fimmtudagur, mars 23, 2006

 

Hressi háskólaneminn

snýr aftur, ósofinn sem aldrei fyrr!
Þessa dagana lifi ég erkilífi hins einhleypa stúdents.

Sólarstundunum er farið að jfölga sem verður að teljast neikvætt nú þegar líkamsklukka mín er stillt inn að vaka á næturnar (því þá er friður til að læra, klippa táneglurnar og horfa á A Streetcar Named Desire). Það er orðið næsta ógerlegt að sofa til ellefu þegar maður liggur með höfuðið undir glugga sem snýr í austur. Upphrópunarmerki!

Ég hef gefist upp á Tollatímum og ætla ekki einu sinni að horfa á fyrirlestrana hans á netinu, ónei. Ég ætla bara að lesa grunsamlega skemmtilegt námsefnið og öðlast þannig uppljómun og ná mér í smáræðis málfræðinirvana. Þetta er kannski heldur seint í rassinn gripið með einungis tvær kennsluvikur framundan but a man's gotta do what a man's gotta do.

Talandi um nirvana, þá er ég á beinu brautinni með jóga all the way. Yðar einlæg hefur verið heldur löt við að mæta í ofurögrandi yogilates tímana sína undanfarið og saup seyðið af því síðastliðinn mánudag. Já, ég er með strengi á stöðum sem ég vissi ekki að væru til á mér.
Þá er gott að vita að harðsperrur verða einmitt til þegar vöðvaþræðirnir í manni rifna í tætlur.

Svo er ég er svo félagslega meðvituð þessa dagana. Brotthvarf hersins, úrlausnir á varnar- og björgunarmálum þjóðarinnar, atvinnuvandi Reykjanesbæjar, stóriðja á Norðurlandi, staðsetning Reykjavíkurflugvallar, verðið á fasteigna- og leigumarkaðnum, virðisaukaskattur á matvörur, Glitnir banki, afskræmd útlitsdýrkun í fjölmiðlum, Baugsmálið og argi ríkissaksóknarinn, skerðing á námi til stúdentsprófs, staða tungumála í menntakerfinu, fjárhagsvandi Háskólans, sóun á menntun og mannauði innflytjenda hér á landi, klámvæðingin, hnattvæðingin, álvæðingin - ég hef engan vegin tíma til að kryfja þetta allt til mergjar. En eitt vil ég segja og það ítrekað, að ég vil ekki sjá svona miklu af skattfé launþega varið í allt snobbið í kringum forsetaembættið. Það eru sko alveg hreinar línur.

Erasmus eða ekki Erasmus? Ég er að verða snargeðveik á að geta ekki hugsað fyrir haustinu - húsnæði, tekjur og tekjutap, hvaða námskeið og hvar, hvenær fer ég og hvert og hvort? Geta þessir apakettir ekki drattast til að svara umsókninni minni?! Það fer svo mikil þolinmæði í þetta eitt að ég á varla nokkra örðu eftir til að nota við daglegt bras. Þegar óþolinmæði er komin út í öfgar stökkbreytist hún í eirðarleysi. Ég er eirðarsnauðasta manneskja sem heimurinn hefur þurft að þola síðan Alexander mikli hjó á einhvern hnút fyrir endalaust löngu.

Ég hélt líka í gær að ég væri að þróa með mér afgerandi undirhöku. Þegar ég vaknaði svo í morgun þá var ég allt í einu mjög kinnfiskasogin. Mér þykir þetta benda til þess að ég sé ekki alveg í jafnvægi. Sem er út af fyrir sig ekkert alslæmt. Téð gærkvöld ummyndaðist ég í karlmann og sogaðist inn í imbakassann svo öll tengsl mín við umheimin rofnuðu. Fyrst Reunion, svo Jay Leno og Friends til skiptis, svo Close to Home og ég rankaði ekki við mér fyrr en ég þurfti allheiftarlega að pissa. Þetta var hin ágætasta skemmtun, miklu frambærilegra en málsöguverkefnið sem ég er einmitt ekki að gera núna:

women - Old English - Lit. “woman-man”, alteration of wifman, compound of wif “woman” + man “human being”.

Það borgar sig ekki einu sinni að minnast á krónískan skort á stofnfé Helgu ehf., en hann kemur helst niður á þeirri sem minnst má sín. Þetta er náttúrulega óviðunandi ástand sem má rekja beint til þenslunnar í hagkerfi landans. En hey, ég vann aukavaktir í síðastliðnum mánuði svo það verða nokkrir þúsundkallar til viðbótar við næstu útborgun, húrra, húrra, húrrah, hahaha, ahem.

En já, guð veri með ykkur, svo framarlega sem þið teiknið ekki af honum mynd.

Comments:
Hey, ég fann parmesanstykki í Bónus á 499 krónur.. síðasta stykkið í hillunni. Núna líður mér einsog hefðarfrú þegar ég elda og ríf ferskan ost yfir.
 
Þú ert skemmtileg!
 
Oh, Bergþóra, ég reif einmitt af parmesanstykkinu mínu góða yfir konunglega eggjaköku kvöldsins. Og þegar henni var lokið þá skar ég mér stóran bita af ostinum og át eintóman, uhm... Og Kría mín, sækjast sér um líkir :-)
 
Hey, það er allavega ekki undirhaka elskan mín! Og ég horfði líka á Close To Home, mér finnst þú lík lögfræðingnum Annabeth.
 
ég á hvorki parmesanost né horfði á close to home, en mér finnst þú samt frábær:)
kv
Valdís
 
Þú kemur manni alltaf í gott skap, bregst ekki. Takk fyrir.
Linda
 
Hahah, alltaf gaman að koma hingað ;o) Veit ekki hvernig ég verð þegar ég kem heim, ekki búin að horfa á sjónvarp að ráði í fjóra mánuði! Ég af öllum! Sussubía...
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?