mánudagur, janúar 30, 2006

 

Auðnuleysinginn

væri allt eins góður bókartitill eins og Fávitinn eða Ofvitinn. Og sérlega viðeigandi á ævisögu mína post mortem. Já, ég er í smá hvaðerégaðgeraviðlífmittkreppu. Með vissu millibili þá efast ég um allt. Ekki misskilja mig, ég er stöðugt að efast eitthvað; einn daginn um að ég sé vinstrisinnuð, stundum um að súkkulaði sé guðsgjöf en ekki frá andskotanum, og annað slagið um að ég sé tilfinningavera. En svo koma líka stundir sem þessi þar sem ég efast um bókstaflega ALLT á þessari jörð og sérstaklega sjálfa mig.

Núna efast um að ég eigi eitthvað erindi í þennan háskóla. Hvort það sé þess virði að vera kannski sex ár að mennta sig, sex ár! Það eru eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex ár þangað til maður fer að þéna nóg til að koma almennilega undir sig fótunum. Sex ár þar til ég gæti BYRJAÐ að REYNA að koma sjálfri mér í aðstæður sem væru barni bjóðandi. Sex ár þangað til ég hæfist handa við að skapa mér starfsframa annars staðar en í Pennanum-Eymundsson-Máli&Menningu. Ekki það að ég sé að hnýta í vinnuveitanda minn eða kollega, en ég hafði bara hugsað mér að vera kominn í annað starfsumhverfi fyrir þrítugt, enda hef ég hangið við sama heygarðs-/bókahilluhornið síðan ég var 17 ára eða svo. Ég nefni hér töluna 6 því tvöfalt BA-próf tekur 4 ár og MA-gráða 2 til viðbótar - klárlega langar mig í MA (hah, væri nú notalegt að vera þar aftur).

Ég gæti lagt fyrir mig að merkja geisladiska. Það hef ég verið að dunda mér við í dag í stað þess að læra. Ég gæti líka orðið atvinnumaður í að rölta Laugaveginn. Það gerði ég líka í dag. Nú, eða sérlegur innkaupandi eða atvinnuhilluskoðandi í Bónus. Það gerði ég í um klukkustund í dag. Atvinnuræktandi kemur líka til greina. Að fara í ræktina var það fyrsta sem ég gerði í dag. Klæðari er góður kostur. Í dag klæddi ég mig úr fötum og í, margar umferðir, í hér um bil hálftíma. Eða sturta, ég gæti vel orðið góð sturta, með mína reynslu og sérlega kunnáttu í að fara í notalega sturtu, slíkt sýndi sig og sannaði í dag.

Enska, hvað? Til að verða - Englendingur? Ég er ekki einu sinni að læra, sem er fáránlegt, en mig bara langar það allsallsallsekki. Gremjulegast er þó að prófin á haustmisseri sýndu fram á að ég er á réttri hillu. Þetta er svo sannarlegar námið fyrir mig og mér finnst það skelfing áhugavert en nenni ekki að vera ábyrgðarfull og samviskusöm, nei, nei og aftur nei. Ég þrái svo heitt að vinnudeginum sé einhvern tíma lokið en hvenær hefur það verið raunin hjá nokkrum háskólanema? Maður er aldrei búinn, það er ellefta boðorðið: Þú skalt aldrei geta tekið þér frí með góðri samvisku, sért þú í háskóla.

Svo ég rölti bara fram og aftur um hverfið og glugga kannski í verslanir vitandi að ég má ekkert kaupa. Hvers lags sjálfspíningarhvöt er það? Tvöföld skömm; ætti að vera að lesa en fer þess í stað að leika mér að því að freista buddunnar. Ég er svo auðveld, svo einfalt fyrir illu-Helga að afvegaleiða ábyrgðarfulla stúdentinn og plata til að fjárfesta í einhverju sem hún þarf alveg nauð-syn-lega á að halda. Eins og til dæmis í súkkulaðirúsínum enda eru þær lífsnauðsynlegar.

Ég er auðnuleysingi! Ég læri ekki en kaupi mér nammi.

Hins vegar myndaði ég mér skoðun á þessu dratthaladangli mínu um stræti borgarinnar í dag, svohljóðandi: Fátækt er bara hugarástand.
Ég ætla aldrei á ævinni að verða fátæk og þessi síða mun ekki nokkru sinni kalla Skottið "fátækan námsmann". Hún er bara blönk. Oft. Það er samt ævinlega tímabundið. Ástand er ávallt breytilegt þó það geti reynst langvarandi. Að lokum réttir maðurúr kútnum, gefið að viðkomandi hafi verið staðfastur á eigin fótum.
Independent Woman a little bit short of funds - en aldrei fátæk.

Comments:
Ahahahaha! Þetta ellefta boðorð er ekki gott, en ákaflega fast innprentað í hausinn á manni og það er svo slæmt!
 
Auk þess legg ég til að ellefta boðorðið verði troðið niður í svaðið!
Linda
 
þú ert perla heillin mín!!
 
Engar áhyggjur af þessu, þú klára þetta fyrir 27 ára aldurinn.... það er meira en sumir geta sagt :P
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?