sunnudagur, september 17, 2006

 

Voðalegur

og skelfilegur dagur var þetta. Þá er ég að tala um nýliðinn laugardaginn, ekki sunnudaginn í dag.

Pakka-niður-fyrir-háskólaár-í-Englandi-dagurinn sem ég er búin að kvíða vikum saman. Ég gerði svo sem allt sem ég ætlaði mér en það var bara svooo tímafrekt og erfitt og leiðinlegt. Og ég á eftir að setja niður einhverjar restar af fatnaði og svo snyrtidótið mitt og loka svo töskunni.

Ég setti markið hátt og ákvað að halda mig innan löglegra marka, sumsé 20 kg til að tékka inn og svo einhver 10 samtals í handfarangri. 1 stór eiturgræn ferðataska, ein rauð flugfreyjutaska og svarta vintage axlarveskið mitt, það er allt og sumt en nógu helvíti þungt! Ég setti sokka inn í skó, skildi eftir hleðslutæki fyrir batterí og í fyrsta skipti á ævinni mun ég bara taka eina bók með í ferðalagið. Eina kilju sem ég á reyndar eftir að velja mér, hm.

Pússaði alla skóna og pabbi spreyjaði þá með sílikoni. Hann hefur líklega ekki treyst mér til þess verks af ótta við að ég reyndi að koma einhverju inn í þessi smánarlegu brjóst mín. En það voru nú alveg óþarfa áhyggjur því ég er búin að finna (undir rúmi, by the way, hví?!) pokann með öllum aukapúðunum fyrir brjóstahaldarana mína, þið vitið, þessa lausu sem maður hefur ýmist í eða ekki eftir því hvers konar efri parti maður klæðist. Pokaskrattinn var týndur í allt sumar þegar ég hefði alveg mátt við smá upplyftingu undir hlýrabolunum en einmitt núna, þegar komin er tími á stórar peysur og ullarvesti, þá kemur hann í leitirnar.

Ég er búin að grenja úr þreytu og pirringi, hlaða jólatónlist inn í iTunes, kveðja Valdísi Ösp og Helga Val, borða hnetusmjör, gera við sokkabuxur, gefa litlu sys allt meiköppið og kremin sem ég get ekki tekið með, mæta í hjúkkupartí, klippa eina nögl, og vera viðstödd tvíburaskírn.

Elsku Elvar Ágúst og María Katrín. Þarf fleiri orða við?

Á morgun flýg ég til Rvk og Unu. Kannski kemur kveðja en annars verðið þið bara að ganga í sjóinn.

Comments:
ég er glöð að sjá að þú ert strax byrjuð að blogga af krafti :)
 
Það er ágætt að geyma svona pokaskratta í nærfataskúffunni, svona upp á framtíðina.
Góða ferð og gangi þér sem best.
Við sjáumst vonandi eftir ekki of langan tíma.
 
Þrír tímar! :o)
 
It's alive! www.skottur.blogspot.com
 
Já, ég mæli algerlega með því að halda sig innan leyfilegra marka. Mín 15 kg urðu að 19,9 kg + handfarangur. Rétt slapp við hryggskekkju. Er enn með harðsperrur í handleggjunum og liggur við að ég dragi þá á eftir mér eins og górilla. ;)
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?