þriðjudagur, maí 03, 2005

 

Samræmt stúdentsmorð

í ensku var, eins og gefur að skilja, hundfúlt. Við erum náttúrulega að tala um hálftíma hlustunaræfingar, 6 lesskilningsverkefni, 2 málnotkunarverkefni og 2 ritunarverkefni. Nógur var tíminn, eða 3 klst og 45 mín, en eins og mér einni er lagið, var ég allt of lengi að öllu, og rétt marði að klára prófið. Gott Helga.

Eflaust hefur vegið pínulítið þungt að ég nennti þessu ekki, frekar en nokkrum öðrum sköpuðum hlut þessa dagana. Var í fýlu við menntamálaráðuneytið og gufuna sem er þar í forsvari (þó eflaust ráði ráðuneytisstjórar (njóta þess að ráða, hah!) þar dyrum og dyngjum, þessir ráðherrableðlar virðast svo uppteknir af því að vera einhver andlit flokkanna sinna út á við, að þeir gera ekkert sem nokkru alvöru máli skiptir, ybba bara gogg í sjónvarpi), í fýlu við Íslendinga sem snobba endalaust fyrir samanburði, þykjast þurfa að apa allt upp eftir öllum heimsins þjóðum, en sjá auðvitað bara það sem lítur vel út á pappír og er þægilegt í framkvæmd fyrir þá sem vinna á skrifstofum og ákveða hvernig lífið skuli ganga fyrir sig í landinu.

Sá einhver forsíðugrein Fréttablaðsins um að Íslendingar eigi heimsmet í notkun geðlyfsins methylphenidat (ritalíns)? Ekki er það smekklegt. Fullkomlega óeðlilegt, og lýsandi fyrir landann, hvernig við leitum alltaf flottra og þægilegra skammtímalausna á vandamálunumm, í stað þess að líta í eigin barm, viðurkenna að þar sé rót vandans og virkilega vinna í sjálfum okkar, okkar viðhorfi og hegðun.

Sólbrún botoxkona í Dieselbuxum: "Krakkinn er svo óþægur, guð, læknir, ég get ekki átt svona erfitt barn, ég sem er hin fullkomna ofurkona/húsmóðir/þáttastjórnandi á Stöð 2/líkamsræktarfrömuður, og gift forstjóra Eimskipafélags Gríslands, sem á helminginn í bæði Símanum og Og Vodafone (= heilt fjarskiptafyrirtæki, ræður hver segir hvað og við hvern, alltaf, alls staðar), hann hlýtur bara að vera veikur, litli anginn."
Myndarlegur lýtalæknir sem keppir í Fitness: "Hm, já, fröken, hann er örugglega ofvirkur og með athyglisbrest í þokkabót, já, á ég ekki bara að skrifa upp á eitthvað?"
Sólbrún botoxkona í Dieselbuxum: "Ó, jú (á innsoginu), það væri indælt, læknir, ég verð að komast í saumaklúbbinn með hinum 7 fyrrverandi Ungfrú Næsland.is í Bláa Lóninu, og maðurinn minn er í London með útrás (á viðhaldinu). Við erum mikilvægir þjóðfélagsþegnar og viljum gera allt til að vera áberandi í Séð og heyrt og Barnaland í býtið, en stundum verður maður bara að hafa tíma fyrir sjálfan sig."
Myndarlegur lýtalæknir sem keppir í Fitness: "Já, ég skil, (ehem), hér er ársskammtur af ritalíni, með smá extra sem þú getur tekið í nös á Vegamótum þegar lífið er erfitt. Hvar er annars sá litli?"
Sólbrún botoxkona í Dieselbuxum: "Æ, hann er á lífsstílsnámskeiði fyrir leikskólabörn hjá Gauja litla, sagðist ómögulega vilja sleppa tíma þegar ég spurði hann ekki."

Það sem er að hjá börnunum okkar er bara skólakerfinu og internetinu að kenna, og hana nú. Svo fá þau átraskanir á unglings- og snemmfullorðinsárum, og heilbrigðiskerfið má ekki vera að því að sinna þeim (sjá viðtal við Eddu Ýrr Einarsdóttur og Ölmu Geirdal í Nýju lífi og Fréttablaðinu 2. maí). Það er auðvitað enginn peningur til að sinna svona fólki á geðdeild því nauðsynlegt þykir að gamlir afdankaðir og útvatnaðir ráðherrar geti fengið greidd eftirlaun á meðan þeir halda áfram að gegna embættum fyrir Alþingi, og forsetinn sé á forsetalaunum til dauðadags, þótt hann sé löngu fluttur af Bessastöðum og farinn að láta borga undir sig annarsstaðar.

Kílómetrar: 12,35
Kaffibollar 1 (and counting)

Comments:
Hversvegna ekki bara skila auðu?

Einkunnin á hvort eð er ekki að koma fram á stúdents skírteininu, hefur mér verið sagt.
 
Einhver hefur verið að bulla í þér, því hún birtist þar víst, skýrum stöfum. Annars væru menn auðvitað ekkert að mótmæla framkvæmd þessara prófa.
 
Það er nú svosum kannski skiljanlegt að þeir reyni að spara peninginn svolítið.. þeir þurfa jú að vera undirbúnir fyrir stórviðburði einsog 10 ára samstarfsafmæli ríkisstjórnarflokkanna. Það var eins gott að þeir voru búnir að vera sparsamir - annars hefðu þeir aldrei getað boðið öllum ráðherrum sem setið hafa á tímabilinu (svolítið grand á því kannski, en þaða hefði verið pínu dónalegt að bjóða bara núverandi ráðherrum) ásamt mökum, í viðhafnarkvöldverð í Ráðherrabústaðnum. Og það hefði nú verið slæmt.
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?