föstudagur, nóvember 11, 2005
Góð saga
Hún vaknaði í morgun og fékk sér hafragraut. Grauturinn var með rúsínum en kaffið með mjólk. Samt var líka mjólk út á grautinn. Eftir að hafa lokið við ritunarverkefni skrifaði hún innkaupalista: tómatar, hrökkbrauð, ostur, fiskur og döðlur. Á götum borgarinnar var lúmsk hálka og á leiðinni í Bónus ók hún fram á minnst fjórtan aldraðar konur sem höfðu dottið og lærbrotnað. Það var líka bókabúð sem seldi pappír og penna en hún gleymdi að póstleggja skuldabréfið. Seinni hluti dags leið við málvísindanám en símtal frá mömmu lyfti grámanum af föstudagstilverunni. Einróma sátt náðist í umræðum um menntamál. Pabbi hringdi líka og þar af leiðandi fór fullur kaffibolli til spillis. Engu að síður var hún glöð. Hraðaæfing í ræktinni átti góða samleið með Staupasteini þar sem Ted Danson og Kirsty Allie voru á kynferðislegu nótunum, daman meira segja berrössuð. Það sást auðvitað ekki enda meira en 10 ára gamall bandarískur sjónvarpsþáttur. Það slaknaði aðeins of vel á henni eftir yogað og ólýsanlega erfitt reyndist að skokka heim aftur í kulda og myrkri. Hún hafði það þó af og fékk sér fisk en ekki fiskinn úr Bónus því hann var enn frosinn. Auðvitað fór hún samt fyrst í sturtu. Þegar hún var búin að lesa hljófræði byrjaði hún svo að blogga og hugsaði: mikið var þetta ómerkilegur dagur, best að ljúga aðeins og athuga hvort menn sjá í gegnum mig.
<< Home