miðvikudagur, september 14, 2005

 

Lífið er hafragrautur

Það var sumsé gaman í Þýskalandi. En það er allt búið núna.
Ég er flutt að heiman. Það er allt að gera sig.

Ég á heima í BERGSTAÐASTRÆTI 69 í Þingholtunum, keyrið upp Njarðargötu eða Barónstíg og beygið til hægri eða vinstri, eftir atvikum.

Nú er húsið mitt gömul 3ja hæða bygging og ég bý í risíbúð - útsýnið er yndislegt og út um svefnherbergisgluggann minn sé ég Háskóla Íslands, þar sem ég stunda jú nám við Hugvísindadeild og nem enska tungu eins og mér væri borgað fyrir það. Sú er því miður ekki raunin.

Þar hafið þið það.

Klárlega þykir voða hipp og kúl að hafa aðsetur í 101, að maður tali nú ekki um þennan hluta Vesturbæjarins. Nágrannar mínir eru kóngurinn (næsta höll til hægri), forseti íslenska lýðveldisins (við götu rétt hjá) og Jóhanna Vigdís Arnardóttir (ská á móti).

Er þegar byrjuð að vinna í Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi 18. Þar er opið til 22 öll kvöld, endalaust úrval af bókum, alltof mikið af starfsfólki og sjálfur Súfistinn til húsa. Hann selur caffe latte í stórum skálum og það er gott.

Annars er ekkert svo slæmt að vera á svo stórum vinnustað, starfsmannafélagið er mjög öflugt, heldur meira að segja úti bloggi og skipuleggur leshringi. Já, dömur mínar og herrar, draumar mínir hafa ræst, ég kemst í leshring. Nú get ég dáið sæl.

Ég sakna bara Bókval svo voðalega. Sakna þess að þekkja hvern krók og kima, allar vörur í bókadeildinni og vita hvernig allt þetta litla og ómerkilega en mikilvæga gengur fyrir sig. Eins og til dæmis með mjólkina. Sakna samt mest alls fólksins. Mig langar til að verða aftur starfskraftur með stöðu og orðspor, ekki bara númer sem á vaktir aðra hvora helgi. Mig langar til að fólk þekki mig, og ég það.

Við Steinlaug eigum sömu helgar, ég á Laugaveginum og hún fyrir norðan, hún stakk upp á því að við hringdumst á í vinnunni á sunnudagsmorgnum, hí hí.

Heima í Kambagerði er guðdómlegur snagi sem hún gaf mér í brottflutningsgjöf, hann þykist vera heitavatnskrani, svona gamaldags stjörnulaga, og stendur á honum HOT. Bangsímonhandklæðið er hinsvegar inni á baði hér fyrir sunnan.

Klósettið mitt er blátt, vaskurinn líka.

Hér eru teppi á öllum gólfum sem er frekar fúlt því mér leiðist að ryksuga. Herbergið mitt er undir súð og ég bíð eftir nýju rúmgrindinni minni. Hún er svona svört, úr járni, með göflum og baki, ólýsanlega falleg. Svona sófarúm, ekki svefnsófi, heldur rúm með baki. Þarf bara að kaupa púða til að setja punktinn yfir i-ið.

Pabbi og mamma gáfu mér þetta ágæta rúm. Þau keyrðu með mér suður, Hildur og Andri líka, og við eyddum heilli helgi í að koma dótinu mínu fyrir og útvega það sem upp á vantaði.

Lítil handklæði, plastbox fyrir matarafganga, óhreinatauskörfu, ruslafötu, fatahirslur, hræriskálar... Ó, það er dýrt að hefja búskap. Ó ó.

Ó.

Við fórum í Bónus að kaupa morgunmat til að eiga meðan þau væru fyrir sunnan og mamma sagði mér að tína til eitthvað svo ég þyrfti ekki að fara í búð strax eftir helgi... Eða á næstu dögum, bætti hún svo við... Eða bara fyrr en í næstu viku... Svo skellti hún eggjabakka og oststykki í körfuna.

Ég fór að skæla við kornvöruhilluna. Við Kata og Erla erum síðan þá búnar að verða okkur úti um þvottabala, skóhorn, vatnskönnu, matardiska, þvottaefni og fleira í þeim dúr. Persónulega fjárfesti ég í unaðsfögrum brauðkassa úr tini með blómamunstri.

Við kaupum inn á miðvikudögum. Ég þarf að gera lista.

Og vinna hljóðfræðiverkefni.

Þórunn og Guðrún kíktu í kvöldkaffi áður en þær fóru til Spánar. Færðu okkur rifjárn, ísmolapoka og fleira skemmtilegt og bráðnauðsynlegt. Nú á ég ljósgrænan plastdisk fyrir flögur/grænmeti og ídýfu.

Unnur og Siggi komu í heimsókn þegar þau sneru aftur frá Prag og London, úff, hvað ég var búin að sakna þeirra. My Darling, Unnur, hann er yndislegur á bókaskenknum inni hjá mér og af fullkominni stærð fyrir huggukaffi.

Jafnframt hafa ungir vísindamenn sótt mig heim og gera enn í dag. Þeir ætla að sigra Rússland, en fyrst stefnum við saman á bíó í kvöld.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?