mánudagur, nóvember 06, 2006

 

Alas

þá var ég að panta bók.
Ég ætti ekki að vera að kaupa mér bækur en þetta er bara... Ég eiginlega... Æ, OK, ég er óforskömmuð, fyrirhyggjulaus og mannleg bara.

Svo ég vitni ég í Andra bró - maður má nú vera breyskur.

Þetta voru kannski ekki vita vonlaus kaup á einhverjum hégóma, kýs að líta á þetta sem fjárfestingu til framtíðar, forsendu frekari velgengi minnar í akademísku umhverfi og á vinnumarkaðnum.
The MLA Handbook for Writers of Research Papers.
Mig er búið að langa í hana síðan í ég var í MA, og komst að því að það væri stofnun sem héti The Modern Language Association sem hefði það eitt að markmiði að auðvelda fólki að skrifa um málfræði, málsvísindi, bókmenntir og allt sem er gott og fallegt í þessum heimi.

Unaðslegi afgreiðslumaðurinn í Waterstones á campus ætlar að panta hana handa mér frá USA, og ég þarf ekki að greiða sendingarkostnað aukalega, og get notað nemendaafsláttinn minn. Svo þetta hlýtur að teljast til tómrar blessunar.

Það voru 2 stór borð með kiljum á 3fyrir2 tilboði og mig langaði í
The Penelope Letters eftir Margareth Atwood
Arthur and George eftir Julian Barnes
Hide and Seek eftir einhvern sem ég man ekki hvað heitir, en bókin ku jafnast á við The Curious Incident of A Dog in the Nighttime sem ég elska.
og svo margt fleira. En ég er sterk, sjáiði til, og lét ekki bugast.

En alla vega, síðasta vika var skelfileg - svaf hálfan mánudaginn, flensa á þriðjudaginn, ritgerð á miðvikud., fimmtud. og föstud. Hræðileg og skelfileg og óskaplega erfið ritgerð sem tók óratíma og mér leið afar afar illa á meðan. Það er nefnilega maður sem heitir Fredric Jameson, og hann skrifaði heila bók um póstmódernisma í síðkapítalísku samfélagi, og þessi bók er full af löngum dæmum og alls kyns útlistunum, og nýjum orðum sem Jameson fann upp, bara til að bókin yrði nú örugglega heimsins versta bók. Og ekki nóg með það. Þegar ég hafði loks lokið rotgerðinni (rotgerð no. ógeðsleg ritsmíð sem veldur krónískum höfðuðverk svo lesandinn líður sífellt út af) þá las ég kafla úr annarri bók um póstmódernisma, sem kona að nafni Linda Hutschinson ritaði. Það eina sem Linda þessi hafði til málanna að leggja var hversu rangt Jameson hefði fyrir sér, og að bókin hans væri bölvað bull. Eins og gefur að skilja varð ekki úr þessu ánægjuleg kvöldstund.

Laugardagurinn var að sjálfsögðu miklu skárri. Ég stakk af alein inn í Newcastle og faldi mig þar meðal fólksins. Ég talaði við engan og enginn talaði við mig. Að frátöldu afgreiðslu fólki verslana og uppáhaldskaffihússins míns - en þeir teljast ekki með því þeir voru ekki að tala við mig, heldur gegnsæjan viðskiptavin, einn af mörghundruð og kannski þúsund. Orðaskipti eru ekki samræður og það var munnurinn á mér sem mælti, ekki ég. Ég sjálf las hins vegar dagblöð og tímarit, drakk sojalatte og hleraði samræður allra á borðunum í kringum mig.
Jane var að greinast með sykursýki en Paulie féll miða í leikhúsið og það er svo erfitt að koma Heather í leikskólann á morgnana. Scott er búinn að segja sig úr the Labour Party en pabbi hans er að tapa heyrn.

Og ég komst að því að breskir ráðamenn vilja að drug testing af handahófi verði komið á í öllum grunnskólum. Þá verður einn nemandi prófaður daglega en hefur þó ávallt rétt á að segja nei. Þetta á að vera í forvarnarskyni, enda sýna nýlegar rannsóknir að unglingar eru líklegri til að afþakka eiturlyf ef þeir geta átt von á lyfjaprófi í skólanum. Prófin eru tiltölulega ódýr og ferlið frá skólastofu og aftur inn í skólastofu er u.þ.b. 30 mín. Ekki slæm hugmynd.

Á sunnudaginn las ég skáldsögu fyrir Contemporary American Fiction og spilaði pool en tapaði horribly horribly. Tvisvar. Apparently, I'm the worst pool player on the face of the planet.

Þessi nóvember er vinnuber, og ég þarf að skrifa aðra og miklu lengri og flóknari ritgerð í Con Am, semja fyrirlestur í Popular Fiction and Cultural Theory, og vinna að heimildasöfnun fyrir ritgerð í þeim áfanga líka og byrja á henni. Og lesa fyrir málstofurnar. Obb. En mér er svo sem sama þó mánuðurinn verði þrælabúðir, bara ef ég get farið temmilega vel stödd inn í desember og jólafríið - sem hefst hjá mér 13.des. Prófin eru náttúrulega í janúar og ég þarf að klára Pop Fic ritgerðina í jólafríinu, en so be it. Jólin eru að koma!

Næst þegar ég fer í bæinn mun ég kaupa yndisfríð jólakort í gjafakortbúð og skrifa jólakorta- og jólagjafalista. Og í byrjun desember er ferð á jólamarkað í öðrum bæ, og ég sé fram á að kaupa jólagjafir og jólaföt í London, baby...

En lífið getur verið gott núna, þó það sé ekki desember enn. Ég þvoði ALLAN þvottinn minn í dag (6 pund, thank you very much) og núna á ég volg og dásamleg handklæði og hrein nærföt. Ekki það að ég hafi verið í skítugum nærfötum undanfarið, alls ekki, en frá og með morgundeginum hefði ég ekki átt neinar hreinar nærbuxur og aðeins einn sokk. Sem væri neikvætt því ég er með viðbjóðslegan brjósthósta. Jebb, hér er kalt og duldið rakt, og flensan ekki alveg á því að yfirgefa litlu mig.

Og á morgun flyst símanúmerið mitt loks yfir á almennilegt network svo ég verð í sambandi hvar sem er á kampus héðan af. Hér í UK er það sko 2ja vikna ferli að skipta um símfyrirtæki og halda gamla númerinu sína. Það er auðvitað alltaf biðröð...

Comments:
Oh ég elska bloggið þitt! Og þig! Maður spyr sig hvort ég elska meira þar sem ég sé bloggið á hverjum degi en þig... ekki svo oft! Hem hem ;o)

Ég held að við tvær ættum að spila pool saman, það yrði skrautlegt...

Hafðu það gott :o)
 
Biðraðir, seinagangur, hæg afgreiðsla, lúnar lestar og þreyttir strætisvagnar, skemmtileg kort, rotgerðir, fyrirlestrar, þvottavélar.
Stemning & upplifun.
Kveðja.
 
Hæ elsku Helga!
Ég er núna að gera sögufyrirlestur um Henry VIII
Sakna þín óendanlega mikið
Þú rokkar
Ég elska þig!!
 
Það er ekki spurning að MLA handbókin er fjárfesting til framtíðar! Ekki trúa neinu öðru. Ég keypti mína 1990 og hef notað síðan, hún fylgdi mér gegnum doktorspuðið og allar mínar skriftir síðan á fyrsta ári í háskóla. Þetta er aðalbókin!

Ég er viss um að þú stendur þig frábærlega í öllum þessum ritgerðum og fyrirlestrum sem eru framundan. Áfram Skotta!

Skv lýsingum þínum er greinilegt að þessi Fredric er drepleiðinlegur. Enda virðast sumir í hans geira ekkert hafa að gera nema skrifa bækur á allsendis óskiljanlegu máli.

Kveðja til Englands,

Ingibjörg
 
Helga mín, þessar njósnir eru einmitt svo skemmtilegar, þær gefa manni tækifæri til að setja sig í spor annarra (sem undantekningarlaust virðast lifa mun skemmtilegra lífi og lenda í ævintýrum í sífellu). Þannig að ég skal ekki bregðast þér ef þú heldur áfram að leyfa mér að ímynda mér hið ljúfa líf þitt í Bretlandi. Ja?
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?