fimmtudagur, desember 15, 2005

 

Ég vaknaði

og sá að ég hafði fengið ipod í skóinn. Jólasveinninn hafði líka verið svo sætur að hlaða inn á hann öllum mínum uppáhaldslögum, líka þeim sem ekki er enn búið að semja. Í morgunverð snæddi ég nýbökuð rúnstykki með osti og sultu, las blaðið og hlustaði á muldrandi útvarpsþul. Um hálftíu hringdi Tolli í mig og sagði að ég þyrfti ekkert að taka málvísindaprófið, heldur mætti velja mér einkunn - já, og skilaboð á sömu leið frá Pétri varðandi hljóðfræðina á mánudag. Glöð í bragði settist ég við tölvuna, kíkti á dagatalið mitt og hlotnaðist þar flugferð til Evrópu. Ákvað að draga Unni með mér til Ítalíu eða Parísar, ekki þyrftum við að hafa áhyggjur af eyðslufénu því ég var líka búin að vinna í Víkingalottó, ein. Því sprangaði ég niður á Skólavörðustíg og keypti jólakjól og fínerí í Glamour og fleiri skemmtilegum búðum. Inni á Kaffitári skrifaði ég skáldsögu og rakst ég á Adrian Brody sem bað mig að giftast sér. Ég játti því en að sjálfsögðu ekki fyrr en eftir jól, ég þyrfti að vinna í Bókval fram á aðfangadag. Við ákváðum að skella okkur saman á tónleika með Maxim Vengerov og Sinfó en þeir Adrian eru félagar góðir. Vengerov tileinkaði mér Mendelson fiðlukonsertinn og líka Tschaikowski 1 sem hann tók á flygilinn, svona upp á grín. Þá lá leiðin í Kringluna þar sem jólagjafarispa tvö gekk vonum framar og við nutum þess að fylgjast með öllu aumingjans fólkinu sem var að deyja úr stressi. Í Bókabúð Máls & menningar á Laugaveginum nældi ég mér í allar bækurnar sem komu út nú fyrir jólin og las þær fram að kvöldmat. Jólahlaðborðið var einkar ánægjulegt en þaðan héldum við Adrian á alls kyns kórtónleika, já og Ellen og KK og Ragnheiði Gröndal og Anthony and the Johnsons og ég veit ekki hvað og hvað - allir voru til í að endurtaka leikinn nú þegar ég mátti loks vera að því að sækja eitthvað. Að því loknu snerum við heim á leið og bökuðum alvöru enska jólaköku og þýskt stollen, ásamt 12 smákökusortum á mettíma. Ensku stelpurnar mínar litu við, og Björk, og gömlu bekkjarfélagarnir úr Ainu, og Egill og Regína, og Inga, Sarah og Carolyn frá Þýskalandi, Ingrid og Kunihiko og Hsin-Yi, og Valdísirnar mínar og Una, Þórunn, Unnur, Siggi, Steinlaug, Freyja, og að sjálfsögðu stórfjölskyldan. Allt í einu vorum við stödd í Austurhlíðinni uppi í Mývatnssveit og amma og afi bjuggu þar enn. Þetta varð hin besta kvöldskemmtun og gaman að fá símhringingu frá Oxford og boð um skólavist og styrk og allan pakkann. Það voru líka norðurljós og lítil lömb og kettlingar, kerti og jurta-steina-dýra, arineldur, gott kaffi og mjúk handklæði. Nokkuð ánægjulegur dagur, verð ég að segja.

Comments:
Helga min vildi bara láta þig vita að ekki láta þér bregða ef svo skemmtilega vill til að þú þekkir alltí einu ekki neinn sem stendur fyrir aftan afgreiðsluborð bókadeildar.. Sævar er mikið í því að deila störfum út hingað og þangað þessa dangana:)
 
Þetta er ansi ólíkt mínum degi, verð ég að segja.
 
Brrr, Ásta, þetta ætti að verða í lagi svo lengi sem tvíburarnir og Sandra verða til staðar, þá kannast ég við mig...
 
Og þau lifðu hamingjusöm upp frá því...
Sjáumst,
Linda :-)
 
Dálítið líkt deginum mínum, nema hönkið mitt var Johnny Depp með röddina hans Alan Rickman's og mér var boðin skólavist all expenses paid í Harvard og svo eftir það fínt high-profile starf...og við Johnny höfum ákveðið að eyða jólunum í bjálkakofa í svissnesku ölpunum
draumakveðja
Sigga
 
Pétur Knúts er búinn að lengja prófið okkar í 2,5 tíma og bæta við spurningu um -ed og -s endingar (eða -d endingar). Amk. meiri tími, jess, ég eeeeelska Pétur!
 
Ég eeeeelska hann líka. Hann er draaaaauuuuumur. En hey, Sigga, megum við Adrian kíkja í heimsókn til ykkar þarna í bjálkakofanum á milli jóla og nýárs?
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?