mánudagur, maí 01, 2006

 

Pokalafði

Ég átti skondinn dag um daginn. Téður (laugar)dagur hófst með örvæntingafullum lokaundirbúningi fyrir próf í bandarískri menningarsögu. Svo flysjaði ég puttann á mér með ostaskera en ályktaði að það væri góður fyrirboði. Ég tók prófið og féll tíma sem skiptir ekki öllu máli lengur. Skipti reyndar engu máli þá heldur því ég var svo þreytt eftir svefnvana nótt og próftökuna sjálfa að það var engin orka aflögu til að gráta það sem gert var.

Til að hressa sálartetrið og auðga andann brugðum við Kría okkur í Bónus á Laugaveginum að átökunum loknum, sem væri varla í frásögur færandi nema fyrir það að afraksturinn reyndist góður haldapoki hjá hvorri um sig. Þaðan þurfti yðar einlæg að mæta til vinnu í Máli&Menningu og var Bónuspokinn meðferðis.

Nú mætti halda að Jóhannes Baugur væri opinber styrktaraðili þessarrar síðu en svo er ekki.

Í vinnunni fékk yðar einlæg lánuð tímarit sem fylltu annan góðan poka. Þess utan var axlataskan hennar úttroðin af veski, snyrtibuddu, götukorti, inniskóm, nestisboxi, ensk-enskri orðabók, vatnsbrúsa, prjónahúfu, pennaveski, geislaspilara, hárgreiðu og ljóðasafni W.B. Yeats.

Hér lýkur formála og inngangsorðum og hefst nú ævintýrið. Nei, bíðið, í millitíðinni heftaði ég í puttann, sama puttann og var flysjaður fyrr um daginn.

Þegar kvöldvaktinni minni lauk var klukkan orðin 23 og nammidagur. Laugarsdagskvöld eru nammikvöld og eitthvað þurfti að maula yfir tískublöðunum en þau stefndi ég með undir sæng. Því brá ég á það ráð að lalla niður í 10-11 í Austurstræti, eins og svo oft áður þegar mig fýsir í fokdýrt sælgæti á ókristilegum tíma.

Með níðþungan Bónuspoka í annarri hendi, tímaritapokann í hinni og töskuskrýmslið um öxl skreiddist ég loks inn í verslunina og þar var sannkölluð laugardagsdjammstemming. Strípaðir Íslendingar á támjóum skóm að kaupa bland, g-strengsgellur að leita að snakki og áttavilltir túrhestar á höttunum eftir síðbúnum pylsukvöldverð. Ég skellti pokunum tveimur og axlatöskunni ofan í innkaupakerru og stefndi á nammibarinn.

Skrýtið augnatillit eins ferðalangsins reikaði frá pokunum og töskunni í kerrunni, upp kroppinn á mér og niður aftur. "Karlskarfurinn", hugsaði ég gröm en leit fyrir tilviljun niður á kerruna líka. Og skildi - og hló innan í mér. Útpískuð afgreiðsludaman ég var eins og besta baglady, ragdoll sem átti í engin hús að venda nema kjörbúðir með langan opnunartíma. Á augabragði hætti skósíða svarta vintagepilsið mitt að vera trendy og ummyndast í útigangspils. Græna notaða skíðaúlpan var ekki lengur skemmtileg heldur sorgleg. Prjónasjalið mitt ekki flottara en trefill heldur bara treflastaðgengill sem líka mátti binda um hausinn. Ullarhúfan ekki stór heldur of stór. Og aleiga mín í plastpokum og tösku ofan í innkaupakerru.

Ég komst í blússandi karakter og snarhætti við að fara heim. Hékk bara í búðinni og skoðaði allt sem fyrir augu bar, handlék og tautaði við sjálfa mig. Það var gaman. Góður þykjustuleikur. Ég rúntaði í marga hringi inni í búðinni og ímyndaði mér að ég ætti ekkert hlýtt rúm að skríða upp í eftir lokun á miðnætti. Aumingja pokalafðin.

Um nóttina prófaði ég svo annað hlutverk, fór í gulan blúnduhlýrabol og bleikar náttbuxur, kveikti á ilmkerti, setti krem á fæturna og Alanis Morisette í spilarann. Uppi í rúmi með bland í poka, Elle magazine og Marie Claire, allt annar fílingur. En maður verður auðvitað að hafa smá tilbreytingu í þessu lífi.

Comments:
ó hvað ég sé þig fyrir mér inní 10-11, en hvað það hefur verið ljúft að þykjast vera útigangsmaður, að eyða síðustu krónunum í sælgæti á 50% afslætti!
það gerist ekki betra
kv
valdís
 
Útigangsmaður á nammibarsfylleríi. Þetta var stórgóð saga, gott þegar fólk kann að hafa ofan af fyrir sjálfu sér :)
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?