laugardagur, nóvember 11, 2006

 

Á laugardögum

á maður ekki að vera í Keele.
Kampus er dauður - dauður!

Þess utan þá kom ég ekki til Englands til að hrærast í smáogguponkuloftbólu sem er ekkert nema firrtur microcosm af raunverleika þessa lands.

Hm, eða þá að ég er bara óforbetranlegt borgarbarn.

Vikan var stórfurðuleg - klukkustundirnar ýmist sigu áfram eins og sírópið þegar mamma gerir rice krispies kökur, eða hverfðust inn í augnablikið og spíttu mér inn í miðjan næsta dag. Ástæðan fyrir allri ringulreiðinni er þó líklega hversu tímafrek skólavinnan reyndist mér undanfarið. Þurfti að skipuleggja ýmis verkefni frá grunni og finna fyrir þau heimildir á háskólabókasafninu sem ég er rétt að ná tökum á. Hér notast þeir nefnilega við furðulegt flokkunarkerfi, ekki það sem almennt er við lýði á bókasöfnum í heimi hér. Mér skilst að þetta sé einhver bölvaður ósiður sem þeir tóku upp eftir einhverjum sauðhausum í Washington DC - hví? En, alla vega, ég hef þurft að læra að rata um safnið og að skilja flokkunarkerfið og að nota leitarvélarnar og að færa hillurnar sundur og saman, hah, sem er nú bara nokkuð skemmtilegt. Ef ég væri að semja handrit að hryllingsmynd þá myndi sagan gerast á bókasafninu í Keele þar sem konur í gegnsæjum kjólum væru að kremjast á milli hreyfanlegra hillna. En, já, svo gerði gamalkunnug verkfælni líka vart við sig og angistin sem er hennar fylgifiskur en þetta hafðist svo sem.

Er nokkuð sátt bara, passaði mig að fara í labbitúra en sitja ekki bara á rassinum með nefið ofan í bókum og þó ég hafi ekki haft mig í yogatímana inni í Leisure Center þá stundaði ég bara mitt inni á herbergi eftir að hafa hlaðið batteríin með kvöldmatnum. Horfði ýmist á 1 o'clock eða 6 o'clock fréttir BBC á netinu daglega, hungangsbar á mér smettið, tók lappirnar í kakósmjörsþerapíu, borðaði mörg avakadó, drakk 30 bolla af te - veit töluna upp á hár því ég kláraði heilan pakka af tepokum -spilaði pool (illa) og ég veit ekki hvað.

Stundum held ég að almættið sé að gera grín að mér. Einhvern tíma lýsti ég því hvernig ég hitti sama gaurinn sem er með mér í Contemporary American Fiction, aftur og aftur á mismunandi stöðum sama daginn. Ég hafði engin samskipti við hann haft fyrr en þá en núna erum við fínir félagar. Svona var þetta líka með hana Sabrinu, kvenmann nokkurn sem situr með mér í báðum málstofunum. Dag einn sitjum við hlið við hlið og röltum saman í pásunni að kaupa kaffi. Við hittumst í strætó. Við hittumst aftur í strætó á leiðinni heim. Við hittumst við að kaupa kaffi áður en hin málstofan byrjar. Við hittumst í the American Studies Resource Room og förum saman að ljósrita. Hún býðst til að lána mér skáldsöguna fyrir næstu Pop Fic málstofu þ.s. ég er enn að bíða eftir mínu eintaki frá USA. Við hittumst aftur á bókasafninu. Við komust að því að blokkin hennar er við hliðina á minni. Við Sabrina erum góðar núna.

En í dag er laugardagur og ég fór burt frá Keele um leið og ég vaknaði. Þ.e. þegar ég var búin í sturtu og klæða mig og kaupa kaffi. Tók strætó inn í Newcastle og fór í feiknarlanga göngu með Joni Mitchell í ipodnum. Það var kalt en ég var í svarta vetrarjakkanum mínum með háa kraganum og lopavettlingana sem Amma Helga prjónaði. Elsku amman mín. Og með ullarhúfu, ekki má það gleymast í nóvemberkulinu. Kannaði áður ókunnar götur og horfði á haustlaufin fjúka og klínast við hattinn á gömlum karli. Gamlar konur með köflóttar innkaupakerrur á hjólum skröltu niður á the farmer's market í miðbænum og snoðkliptir prepschool pjakkar toguðu helgarpabbana sína á MacDonalds. 13 ára gelgjurnar streymdu líka í bæinn til að kaupa sér skartgripi á 3for2 í Claire's, svona eins og Reykjavíkurdætur flykkjast í Kringluna til að fara í Accesorize og á Stjörnutorgið. Yndislegar, bólóttar og ögn afkáralegar, undantekningarlaust í hópum. Með gsm, alltaf er einhver með gsm á lofti - ég get svo svarið að Englendingar eru uppteknari af símunum sínum heldur en Íslendingar og það er líklega vegna þess að svona græjur eru talsvert ódýrari hér en heima á Fróni, svo hvaða jólasveinn sem er getur verið með nýjasta nýtt.

Heima á Fróni - ég veit eiginlega ekki hvort ég á nokkurs staðar heima. Mér finnst ég ekki vera gestur hérna. Þegar ég flutti til Rvk tilheyrði ég borginni alveg jafn mikið og gömlu Ak - og núna, núna er ég ekkert að hugsa "heim" þegar hugurin leitar til Íslands. Það er bara annar staður fyrir aðra tíma. Kannski aðlagast ég yfirhöfðuð vel. Ég fæ ekki heimþrá þegar ég er í sambandi við fólkið mitt og ég fyllist ekki fortíðarþrá þegar ég heyri reglulega í vinkonunum - mér finnst þið alltaf vera hjá mér, stelpur. Það þýðir ekki að ég sakni ekki, bara að söknuðurinn sé bærilegur.

Ég keypti jólakort í dag handa öllum sem ég elska. Það var ekki auðvelt, skal ég segja ykkur. Það voru hér um bil sjögrilljón hundraðþrjátíuogáttaþúsund fimmtíuogein tegund af fallegum kortum í boði. Ég held það hafi tekið mig klukkutíma að ákveða mig en honum var vel varið. Það er aðeins einn galli á gjöf Njarðar, á öllum þessum fyrirtaks gjafakortum hér í Englandi: á öðru hvoru korti er einhver ömurlega cheesy vísa eða óhugnalega illa ortur ljóðstubbur. Yuck! Þvílík melódramatík sem rúmast getur á A6 blaðsnepli, svona spauglaust.

Og ég las mörg mörg tímarit. Ég er nú þegar búin að eyða alltof miklum pening í tímarit en ræð bara engan vegin við mig. Þau eru líka öll fáránlega ódýr miðað við heima, oh, svooo varasamur hugsunarháttur. Tímaritamenningin hér er algjör unaður. Það eru the glossy mags, eins og Marie Claire og Elle, og það eru tímarit um ethical living og organic eating, og það eru health magazines, bæði fyrir skvísur, s.s. Health and Fitness, og svo fyrir miðaldra húsmæður með stuttklippt hár og permanet í Primark stuttermabolum, t.d. Slimmer World, og það eru kerlingarblöðin Woman og Woman's Own og Woman's Weekly, og það er slúðrið góða í Best, Now, New (og við erum að tala um að þetta kosti á bilinu 60p-85p!), og síðast en ekki síst hin legendary Hello og OK...

Sum tímarit, eins og New, fjalla um eintóm celebrity, bæði þau sem eru á heimsklassa: "Kylie's back! Touring her Australian Turf", og svona sérensk fyrirbæri: "Charlotte Church's Cellulite Scare" eða "Jade Goodey Treats her Mum to a Posh Dinner". Önnur, s.s. öll þessi Woman blöð, eru smekkfull af dásamlegum greinum um fólk enginn þekkir en hefur öðlast sínar 5 mín af frægð fyrir: "I Begged Doctors to Cut My Leg Off" eða "I Lost 7st for Christmas"...

Tómur unaður. Og unaður var líka öll Winnie the Pooh dagatölin í W.H. Smith. Og unaður var að fara í Sainsbury's í dag og fylgjast þar með enskum húsmæðrum á útopnu. Minnir mig á popptextann "Sex is Sainsbury's" - þessi stórmarkaður er eins og Hagkaup "Þar sem Englendingum finnst skemmtilegast að versla!"

Og unaður var að fara á uppáhaldskaffihúsið mitt og borða granarybread with cheese and pickles.
Uhm.
Góður dagur - ekki í Keele.

Comments:
Vá, mikill hluti þessarar færslu tileinkaður tímaritum sem ég hef ekki hundsvit á :) en engu að síður er ánægjulegt að lesa það! hafðu það gott, sjáumst eftir 34 daga ;)
 
Maður er alltaf staddur í firrtum microcosm af raunveruleikanum, það er að minnsta kosti mín skoðun. Þessi microcosm þarf nú samt ekki að vera neitt verri fyrir því.
Heyrumst.
 
Ég fer alltaf reglulega á síðuna þína. Það er gaman
 
Vá hvað ég sakna þess að fá minn reglulega skammt af OK. Finnst ég ekki vita nógu mikið um líf Posh Spice og Jordan þessa dagana, þær eru náttúrulega með áskrift að plássi á forsíðunni!
 
ahahahaha ohh ég myndi sko líka kaupa fullt fullt fullt fullt fullt fullt fullt fullt fullt fullt af slúðurblöðum ef þau væru svona ódýr!! ég skil þig vel.

Það er gott að eyða peningum!

hlakka til að sjá þig!!

er búin að fá svar frá Indlandi, I'm going!!!:)

knús
Valdís
 
Hér eru öll blöðin hér eru full af slúðri um kóngafjölskyldur og norskt idol....spennóóó!
 
Steinar var hér
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?