miðvikudagur, mars 22, 2006

 

Nú er ég ósammála

þeirri staðhæfingu Emerson að til að verða mikil manneskja eða "great man", þ.e.a.s. "to fulfill one's godgiven potential for perfection" þá þurfi maður að verða algjörlega óháður öðrum; "self-reliant".

Ég tel að mönnum farnist best séu þeir sjálfstæðir á eigin fótum en það að vera engum háður er ómögulegt. Sá sem segist vera óháður öllu og öllum hann er lygari - kannski óafvitandi og óviljandi en staðhæfingin er engu að síður ósönn.

Að sjálfsögðu eru menn misháðir efnislegum gæðum sem og öðru fólki. Það er heldur ekki gott að vera mjög upp á aðra kominn því það heftir frelsi einstaklingsins og kemur í veg fyrir að hann nái fullum sambandi við sjálfan sig.

En öllu má nú ofgera og ég held því fram að þegar menn er komnir á það stig að þykjast ekkert þurfa á öðru fólki að halda, þá geti þeir alveg eins lagst niður og dáið. Það veitir lífsfyllingu að finnast maður vera þarfur. Viljir þú ekki veita öðrum þá gleði þá verður þú hennar heldur ekki aðnjótandi. Að einangrast frá öðru fólki er ávísun á tilgangsleysi. Sá sem heldur að hann geti verið sjálfum sér nægur ævilangt hann er hrokafullur og dramb er falli næst. Emerson hefði haft gott af því að kynna sér Hávamál og læra að maður er manns gaman.

Engu að síður þá hafði hann rétt fyrir sér, karlinn, með að umbætur verða að hefjast innra með hverjum og einum. Hver er sjálfum sér næstur og auðvitað verður maður að þekkja hug sinn - þar er einmitt upphafsreiturinn á leiðinni til betra lífs. Og sama hversu gott fólkið manns er þá fær það ekki breytt því sem aflaga fer hið innra ef maður er ekki tilbúin til að endurskoða afstöðu sína og forsendur fyrir ákveðnum tilfinningum.

Ég er búin að vera skrýtin í skapinu og sálinni undanfarin mánuðinn án þess að vita af hverju. Það kemur nú fyrir á bestu bæjum. Og þar sem mér leiðist að vera í niðurfallinu þá hef ég líka beðið eftir því með óþreyju að ástandið skáni. Síðustu daga hef ég haft fjölda ástæðna til að vera glöð og sæl því ég hef verið að bauka ýmislegt skemmtilegt með frábæru fólki.

- vöfflukaffi fyrir þær mörgæsir úr 4.A sem voru í borginni og var nýja járnið vígt, ógrynni af súkkulaði, sultum, ís og jarðaberjum
- dýrðarletikast með Valdísi Önnu minni þar sem var mikið spjallað og rölt, kaffihús, kjúklingur og góðar stundir
- Atli nokkur sem þykist vilja vera vinur minn, óskaplega fínn félagsskapur og skemmtilegur viðmælandi
- endurfundir við löngu týndan bróður minn úr Von Trapp fjölskyldunni, voða "bounding" og gaman
- indverskur matur með royelítunni minni og hroðalega ljúffengur desert sem lagði okkur allar að velli yfir gamalli bíómynd
- litla sys í símanum hlýjaði mér um hjartarætur
- Kría, Blackadder og ís með snickerssósu - þarf ég að segja meira?

Þessir snilldarviðburðir áttu sér stað hver á fætur öðrum en ekki vildi myrkrið úr innsta horni sálartetursins. Hví? Því það var skugginn af mér. En þó að öðlingarnir í lífi mínu hefðu ekki getað rekið hann út í dagsljósið þá tókst þeim að vekja mig til umhugsunar. Nú ætla ég að hugsa í eina viku og athuga hvort ég get ekki loftað aðeins út. Það þýðir að Sjálfhverfa Helga verður líklega ekki tilbúin í hvað sem er á komandi dögum en henni er að sjálfsögðu sama hvað ykkur finnst. Svo skulum við sjá hvort ekki rofar til.

Comments:
þú getur líka alltaf gert eins og var gert einmitt í Von Trapp fjölskyldunni, sungið þegar þér líður illa!!

Döggir á rósum og kettlingur kátur, kola í eldhúsi pottar og pjátur (búin að gleyma textanum...) en þú veist hvað ég meina;)
 
Var lengi að fatta Söngvaseiðstenginguna - en það tókst. (NB. strikið, Gvendur fengi áfall ;) )
Hugsandi konu er best að lifa!
Sjáumst,
Linda
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?