mánudagur, nóvember 20, 2006

 

Ég er miður mín -

miður mín!
Og það er sumsé saga...

Eftir málstofu í Amerískum Samtímabókmenntum fyrir hádegi (og tilgangslausa ferð í mailroom) þá byrjaði ég að lesa skáldsögu. Téð verk verður á dagskrá á miðvikudagsmálstofunni í Afþreyingarbókmenntum og Menningarfræðum og því ekki seinna vænna. Nú verður viðfangsefni vikunnar hryllingsbókmenntir - horror fiction - og þessi ágæta skáldsaga kallast Exquisite Corpse sem myndi útleggjast á hinu ástkæra ylhýra einhvern veginn svona: Unaðsfagurt Lík. Uhm... Nema hvað, þetta er bara ÓGEÐSLEGASTA BÓK SEM ÉG HEF NOKKRU SINNI LESIÐ!

Ég minnist þess að hafa fyrir u.þ.b. ári hneykslast mikið á bókinni Barnagælur sem kom út fyrir síðustu jól og ég asnaðist til að glugga í einhvern sunnudagsmorgun í vinnunni í Mál&Menningu. Vitaskuld stend ég við allt sem ég sagði þá en ég get svarið að sá óskapnaður var rjómagrautur í samanburði við helv... þarna Lík-bókina... Sko, hvernig er hægt að skrifa 300 bls. um geðsjúkan, sadó-masókískan fjöldamorðingja og náriðil, sem jafnframt er eyðnismitaður hommi, það er bara beyond me. Og þeir voru tveir, þessir vondu karlar. Og þess utan var annar eyðnismitaður hommi (deyjandi) með sjálfseyðingarhvöt, og ömurlega sjálfselskur eyðnismitaður samkynhneigður og siðblindur víetnamískur unglingur (sem dó).

Komst varla hjá því að hugsa: Nei, þetta er svo slæmt prómó fyrir réttindabaráttu samkynhneigðra og tilraunir við að koma heiminum í skilning um að alnæmi er ekki hommasjúkdómur sem verður til í "spilltu blóði", og jafnframt að samkynhneigðir eru ekki kynóðir frekar en gagnkynhneigðir. Og svo var þetta bara SJÚK saga með alltof ALLTOF grafískum lýsingum, fullkomlega smekklausum. Sannleikurinn er að áhrifamesti hryllingurinn er alltaf sá sem kviknar með lesandanum þegar maður þarf sjálfur að fylla í eyðurnar. Þetta var bara LJÓT bók og ég er hamingjusöm að geta sagt að hún var líka ILLA SKRIFUÐ.

En ég er skemmd engu að síður. 5 klst af svona sora eru meira en aumingjans sálin mín þolir. Að lestrinum loknum varð ég að þvo mér í framan, bara 3-step, takk fyrir, setja á mig hárband, skipta um föt og fara í klukkutíma göngu í kvöldkulinu, sem var kalt. Ég var með Frank Sinatra og raularavini hans í eyrunum og þeir hjálpuðu svolítið til við detoxið. Svolítið.

Alas, ég er miður mín - miður mín!

Eftir tómatsúpu og ristað brauð með hnetursmjöri og sultu þá tók Freud við. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það bætti úr skák...

Mér batnaði hins vegar svolítið við að spjalla við Unu á skype, en hún flutti mér þau gleðitíðindi að bókatíðindin (haha) væru komin í hús heima á Fróni (heima?) og kveðst jafnvel ætla að senda mér eintak... Vei! Nú er bara enginn desember án bókatíðinda og það veit hún Una mín og fyrir það eeeeelska ég hana. Hins vegar þá þarf ég að koma einu á framfæri:

Ekki gefa mér bækur í jólagjöf.

Plís, ekki. Málið er að ég þarf að skrifa ritgerð og læra fyrir próf í jólafríinu og geri því ekki ráð fyrir að það verði mikill tími aflögu í afþreyingarlestur, þar sem ég þrái, jú, að sinna fólkinu mínu heima líka. Og ekki get ég tekið fleiri bækur með mér út eftir jólin. Og það væri frekar súrt að láta bókagjöf bíða í Kambagerði þangað til ég sný aftur næsta sumar, ekki satt? Hins vegar er öllum guðvelkomið að gefa mér sterlingspund sem ég skal með glöðu geði eyða í bókmenntir um leið og ég er komin aftur til UK í janúar. Hér eru nefnilega girnilegustu bókabúðir í heimi. Mig langar alltaf í bækur, það ættu menn að skilja núorðið. Svo, óskalistinn minn í ár er stuttur: Sterlingspund, takk.

Og næst, tilkynningaskyldan:
- UK er líklega það land í heiminum þar sem notast er við flestar gerðir af sinnepi.
- Kvenfólk í UK heldur að það að flangsa lærunum í nóvember sé góð leið til að ná í gaur... en sannleikurinn er að það er ekkert æsandi við gæsahúðarhold sem lítur út eins og blárauður sandpappír.
- Fólk í UK er ekki búið að uppgötva að í siðmenntuðum menningarsamfélögum sem hafa farið í gegnum iðnvæðinguna, þá þykir gott og sjálfsagt að drekka kaffi eftir kvöldmat.
- Afgreiðslufólk í UK þarf að læra að þegar það er biðröð við kassann þá fer maður ekki og fær sér bita af afmælisköku kollegans.
- Eini staðurinn í UK þar sem má hrópa og rífast hástöfum ef menn eru ósammála er í Parliament (á þingi). Þar má jafnvel öskra á forsætisráðherrann, já sérstaklega á hann.

Og orðabókin:
- jacket: pappahlíf sem sett er utan um take-away pappírsmál undir heita drykki EÐA bökuð kartafla (jacket potato)
- nasty: lýsingarorð til að nota um allt sem þér líkar ekki
- coffee créme (skrifað café créme): café créme
- beans: bakaðar baunir
- rubbish: allt sem er ekki nógu vel gert

En, kannski ég snúi mér aftur að Freud...

Comments:
Ég fer á stúfana á morgun að leita að aukaeintaki :o) Get ekki lifað með því að láta þig upplifa bókatíðindalausan desember!
 
Nei, það geturðu ekki!
 
Jeg er einmitt buin ad hugsa heilmikid um bokatidindin, tad er nefnilega agaetis merki um ad jolin seu farin ad nalgast iskyggilega thegar thau lata sja sig.

Ofunda thig ekki af thessum leslista. Orkadi ekki meira en ad lesa titilinn a "Barnagaelum", held eg sleppi thvi gersamlega ad kikja a thessa bok sem thu varst ad lesa. Svo leidist mer Freud.
Bestu kvedjur.
 
Úff, þessi bók hljómar meira en scary - bara algerlega horrifyingly horrible! Vonandi þarftu ekki að ganga í gegnum slíkt aftur. Sumt er algerlega "without taste."

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt. Hjarta aldraðrar og önnum kafinnar kennslukonu lyftist við hnyttnar lýsingar af stúdentalífinu í UK og hugurinn hverfur jafnvel stundum aftur til gömlu góðu daganna í Glaðskógum...

Eitt orð enn í orðabókina - look up "chav" if you don't know it already, and then have fun trying to spot one on the streets of Newcastle...
 
*Unnur, aka 'Miss Morbid Facination', kemur því á framfæri að flestir raðmorðingjar eru gangkynhneigðir eða leggjast á börn...*

Og svo : GODS! Svo stutt! Ég verð að heyra í þér, er komin mðe timasetningar og fékk svar frá glasgow :)
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?