mánudagur, desember 11, 2006

 

Það er orðið að vana hjá mér

að sofa ekki aðfaranætur mánudaga. Þar af leiðandi eru mánudagar líka einu dagarnir núorðið þar sem ég drekk meira en 2 bolla af kaffi.

Í gærnótt fór ég hamförum og brasaði. Skrifaði jólakort og pakkaði inn pökkum með "Rocking around the Christmas Tree" í eyrunum. Alveg þangaðitil var kominn tími á dekursturtu og svo málstofu klukkan 9. Eiturhress mætti ég og hélt áfram að vera eiturhress fram að hádegi. Þegar ég kom heim og inn í eldhús var þar ræstingakona nokkur illileg að ryðja óhroða niður af eldhúsbekknum. Svo illileg að mig langaði að hnipra mig saman og væla: ég vaska alltaf upp eftir mig...

Á stigapallinum fyrir neðan mig var Craig að byggja jólatré úr tómum bjórdósum. Hann sagði mér að téð ræstingakona hefði urrað á hann, og núna væri hann skemmdur fyrir lífsstíð og þyrfti örorkubætur til viðbótar við námslánin sín. Craig er með námslánin sín á heilanum því hann kláraði allt sparifé sitt fyrir um 3 vikum og hefur síðan þá þurft að stela mat frá öðrum nemendum.

Á 4. kaffibolla dagsins tætti ég niður á bókasafn og byrjaði að ljósrita heimildir. Vafalaust voru brotin lög um höfundarétt á hverri einustu bók en ég hef engu að tapa. 100 a4 bls. Eiturhress.

Góðverk dagsins var að gefa Sabrinu, sem er með mér í amerískum samtímabókmenntum, járn- og steinefnabætt vítamín. Við vorum aðeins að ræðast við, svona grænmetisætna á milli, og hún kvaðst alltaf þurfa að leggja sig seinni partinn, eins og gamlar konur með permanet. Ókei, lítil og mjó 21 árs stelpa borðar ekki kjöt og ekki egg og ekki rúsínur og tekur ekki fjölvítamín... Járnskortur, einhver?

Spellvirki dagsins var að skrifa inn í bókasafnsbók. Ohohoh.

Markmið dagsins: fara að sofa.

Comments:
Skrifa inn í bókasafnsbók! Helga mín. Nú líður afleysingabókaverðinum mér bara illa. ;-)

Gott að jólafríið nálgast. Ég er komin heim á Frón. Það er kalt, samt ekki svo, en allavega kaldara en á Englandi. Hver hefði trúað því?
 
Ég verð glöð þegar ég hugsa til þess að bráðum verðum við á sama landinu og eftir hálfan mánuð í sama bænum :o)

Bókmenntaprófið búið og gekk bara vel. Nú eru það málvísindin...
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?