sunnudagur, mars 26, 2006

 

Þessa helgina

var einmitt svona latt helgarveður. Glampandi sól, örlítið frost og stilla síðan á föstudag - þegar þannig stendur á langar mig í göngutúr með góðu fólki, og svo inn í heitt kaffi og helst eitthvað sætt. Nú er ég alin upp af göngufíklum sem telja hressilegar miðdegisgöngur hið ákjósanlegasta tómstundagaman. Það er hinsvegar ekki hreyfingin sem mestu skiptir heldur félagsskapurinn, annað hvort á meðan athæfinu stendur eða að því loknu, enda sígilt að skreppa í labbitúr heim til ömmu og telja sig þar með eiga réttmæta heimtingu á ljúfmeti og trivial pursuit.

Hins vegar átti ég slíkra notalegheita ekki kost þar sem ég þurfti að mæta í mína helgarvinnu. Þessa dagana er fermingarvertíðin að hefjast með tilheyrandi rassaköstum í bókabúðum landsins. Ég seldi og seldi svo þúsundkallarnir streymdu inn í tugavís á meðan tæplega kynþroska fjármálaráðgjafar í jakkaförum herptu þungbrýndir saman varnirnar, og aldraðar ömmusystur andvörpuðu ofan í tómar buddurnar. Þetta voru dýrar gjafir, feitar og löðrandi fermingagjafir sem viðskiptavinir mínir tíndu af útstillingarborðunum og stöfluðu á kassann fyrir framan mig.

Á milli þess sem ég svaraði fyrirspurnum á borð við: "Ég þarf að kaupa gjöf handa unglingsstrák, má kosta svona 12000..." "Hvað áttu handa fermingarstelpu á sirka 7000 krónur...", "Ef bókin á að kosta 6000, er þá nokkuð hallærislegt að kaupa hana þó hún sé á 50% afslætti...", þá fletti ég fermingarriti sem fylgt hafði einhverju dagblaðanna. Umfjöllunin um fermingarveislur og fermingarundirbúining er alls ekki úr takt við íslenskt þjóðfélagið almennt; allt stílíserað, gourmet, með stefnu, með sérstöðu - ef eitthvað gæti ekki verið klippt út úr auglýsingableðli frá Cosmo, La Dolce Vita, Sautján, Blómaverkstæði Binna, Kron, Fylgifiskum, eða Jóa Fel þá ætti maður að skammast sín og skríða aftur undir holtabarðið hennar langömmu.

Mér finnst alvega fyrirtak að gefa fermingarbarni fallegar og góðar gjafir sem geta fylgt því einhver ár til minningar um daginn. Og það er tilbreyting að halda veisluhöldum. En ég spyr mig á hvaða forsendum menn velja og gefa gjafirnar og standa að hátíðunum með hinu eða þessu sniði. Ég hef nefnilega oft á tilfinningunni að fullorðna fólkið geri þetta allt saman mest megnis fyrir sjálft sig, eflaust ómeðvitað. Hvaða hagsmuni hafa menn í huga þegar þeir spá hvort asnalegt sé að eyða "bara" 4000 krónum í fermingargjöf handa barni sem þeir vita ekki einu sinni hvaða áhugamál hefur? Hver er það sem "græðir" mest á því að halda ofurfágaða veislu með svo og svo merkilegum veitingum og flott hönnuðum skreytingum? Og af hverju telja menn svo mikið í húfi? Halda foreldrar að þeir verði að framkvæma hitt og þetta unglingsins vegna á þessum "tímamótum"? Hvernig dettur mönnum það í hug? Mér er sem ég sjái 14 ára fermingarpilt tilkynna að til að komast "í fullorðinna manna tölu" þá þurfi hann 70 manna veislu með designer blómaskreytingum, köldu borði og stílhreinni tertu í desert (helst tiramisú frá Sandholt). Fyrir hvað ætli menn minnist pabba og mömmu þegar komið er á fullorðinsárin?

Ég fékk örlítið hlé frá fermingarfarganinu þegar kona nokkur keypti af mér tvo pakka af kennaratyggjói, svona blágráu "Haaftmaassa". Og allt í einu var mér hugsað til mömmu, inni á skrifstofu að vinna við skrifborðið sitt. Ég mundi að mamma mín átti ALLTAF kennartyggjó handa mér þegar ég þurfti nauðsynlega að hengja upp Baywatchplaköt eða póstkort eða úrklippur eða hreyfðar ljósmyndir úr skátaútilegum.

Og mig langaði að fara með henni í göngutúr.

Comments:
Hæ sæta, alveg er ég sammála þér!! ég skil ekki þegar fólk er að kaupa gjafir uppá mörg þúsund, þegar það man varla hvað barnið heitir!! En hlakka til að hitta þig í kvöld:)
kv
Valdís
 
Hæhæ :) ég fæ bara hroll við að lesa það sem þú skrifar :) það gleður mig alltaf þegar ég sé að það sé komin ný færsla hjá þér!
 
bloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðubloggaðu

bara svona hugmynd...
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?