miðvikudagur, febrúar 08, 2006

 

Ég er rammpólitísk

og búin að koma mér upp barmmerki. Kosningar 8.-9. febrúar, smávægileg skekkjumörk á síðustu færslu. Klárlega fer mitt atkvæði ekki til þeirra sem vilja láta fyrirtæki fjármagna kennslu í stökum kúrsum innan háskólans! Það væri eins og að selja úr sér nýrað fyrir nám sem maður á fullan rétt á samkvæmt lögum - jafnrétti til náms!

Og já, hvað er málið með þessi stúdentakort? Það væri öllu nær að láta mig hafa einhverja byggingu undir námskeiðin mín frekar en "sólarhringsaðgang" að Odda, þar sem ég er varla velkomin. Svo væri líka snjallt að berjast fyrir jafnrétti til mötuneytis og sjá til þess að allir stúdentar fengju einhvers staðar sæti í hádegishléinu, í stað þess að jarma um byggingu Vísindagarða. Þannig komum við aftur að húsnæðisvanda hugvísindadeildar; finnst engum athugavert við að heimta frekar Vísindagarða til viðbótar við aðra aðstöðu raunvísindanema þegar flestar tungumálaskorir eiga í engin hús að venda? Ég þeytist milli tíma í Lögbergi, Árnagarði, Odda og Háskólabíói og það er hvergi lesaðstaða fyrir BA-nema í hugvísindadeild, hvergi! Nema þá á Þjóðarbókhlöðunni þar sem við höfum að sjálfsögðu engan forgang fram yfir aðra. Nú óska ég eðlisfræðistúdentum og fleiri þvíumlíkum alls hins besta en mér finnst alveg grundvallarforgangsröðun að allir nemendur fái einn bita áður en sumir fara aðra ferð.

En svo ég taki nú upp léttara hjal, þá er ísinn minn góður. Ég hefði bara þurft alvöru einangrað ísform til að koma algjörlega í veg fyrir kristallamyndun, svona tómt box undan hversdagsís er ekki alveg að gera sig.

Á morgun mun ég mæta í fyrsta sinn ólesin í fyrirlestur í amerískum bókmenntum og það er Gvendi að kenna. Hann er búinn að stela of mörgum klukkustundum af lífi mínu, bjálfinn sá. Aumingja Thoreau, ég og hann munum ekki eiga nein samkipti fyrr en á föstudaginn. Vesalingurinn heldur örugglega að ég hafi misst allan áhuga, það er auðvitað erfitt fyrir hann að skilja að það sé annar karlmaður í lífi mínu. Sá er reyndar ekki velkominn, hm, já kannski er kominn tími á að losa sig endanlega við Guðmund vonda... Ég veit náttúrulega hvar hann á heima.

Svo finnst mér líka Hugh Laurie sætur.

Comments:
Mér finnst hann líka sætur.....

En þessi færsla hjálap ði nú ekki til við að ýta undir löngun í háskólanám við hugvísindadeild HÍ...Takktakk Helga mín:)
 
Mér líka. En Helga, ertu að vísa til Vöku þegar þú talar um einhverja sem vilja láta fyrirtæki fjármagna kúrsa? Hvar heyrðirðu þetta? Ég kem nefnilega af fjöllum, hefur fundist málflutningur Vöku og Röskvu svo óhugnalega líkur að ég á erfitt með að taka ákvörðun. Hef heldur ekki viljað falla í þá gryfju að líta á þetta sem hægri-vinstri baráttu, mörgum finnst eflaust að atkvæði mitt eigi átómatískt að fara til Röskvu þar sem ég kýs Vinstri-græna. En þó þeir hafi margt gott á málefnaskrá sinni get ég ekki sætt mig við að þeir vilji álykta um að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni fyrir hönd allra innan háskólasamfélagsins.. ojæja. Voðalega löng athugasemd, afsakaðu!

En ég er sumsé í valkreppu.
 
Til hamingju með afmælið elsku Helga mín:)
 
Til hamingju með afmælið gamla mín, hafðu það sem best í Reykjavíkinni, kveðja úr Ölpunum :)
 
Ég veit þetta er gömul færsla, en ég varð bara að óska þér til hamingju með að hafa gert ís sem bragðaðist vel, ekki eitthvað óskilgreint fjólublátt.
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?