pop Fic (næsta vika í heimildasöfnun og drög, jólafríið í uppkast og hreinritun)

Ég er búin að lesa alla teoríuna, ALLA og skáldsögur 2 vikur fram í tímann. In your face, Keele.

Undanfarnar klukkustundir hafa verið skrýtnar. Eftir unaðslega afslappandi laugardag með tónlist og tímaritum og göngutúrum og góðu spjalli vaknaði ég á hádegi í gær.
Las vikuskammt í teoríu fyrir Con Am.
Las annan vikuskammt í teoríu fyrir Con Am.
Las vikuskammt í teoríu fyrir Pop Fic.
Las annan vikuskammt í teoríu fyrir Pop Fic.
Las skáldsögu fyrir Con Am - og nú var komð miðnætti en ég var ekki syfjuð og óstöðvandi.
Las aðra skáldsögu fyrir Con Am - nú var klukkan 4 am og bara 3 1/2 tími í fótaferð fyrir málstofu... hvað gerði maður þá?
Las skáldsögu fyrir Pop Fic.
Og svo dekursturta.
Heitt, kalt, heitt, kalt, andlitssápa, andlitsskrúbbur, skrúbba skinnið fast, raka allt óvelkomið af kroppnum, pússa fæturnar og tásurnar, heitt, kalt.
Andlitsvatn, andlitskrem, fótakrem, body lotion, roll-on, signature scent. Hár. Make-up. Föt.

Oooooog klukkan er 8:40 og yðar einlæg strunsar að kaupa sér sojalatte (tvöfaldan, ekki veitir af) og svo beint í Con Am málstofu. Það koma dropar úr himninum sem breytir engu, það er ekki hægt að vera hreinni og kátari. Það eru haustlauf að sjálfsögðu og hún minnir sig á að kíkja í mailroom eftir skóla. Kannski eru bókatíðindin frá Unu komin...

Sem var reyndar ekki raunin en dagurinn var samt fallegur og góður. Alveg þangað til ég var komin heim eftir hádegi og búin að skríða í heimaföt og sofna í skrifborðsstólnum með andlitið klesst við The Times. Það kom þetta hefðbundna hógværa svefnslef sem bleytti upp í prentsvertunni og stimplaði á hægri kinnina mína: H me Secreta claims must ta otherw Tory jec

Nú er ég bara úldinn viðbjóður með magapínu en Cadbury endaði í ruslinu innan um blauta tepoka, svarta bómull og eyrnapinna með merg.

Ég ætla að sofa til hádegis á morgun, sturta mig og fara í hrein náttföt og drekka take-away kaffi frá Lindsey Bar og gera ritgerð með hausbuff. Og ef ég þarf að fara á bókasafnið þá verður umheimurinn bara að þola það. Ég á brauð og hnetursmjör og piccalilly sem er krydduð sulta og ávaxtate og rúsínur og Marks&Spencer's Ready Made Jacket Potato fyrir örbylgjuofninn og nóg af avakadó.

Eins og Scarlett O'Hara sagði: "After all, to-morrow is another day."

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

 

Í eldhúsinu

skapaðist neyðarástand um klukkan 19:00 að staðartíma.Ritgerðarlúinn háskólanemi, íklæddur flíspeysu, náttbuxum og ömmuinnskóm, uppgötvaði sér til mikillar hrellingar að hnetusmjörið var búið. Eitt og sér væri slíkt tilfelli kannski ekki óyfirstíganlegt en nú var staðan sú að það var ekkert til á bænum sem smyrja mátti oatkakes með.

The horror, the horror!

Nú, jafnvel það að vera viðbitslaus getur verið viðráðanlegt - maður bara borðar eitthvað annað. En téður stúdent var byrjaður að hita grænmetissúpu og hana dugir ekki að snæða eina saman. Kannski segir þá einhver: Af hverju fórstu þá ekki bara út í búð? Og svarið er einfalt: Það var hellihelvítisnóvemberrigning!

Ég var farin að sjá fram á frekar fátæklegan kvöldverð og snerist um sjálfa mig með fýlusvip þangað til ég mundi eftir parmesanostinum... Rándýra, skelfilega ljúffenga parmesanostinum sem ég ríf, ósköp spart og með ýtrustu varkárni, ofan á tómatsúpur, salöt og ítalskar sósur... Og ég hugsaði: Why the hell not? Svei mér þá, ef þessi máltíð var ekki bara með þeim betri sem ég hef mallað lengi. Oatkakes með pickles og þykkum sneiðum af fínasta hard cheese, þvílíkur lúxus. Hins vegar þá mun ég lykta af parmesan inn í næstu öld.

Það er sem sagt miðvikudagur og ég get ekki beðið eftir helginni. Ástæða þess er að ég þarf að skrifa ritgerð eins og spæta á amfetamíni til að sá hausverkur sé frá þegar Unnur mín kemur í heimsókn eftir 1 1/2 viku. Vinnuálagið hindraði mig hins vegar ekki í að horfa á hádegisfréttir BBC þar sem the "nanny state" var til umræðu.

Nú er það svo að stuðningsmenn the Conservative Party, eða Tories, eins og þeir kallast víst, eru hefðinni samkvæmt andvígir öllu sem gæti hugsanlega styrkt the welfare state (velferðarþjóðfélag) hér í UK. Það má segja að Tories séu hægri-sinnuð kapítalistasvín sem telja alla aldraða / fatlaða / sjúka / einstæða / innflutta / verðskulda óviðunandi aðstæður sínar því þeir séu ekki "nógu sterkir" til að lifa af í frumskógi the post-industrial multicapitalist state.

Ok, smá ýkjur kannski, en það var alla vega undir áralangri forrystu the Iron Lady Margareth Thatscher sem the Conservative Party komst vel á veg við að einkavæða hér allt, og þá meina ég allt. Og ein afleiðing þess er að megnið af öllu stúdentahúsnæði er einkarekið, sem þýðir að rétt eins og á almennum leigumarkaði, þá þurfa háskólanemar að leigja af aðilum sem hafa það að markmiði að græða á viðskiptunum. Sem sagt, há leiga, lélegur aðbúnaður. Sömuleiðis þá eru verslanirnar hér á campus reknar af einkaaðilum og því er ekkert hægt að kaupa hér í svanginn nema á uppsprengdu verði. En þetta var slaufa. Málið er að Tories eru gjarnir á að fussa við öllum tilraunum til samfélagslegra úrbóta og bera það fyrir sig að útkoman hljóti þá að verða fordekrað "nanny state" þar sem ríkisvaldið hugsar fyrir kjósendur sína svo aumingjans litlu ósjálfbjarga greyin þurfi ekki að taka neina ábyrgð og taki því aldrei neinum þroska.

Nú, hér í UK er hitt stærsta stjórnmálaaflið the Labour Party - klárlega meira vinstrisinnaður. Þeir eru núna við völd með Tony Blair í fararbroddi og hafa nýverið kynnt áform sín um hvernig leysa megi brýnasta þjóðfélagsvanda Breta í dag: óþæg börn.

Labour vill senda sérþjálfaða barnasálfræðinga og uppeldisfræðinga inn í "erfiðustu" svæði landsins, inn í hverfisbundin samfélög og bjóða þar upp á námskeið í barnauppeldi fyrir foreldra. Ástæða alls þessa er að hlutfall einstaklinga sem sýna afgerandi einkenni andfélagslegrar hegðunar fer stöðugt hækkandi - kannski óttast pólitíkusarnir að lýðræðið sjálft muni hrynja þegar fólk er orðið of "óhlýðið" til að mæta á kjörstað.

Burt séð frá því hvaða skoðun maður hefur á þessum tilburðum, þá verður nú að segjast að UK er með réttu orðið "nanny state"...

mánudagur, nóvember 20, 2006

 

Ég er miður mín -

miður mín!
Og það er sumsé saga...

Eftir málstofu í Amerískum Samtímabókmenntum fyrir hádegi (og tilgangslausa ferð í mailroom) þá byrjaði ég að lesa skáldsögu. Téð verk verður á dagskrá á miðvikudagsmálstofunni í Afþreyingarbókmenntum og Menningarfræðum og því ekki seinna vænna. Nú verður viðfangsefni vikunnar hryllingsbókmenntir - horror fiction - og þessi ágæta skáldsaga kallast Exquisite Corpse sem myndi útleggjast á hinu ástkæra ylhýra einhvern veginn svona: Unaðsfagurt Lík. Uhm... Nema hvað, þetta er bara ÓGEÐSLEGASTA BÓK SEM ÉG HEF NOKKRU SINNI LESIÐ!

Ég minnist þess að hafa fyrir u.þ.b. ári hneykslast mikið á bókinni Barnagælur sem kom út fyrir síðustu jól og ég asnaðist til að glugga í einhvern sunnudagsmorgun í vinnunni í Mál&Menningu. Vitaskuld stend ég við allt sem ég sagði þá en ég get svarið að sá óskapnaður var rjómagrautur í samanburði við helv... þarna Lík-bókina... Sko, hvernig er hægt að skrifa 300 bls. um geðsjúkan, sadó-masókískan fjöldamorðingja og náriðil, sem jafnframt er eyðnismitaður hommi, það er bara beyond me. Og þeir voru tveir, þessir vondu karlar. Og þess utan var annar eyðnismitaður hommi (deyjandi) með sjálfseyðingarhvöt, og ömurlega sjálfselskur eyðnismitaður samkynhneigður og siðblindur víetnamískur unglingur (sem dó).

Komst varla hjá því að hugsa: Nei, þetta er svo slæmt prómó fyrir réttindabaráttu samkynhneigðra og tilraunir við að koma heiminum í skilning um að alnæmi er ekki hommasjúkdómur sem verður til í "spilltu blóði", og jafnframt að samkynhneigðir eru ekki kynóðir frekar en gagnkynhneigðir. Og svo var þetta bara SJÚK saga með alltof ALLTOF grafískum lýsingum, fullkomlega smekklausum. Sannleikurinn er að áhrifamesti hryllingurinn er alltaf sá sem kviknar með lesandanum þegar maður þarf sjálfur að fylla í eyðurnar. Þetta var bara LJÓT bók og ég er hamingjusöm að geta sagt að hún var líka ILLA SKRIFUÐ.

En ég er skemmd engu að síður. 5 klst af svona sora eru meira en aumingjans sálin mín þolir. Að lestrinum loknum varð ég að þvo mér í framan, bara 3-step, takk fyrir, setja á mig hárband, skipta um föt og fara í klukkutíma göngu í kvöldkulinu, sem var kalt. Ég var með Frank Sinatra og raularavini hans í eyrunum og þeir hjálpuðu svolítið til við detoxið. Svolítið.

Alas, ég er miður mín - miður mín!

Eftir tómatsúpu og ristað brauð með hnetursmjöri og sultu þá tók Freud við. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það bætti úr skák...

Mér batnaði hins vegar svolítið við að spjalla við Unu á skype, en hún flutti mér þau gleðitíðindi að bókatíðindin (haha) væru komin í hús heima á Fróni (heima?) og kveðst jafnvel ætla að senda mér eintak... Vei! Nú er bara enginn desember án bókatíðinda og það veit hún Una mín og fyrir það eeeeelska ég hana. Hins vegar þá þarf ég að koma einu á framfæri:

Ekki gefa mér bækur í jólagjöf.

Plís, ekki. Málið er að ég þarf að skrifa ritgerð og læra fyrir próf í jólafríinu og geri því ekki ráð fyrir að það verði mikill tími aflögu í afþreyingarlestur, þar sem ég þrái, jú, að sinna fólkinu mínu heima líka. Og ekki get ég tekið fleiri bækur með mér út eftir jólin. Og það væri frekar súrt að láta bókagjöf bíða í Kambagerði þangað til ég sný aftur næsta sumar, ekki satt? Hins vegar er öllum guðvelkomið að gefa mér sterlingspund sem ég skal með glöðu geði eyða í bókmenntir um leið og ég er komin aftur til UK í janúar. Hér eru nefnilega girnilegustu bókabúðir í heimi. Mig langar alltaf í bækur, það ættu menn að skilja núorðið. Svo, óskalistinn minn í ár er stuttur: Sterlingspund, takk.

Og næst, tilkynningaskyldan:
- UK er líklega það land í heiminum þar sem notast er við flestar gerðir af sinnepi.
- Kvenfólk í UK heldur að það að flangsa lærunum í nóvember sé góð leið til að ná í gaur... en sannleikurinn er að það er ekkert æsandi við gæsahúðarhold sem lítur út eins og blárauður sandpappír.
- Fólk í UK er ekki búið að uppgötva að í siðmenntuðum menningarsamfélögum sem hafa farið í gegnum iðnvæðinguna, þá þykir gott og sjálfsagt að drekka kaffi eftir kvöldmat.
- Afgreiðslufólk í UK þarf að læra að þegar það er biðröð við kassann þá fer maður ekki og fær sér bita af afmælisköku kollegans.
- Eini staðurinn í UK þar sem má hrópa og rífast hástöfum ef menn eru ósammála er í Parliament (á þingi). Þar má jafnvel öskra á forsætisráðherrann, já sérstaklega á hann.

Og orðabókin:
- jacket: pappahlíf sem sett er utan um take-away pappírsmál undir heita drykki EÐA bökuð kartafla (jacket potato)
- nasty: lýsingarorð til að nota um allt sem þér líkar ekki
- coffee créme (skrifað café créme): café créme
- beans: bakaðar baunir
- rubbish: allt sem er ekki nógu vel gert

En, kannski ég snúi mér aftur að Freud...

föstudagur, nóvember 17, 2006

 

Týndi bloggarinn

snýr aftur.
Eftir of margra daga fjarveru frá netheiminum og umheiminum, eftir athyglisvert ferðalag inn í iður póstmódernískrar tilveru með tilheyrandi

nefrennsli

og maskarinn minn er búinn - note to self: find a Clinique retailer Saturday, oh come, Saturday!

það er gott að eiga húfu og fóðruð leðurstígvél

það er vont að klemma sig á ísskáp

spjalla við Drífu í símann í staðinn fyrir að læra

í UK þýðir half seven hálf átta 7:30 en ekki 6:30 og nú er það skjalfest svo ég get kannski munað það og mætt á réttum tíma

1,80 pund fyrir overdue bókasafnsbók

prince William virðist vera að fara að gifta sig en enginn veit hvenær

9 klst af heimildavinnu í gær

ammæli hjá Kajsu sænsku

í haustinu með blaut nóvemberlaufin allt um kring

stressaðasti málstofufyrirlestur í sögu veraldar, alas, gleymdi algjörlega að stoppa til að áheyrendur gætu svarað spurningum mínum EN Dr. McCracken hló, hló og sagði: "absolutely brilliant piece of work" svo ég er bara eiginlega stolt

falafel! falafel er gott gott gott

en ég á ekki meiri pickles og set bara sultu á brauðið

ég sakna systur minnar alltaf

degi íslenskrar tungu fagnað með hátíðarhádegisverði mínum og Kríu

bráðum koma jólin

og bráðum kemur Unnur mín í inntökupróf fyrir Royal Collage of Music og ég ætla að hitta hana í Manchester og vera andlegur stuðningur og hún mun gista hjá mér jájájá

gregorískir kirkjusöngvar á miðvikudagstónleikum í the Chapel og einn gestasöngvarinn var örugglega með hárkollu og leit út fyrir að vera að týnast í nótunum og það leið yfir gamla konu

teeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeeee

aftur powercut, argh! en í þetta sinn varði rafmagnsleysið einungis hálftíma

ísköld, viðbjóðslega hræðilega alltof köld sturta í gærmorgun því heita vatnið var horfið

það er að koma helgi, sem er jákvætt

og ég fékk 1st Class einkunn fyrir Jamesonritgerðarhryllinginn, thank you very much!

laugardagur, nóvember 11, 2006

 

Á laugardögum

á maður ekki að vera í Keele.
Kampus er dauður - dauður!

Þess utan þá kom ég ekki til Englands til að hrærast í smáogguponkuloftbólu sem er ekkert nema firrtur microcosm af raunverleika þessa lands.

Hm, eða þá að ég er bara óforbetranlegt borgarbarn.

Vikan var stórfurðuleg - klukkustundirnar ýmist sigu áfram eins og sírópið þegar mamma gerir rice krispies kökur, eða hverfðust inn í augnablikið og spíttu mér inn í miðjan næsta dag. Ástæðan fyrir allri ringulreiðinni er þó líklega hversu tímafrek skólavinnan reyndist mér undanfarið. Þurfti að skipuleggja ýmis verkefni frá grunni og finna fyrir þau heimildir á háskólabókasafninu sem ég er rétt að ná tökum á. Hér notast þeir nefnilega við furðulegt flokkunarkerfi, ekki það sem almennt er við lýði á bókasöfnum í heimi hér. Mér skilst að þetta sé einhver bölvaður ósiður sem þeir tóku upp eftir einhverjum sauðhausum í Washington DC - hví? En, alla vega, ég hef þurft að læra að rata um safnið og að skilja flokkunarkerfið og að nota leitarvélarnar og að færa hillurnar sundur og saman, hah, sem er nú bara nokkuð skemmtilegt. Ef ég væri að semja handrit að hryllingsmynd þá myndi sagan gerast á bókasafninu í Keele þar sem konur í gegnsæjum kjólum væru að kremjast á milli hreyfanlegra hillna. En, já, svo gerði gamalkunnug verkfælni líka vart við sig og angistin sem er hennar fylgifiskur en þetta hafðist svo sem.

Er nokkuð sátt bara, passaði mig að fara í labbitúra en sitja ekki bara á rassinum með nefið ofan í bókum og þó ég hafi ekki haft mig í yogatímana inni í Leisure Center þá stundaði ég bara mitt inni á herbergi eftir að hafa hlaðið batteríin með kvöldmatnum. Horfði ýmist á 1 o'clock eða 6 o'clock fréttir BBC á netinu daglega, hungangsbar á mér smettið, tók lappirnar í kakósmjörsþerapíu, borðaði mörg avakadó, drakk 30 bolla af te - veit töluna upp á hár því ég kláraði heilan pakka af tepokum -spilaði pool (illa) og ég veit ekki hvað.

Stundum held ég að almættið sé að gera grín að mér. Einhvern tíma lýsti ég því hvernig ég hitti sama gaurinn sem er með mér í Contemporary American Fiction, aftur og aftur á mismunandi stöðum sama daginn. Ég hafði engin samskipti við hann haft fyrr en þá en núna erum við fínir félagar. Svona var þetta líka með hana Sabrinu, kvenmann nokkurn sem situr með mér í báðum málstofunum. Dag einn sitjum við hlið við hlið og röltum saman í pásunni að kaupa kaffi. Við hittumst í strætó. Við hittumst aftur í strætó á leiðinni heim. Við hittumst við að kaupa kaffi áður en hin málstofan byrjar. Við hittumst í the American Studies Resource Room og förum saman að ljósrita. Hún býðst til að lána mér skáldsöguna fyrir næstu Pop Fic málstofu þ.s. ég er enn að bíða eftir mínu eintaki frá USA. Við hittumst aftur á bókasafninu. Við komust að því að blokkin hennar er við hliðina á minni. Við Sabrina erum góðar núna.

En í dag er laugardagur og ég fór burt frá Keele um leið og ég vaknaði. Þ.e. þegar ég var búin í sturtu og klæða mig og kaupa kaffi. Tók strætó inn í Newcastle og fór í feiknarlanga göngu með Joni Mitchell í ipodnum. Það var kalt en ég var í svarta vetrarjakkanum mínum með háa kraganum og lopavettlingana sem Amma Helga prjónaði. Elsku amman mín. Og með ullarhúfu, ekki má það gleymast í nóvemberkulinu. Kannaði áður ókunnar götur og horfði á haustlaufin fjúka og klínast við hattinn á gömlum karli. Gamlar konur með köflóttar innkaupakerrur á hjólum skröltu niður á the farmer's market í miðbænum og snoðkliptir prepschool pjakkar toguðu helgarpabbana sína á MacDonalds. 13 ára gelgjurnar streymdu líka í bæinn til að kaupa sér skartgripi á 3for2 í Claire's, svona eins og Reykjavíkurdætur flykkjast í Kringluna til að fara í Accesorize og á Stjörnutorgið. Yndislegar, bólóttar og ögn afkáralegar, undantekningarlaust í hópum. Með gsm, alltaf er einhver með gsm á lofti - ég get svo svarið að Englendingar eru uppteknari af símunum sínum heldur en Íslendingar og það er líklega vegna þess að svona græjur eru talsvert ódýrari hér en heima á Fróni, svo hvaða jólasveinn sem er getur verið með nýjasta nýtt.

Heima á Fróni - ég veit eiginlega ekki hvort ég á nokkurs staðar heima. Mér finnst ég ekki vera gestur hérna. Þegar ég flutti til Rvk tilheyrði ég borginni alveg jafn mikið og gömlu Ak - og núna, núna er ég ekkert að hugsa "heim" þegar hugurin leitar til Íslands. Það er bara annar staður fyrir aðra tíma. Kannski aðlagast ég yfirhöfðuð vel. Ég fæ ekki heimþrá þegar ég er í sambandi við fólkið mitt og ég fyllist ekki fortíðarþrá þegar ég heyri reglulega í vinkonunum - mér finnst þið alltaf vera hjá mér, stelpur. Það þýðir ekki að ég sakni ekki, bara að söknuðurinn sé bærilegur.

Ég keypti jólakort í dag handa öllum sem ég elska. Það var ekki auðvelt, skal ég segja ykkur. Það voru hér um bil sjögrilljón hundraðþrjátíuogáttaþúsund fimmtíuogein tegund af fallegum kortum í boði. Ég held það hafi tekið mig klukkutíma að ákveða mig en honum var vel varið. Það er aðeins einn galli á gjöf Njarðar, á öllum þessum fyrirtaks gjafakortum hér í Englandi: á öðru hvoru korti er einhver ömurlega cheesy vísa eða óhugnalega illa ortur ljóðstubbur. Yuck! Þvílík melódramatík sem rúmast getur á A6 blaðsnepli, svona spauglaust.

Og ég las mörg mörg tímarit. Ég er nú þegar búin að eyða alltof miklum pening í tímarit en ræð bara engan vegin við mig. Þau eru líka öll fáránlega ódýr miðað við heima, oh, svooo varasamur hugsunarháttur. Tímaritamenningin hér er algjör unaður. Það eru the glossy mags, eins og Marie Claire og Elle, og það eru tímarit um ethical living og organic eating, og það eru health magazines, bæði fyrir skvísur, s.s. Health and Fitness, og svo fyrir miðaldra húsmæður með stuttklippt hár og permanet í Primark stuttermabolum, t.d. Slimmer World, og það eru kerlingarblöðin Woman og Woman's Own og Woman's Weekly, og það er slúðrið góða í Best, Now, New (og við erum að tala um að þetta kosti á bilinu 60p-85p!), og síðast en ekki síst hin legendary Hello og OK...

Sum tímarit, eins og New, fjalla um eintóm celebrity, bæði þau sem eru á heimsklassa: "Kylie's back! Touring her Australian Turf", og svona sérensk fyrirbæri: "Charlotte Church's Cellulite Scare" eða "Jade Goodey Treats her Mum to a Posh Dinner". Önnur, s.s. öll þessi Woman blöð, eru smekkfull af dásamlegum greinum um fólk enginn þekkir en hefur öðlast sínar 5 mín af frægð fyrir: "I Begged Doctors to Cut My Leg Off" eða "I Lost 7st for Christmas"...

Tómur unaður. Og unaður var líka öll Winnie the Pooh dagatölin í W.H. Smith. Og unaður var að fara í Sainsbury's í dag og fylgjast þar með enskum húsmæðrum á útopnu. Minnir mig á popptextann "Sex is Sainsbury's" - þessi stórmarkaður er eins og Hagkaup "Þar sem Englendingum finnst skemmtilegast að versla!"

Og unaður var að fara á uppáhaldskaffihúsið mitt og borða granarybread with cheese and pickles.
Uhm.
Góður dagur - ekki í Keele.

mánudagur, nóvember 06, 2006

 

Alas

þá var ég að panta bók.
Ég ætti ekki að vera að kaupa mér bækur en þetta er bara... Ég eiginlega... Æ, OK, ég er óforskömmuð, fyrirhyggjulaus og mannleg bara.

Svo ég vitni ég í Andra bró - maður má nú vera breyskur.

Þetta voru kannski ekki vita vonlaus kaup á einhverjum hégóma, kýs að líta á þetta sem fjárfestingu til framtíðar, forsendu frekari velgengi minnar í akademísku umhverfi og á vinnumarkaðnum.
The MLA Handbook for Writers of Research Papers.
Mig er búið að langa í hana síðan í ég var í MA, og komst að því að það væri stofnun sem héti The Modern Language Association sem hefði það eitt að markmiði að auðvelda fólki að skrifa um málfræði, málsvísindi, bókmenntir og allt sem er gott og fallegt í þessum heimi.

Unaðslegi afgreiðslumaðurinn í Waterstones á campus ætlar að panta hana handa mér frá USA, og ég þarf ekki að greiða sendingarkostnað aukalega, og get notað nemendaafsláttinn minn. Svo þetta hlýtur að teljast til tómrar blessunar.

Það voru 2 stór borð með kiljum á 3fyrir2 tilboði og mig langaði í
The Penelope Letters eftir Margareth Atwood
Arthur and George eftir Julian Barnes
Hide and Seek eftir einhvern sem ég man ekki hvað heitir, en bókin ku jafnast á við The Curious Incident of A Dog in the Nighttime sem ég elska.
og svo margt fleira. En ég er sterk, sjáiði til, og lét ekki bugast.

En alla vega, síðasta vika var skelfileg - svaf hálfan mánudaginn, flensa á þriðjudaginn, ritgerð á miðvikud., fimmtud. og föstud. Hræðileg og skelfileg og óskaplega erfið ritgerð sem tók óratíma og mér leið afar afar illa á meðan. Það er nefnilega maður sem heitir Fredric Jameson, og hann skrifaði heila bók um póstmódernisma í síðkapítalísku samfélagi, og þessi bók er full af löngum dæmum og alls kyns útlistunum, og nýjum orðum sem Jameson fann upp, bara til að bókin yrði nú örugglega heimsins versta bók. Og ekki nóg með það. Þegar ég hafði loks lokið rotgerðinni (rotgerð no. ógeðsleg ritsmíð sem veldur krónískum höfðuðverk svo lesandinn líður sífellt út af) þá las ég kafla úr annarri bók um póstmódernisma, sem kona að nafni Linda Hutschinson ritaði. Það eina sem Linda þessi hafði til málanna að leggja var hversu rangt Jameson hefði fyrir sér, og að bókin hans væri bölvað bull. Eins og gefur að skilja varð ekki úr þessu ánægjuleg kvöldstund.

Laugardagurinn var að sjálfsögðu miklu skárri. Ég stakk af alein inn í Newcastle og faldi mig þar meðal fólksins. Ég talaði við engan og enginn talaði við mig. Að frátöldu afgreiðslu fólki verslana og uppáhaldskaffihússins míns - en þeir teljast ekki með því þeir voru ekki að tala við mig, heldur gegnsæjan viðskiptavin, einn af mörghundruð og kannski þúsund. Orðaskipti eru ekki samræður og það var munnurinn á mér sem mælti, ekki ég. Ég sjálf las hins vegar dagblöð og tímarit, drakk sojalatte og hleraði samræður allra á borðunum í kringum mig.
Jane var að greinast með sykursýki en Paulie féll miða í leikhúsið og það er svo erfitt að koma Heather í leikskólann á morgnana. Scott er búinn að segja sig úr the Labour Party en pabbi hans er að tapa heyrn.

Og ég komst að því að breskir ráðamenn vilja að drug testing af handahófi verði komið á í öllum grunnskólum. Þá verður einn nemandi prófaður daglega en hefur þó ávallt rétt á að segja nei. Þetta á að vera í forvarnarskyni, enda sýna nýlegar rannsóknir að unglingar eru líklegri til að afþakka eiturlyf ef þeir geta átt von á lyfjaprófi í skólanum. Prófin eru tiltölulega ódýr og ferlið frá skólastofu og aftur inn í skólastofu er u.þ.b. 30 mín. Ekki slæm hugmynd.

Á sunnudaginn las ég skáldsögu fyrir Contemporary American Fiction og spilaði pool en tapaði horribly horribly. Tvisvar. Apparently, I'm the worst pool player on the face of the planet.

Þessi nóvember er vinnuber, og ég þarf að skrifa aðra og miklu lengri og flóknari ritgerð í Con Am, semja fyrirlestur í Popular Fiction and Cultural Theory, og vinna að heimildasöfnun fyrir ritgerð í þeim áfanga líka og byrja á henni. Og lesa fyrir málstofurnar. Obb. En mér er svo sem sama þó mánuðurinn verði þrælabúðir, bara ef ég get farið temmilega vel stödd inn í desember og jólafríið - sem hefst hjá mér 13.des. Prófin eru náttúrulega í janúar og ég þarf að klára Pop Fic ritgerðina í jólafríinu, en so be it. Jólin eru að koma!

Næst þegar ég fer í bæinn mun ég kaupa yndisfríð jólakort í gjafakortbúð og skrifa jólakorta- og jólagjafalista. Og í byrjun desember er ferð á jólamarkað í öðrum bæ, og ég sé fram á að kaupa jólagjafir og jólaföt í London, baby...

En lífið getur verið gott núna, þó það sé ekki desember enn. Ég þvoði ALLAN þvottinn minn í dag (6 pund, thank you very much) og núna á ég volg og dásamleg handklæði og hrein nærföt. Ekki það að ég hafi verið í skítugum nærfötum undanfarið, alls ekki, en frá og með morgundeginum hefði ég ekki átt neinar hreinar nærbuxur og aðeins einn sokk. Sem væri neikvætt því ég er með viðbjóðslegan brjósthósta. Jebb, hér er kalt og duldið rakt, og flensan ekki alveg á því að yfirgefa litlu mig.

Og á morgun flyst símanúmerið mitt loks yfir á almennilegt network svo ég verð í sambandi hvar sem er á kampus héðan af. Hér í UK er það sko 2ja vikna ferli að skipta um símfyrirtæki og halda gamla númerinu sína. Það er auðvitað alltaf biðröð...

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

 

Og ég sem hélt

að þegar ég væri búin að jarða romanticism þá væri ég laus við "the sublime". Mér skjátlaðist fruntalega. 200 árum seinna í póstmódernísku póststrúktúralísku póstindrústríalísku samfélagi dagsins í dag, þá finnst mönnum þetta enn góð hugmynd.

Mér finnst appelsínusafi góð hugmynd. Ég ætla í Morrisons á laugardaginn að kaupa mér matvörur svo það er allt í lagi að þamba allann safann sem til er á bænum í dag og á morgunn. 1 lítra í dag og annan á morgun. Svo er ég líka kvefuð svo þar er enn ein ástæðan fyrir að svolgra C-vítamínríkann djús af áfergju.

Í gær hlakkaði ég til jólanna. Það er nefnilega komnar jólaauglýsingar í Waterstone's bókaverslunina hérna á háskólasvæðinu sem auðvitað bara til að æra óstöðugan bókasjúkan námsmann eins og mig. Söfnunarárátta og námslán eru banvæn blanda. Og þá meina ég ekki svona banvæn eins og bananar og hnetusmjör eða súkkulaði og jarðaber heldur banvæn eins og heilahimnubólga og mænusótt og svartidauði og kólera.

töskur
kaffibaukar
könnur
eyrnalokkar
bækur (obviously)
nærföt
háslfestar

Þetta eru hlutir sem ég stenst ekki. Ég missi ráð og rænu og Illa-Helga andsest á mig, hinn ábyrgðarfulla og hagsýna háskólastúdent, tekur völdin og framkvæmir allt sem ekki má.

Þessa stundina get ég ekki beðið eftir laugardeginum. Þá ætla ég að vera búin með ritgerðina mína og mun hlusta á allan Joni Mitchell diskinn minn. Og ég ætla að smyrja hunangi á andlitið á mér og pússa á mér hælana og borða ferskt papaya og vínber í náttsloppnum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?