miðvikudagur, apríl 26, 2006

 

Take heart, braveheart

Í gær var ég aum. Fyrst kitlaði vorið mig í tærnar svo ég gat ekki lært heldur fór bara á pósthúsið og hékk þar, og svo tók við hausverkur sem leiddi af sér pirring og almenn leiðindi.

Í morgun vaknaði ég, ennþá pirruð, og var að hugsa um að fara bara ekkert í ræktina
EN
mundi að yogakennarinn minn væri kominn heim frá páskafríi sínu í sunny California (þar sem rúsínur vaxa á trjánum) svo: upp, í og út.

Úti var Björk svarthærð og bauð mér á tónleika. Hún er góð og ég er glöð að hún muni spila uppáhalds eftirlætisfiðlukonsertinn minn eftir Mendelson. Vonandi fæ ég þá að heyra hljóminn í nýju fiðlunni, rándýru ógurlega fínu fiðlunni hennar, gaman gaman.

En, back to the basics, ég fór í yoga og lifnaði við í ennisholunum - það er svona að láta hausinn hanga niðri við gólf mínútum saman, þá kemst hreyfing á hlutina þarna uppi, blóð, hor og allt saman. Upplifði líka alveg nýja kennd, svona þögla, æsta, magnaða tilfinningu.

Þetta reyndist nefnilega keppnis yogatími, enda kennarinn ekki búinn að hreyfa sig í 2 vikur, heldur borða bara ameríska hamborgara út í eitt. Í fyrsta skipti var tónlistin í tímanum ekki eingöngu fljótandi bakgrunnsniður heldur baráttusöngur. Ég er ekki að grínast enda hefði mér aldrei dottið þetta í hug. Miss Darcy var með langan kafla af tónlist úr Braveheart (gott ef það var ekki þemað sjálft) á meðan við gerðum jafnvægisæfingar. Þetta var allt saman frekar fyndið, fullur salur af kéllingum af öllum stærðum og gerðum og stirðleikum, sem kepptust við að toga hægri fótinn hærra heldur en næsta gella. Með æðisglampa í augum þá reyndi hver fyrir sig að "vinna yogað", hah, ótrúlegt, en stórskemmtilegt. Ég varð svo uppfull af baráttuanda að ég svínaði á alla bíla á hlaupunum heim og brenndi brauðsneiðina í ristavélinni - sigur!

Þökk sé Mel Gibson þá er ég stríðsstúdent í dag en enginn voraumingi með hor.

Comments:
Hallelúja!!!
svona á að gera þetta!
kv
Valdís
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?