miðvikudagur, febrúar 15, 2006

 

Það er margt gott -

svo sem að eiga afmæli.

Reyndar vika síðan en ég lifi á minningunni um einn dag þar sem ég gerði nákvæmlega það sem mér sýndist, sama hvort það var skynsamlegt eða ekki. Ég var til dæmis í hálftíma undir heitri morgunsturtunni, burt séð frá öllum hitaveitureikningum. Ég notaði allar mínar sápur og mikið af þeim, fullt af alls kyns kremum og dásamlegheitum, drakk svo morgunkaffi á Súfistanum mínum og keypti nærföt og náttbuxur á 3fyrir1 útsölu í Knickerbox. Það voru líka góðar konur sem sóttu mig heim og deildu franskri súkkulaðiköku, gulrótartertu og kexi með osti og sultu.

Allir pakkarnir voru að sjálfsögðu til fyrirmyndar og ó, mig auma, nú þarf ég að vaka lengur á nóttunni til að lesa

Beowulf eða Bjólfskviðu
The Narrative of Arthur Gordon Pym of Nantucket eftir E. A. Poe
Alkemistann eftir Paulo Coelho
og öll ljóðin eftir W.B. Yeats

en það ætti að vera í lagi því ég á

kaffisúkkulaði
biscotti
og tvo nýja bolla til að drekka mikið kaffi úr.

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa tilfinningunni sem kom yfir mig þegar ég opnaði risarisastórvaxna böggulinn frá elsku bestu stelpunum mínum í

Þýskalandi
Frakklandi
Noregi
og Austurríki

og við mér blöstu Skórnir Einu. Inga mín, Inga, þú ert ólýsanlegur öðlingur, og þið allar, leynimakkarar og ljúfastar.

ÞETTA hefur hins vegar ásótt mig síðan þá:
Gömlu konurnar verða líklega aldrei aftur samankomnar í árlegu afmælisboði mínu.

Einu sinni var
tíminn þegar það voru helgispjöll að skorast undan afmælisveislu (sem pabbi einhvers og mamma borguðu að sjálfsögðu).

Einu sinni var ég líka
ekkistór
og hafði enga ástæðu til að efast um að tilvera mín myndi ekki ævinlega hverfast um

LundarskólaMenntaskólann og tónó og kórinn og skátana og ræktina á Bjargi og afa&ömmu í Holtateigi.

Við hvern á ég að ræða slúðrið og plastpokapólitíkina í Fréttablaðinu yfir lafmóðum salatbar?
Unnur, manstu þegar við drukkum endalaust mikið sódastrím og lékum Lion King í bílskúrnum?
Hver vill koma með mér á kamarinn og lýsa?

Ég örvænti að Valdís og Helgi munu setjast að í Ölpunum og gerast þar skíðahjúkka og snjóhúsasmiður, og hef illan grun um að Tóta hafi verið numin á brott af norskum skógartröllum. Una mín kemur trúlega heim með froskalappir og Inga, hún kann ekki lengur að reikna í krónum. Bestasta besta er næst mér í tíma en ég er ekkert rosalega velkomin í hennar rúmi...

Getur verið að ég sakni ykkar svo vegna þess að ég get ómögulega sæst á sjálfa mig sem lífsförunaut? Ekki að ástæðulausu, ég er búin að vera fremur leiðnleg í tæpa viku, borandi hausnum ofan í kodda til að þurfa ekki að horfast í augu við uppvaskið og framtíðina. Sef ekki, bara alls ekki, og hef óbjóð á öllum mínum köntum. Emily Dickinson er flutt inn og mig langar afskaplega til að sleppa daglega lífinu og gerast minnismiðaskáld undir súð. Hef ekki einu sinni litið á tölvupóstinn minn, hvað þá annarra manna vefdagbækur. Erasmus er að gera mig gráhærða en ég skal! Morgundagurinn fer að öllum líkindum í að ganga á veggi. Svo verður hann farinn áður en ég næ að gera eitthvað afdrifaríkara en að borða hádegismat -
burt, bless

Gone With The Wind
And frankly, my dear,
I don't give a damn.

Comments:
Ooo hvað þú ert döpur, en þú hefur mig! You just call out my name (or call me on the phone) and you know wherever I am, I'll come running, yeah. See you again.
Góðan vikuafmælisafmælisdag á morgun!
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?