föstudagur, febrúar 02, 2007

 

Ljótan er eins og tröllkona

og verður að steini þegar sólin byrjar að skína.

Í dag drattaðist ég á lappir þegar líða tók að hádegi, skreið fram á gang til að sturta mig, andfúl, úfin, krumpuð og klesst eins og vera ber eftir næturlangan lestur af syndjátningum geðbrenglaðs skosks ofsatrúarmans frá 18 öld. En þegar ég hökti fram hjá stóra stigpallsglugganum skipuðst heldur betur veður í lofti, og ég ummyndaðist úr ljótum andarunga í undurfagran svan - í fyrsta sinn vikum saman brosti sólin við mér og hló!

Ég plokkaði grængula stíru úr auganu og valhoppaði léttstíg inn í sturtuklefann og hefði örugglega byrjað að syngja ef morgunröddin mín hefði leyft. Ég var kát meðan ég klæddi mig, þó að teppið inni í herbergi væri svo skítugt að það væri nánast sársukafullt á standa berfætt á því (á miðvikudaginn var ég í súrum svefnrofum þegar ræstitæknirinn mætti, og rak hana öfuga á dyr), og ég var kát meðan ég drakk morgunkaffið mitt yfir á Lindsey Café Bar. Og ég var kát í strætó alla leið inn í Newcastle, og ég var kát í gönguferðinni minni, alveg þangað til ipodinn varð batteríislaus.

Þá var það með herkjum sem mér tókst að forðast fýluna, en hélt áfram í góða skapinu. Og þó að sólin væri farin veg allrar veraldar (eða alla vega bak við ský) þá hélt dagurinn áfram að vera fallegur.

Það var ekki fyrr en um 6-leytið sem vindáttin breyttist. Ég var í biðröð á kassa í Sainsbury's með afskaplega netta innkaupakörfu og á undan mér var eldri kona með fremur, eða bara ógeðslega, mikið af varningi. Allt í lagi með að, ef strákrassgatið á kassanum hefði þekkt hana eitthvað, og fundið sig knúinn til að spjalla meðan hann skannaði vörurnar. Nú hef ég unnið á kassa og veit fyrir víst að það er vel hægt að eiga í innihaldsríkum samræðum og skanna í leiðinni...eða kannski gildir það bara um kvenmenn. Þessi ágæti afgreiðslugaur ætlaði ekki að geta hreyft hendurnar! Það tók hann 10 mín að klára afgreiðsluna og spjallið, og þess vegna missti ég af strætó heim. Og eins og áður sagði var sólin farin og því réði napurt febrúarkvöldið eitt ríkjum. Ef það er ekki nægileg ástæða til að finna til örlítis pirrings þá veit ég ekki hvað.

Nei, ok, eitt og sér er það ekki næg ástæða. En nú er það svo að Englendingar eru hægvirkasta afgreiðslufólk sem ég hef kynnst. Og þegar maður hefur upplifað svona lagað, tja 57 sinnum á 4 mánuðum, og veit af fenginni reynslu í öðrum og skilvirkari samfélögum, að það er ekkert lögmál sem segir: "Þú skalt afgreiða eins hægt og þú getur án þess að vera rekin(n)" þá má maður pirrast.

En nú mun ég fara og drekka te inn í eldhúsi og veita Chloe félagsskap - hún er á krónískum bömmer yfir því að ostinum hennar sé ævinlega stolið.

Comments:
Hmm, berast ekki alltaf annað slagið fréttir af því að þú sért að nota þennan ost ofan á kartöflurnar og þennan ost í þetta. Grunsamlegt. Aumingja Cloe. ;-)

Talandi um samræður. Æpodar hafa ekki góð áhrif á innihaldsríkar samræður. Þeir stuðla að einræðum. Allavega hjá mér. Ég hef oft byrjað að tala við fólk, og eftir dúk og disk tekið eftir því seint og síðar meir að það hefur ekki heyrt orð af því sem ég var að segja, af því að það var með æpodsheyrnartól hálfa leið inn í heila.
 
Það var ánægjulegt að allavegana helmingurinn af deginum þínum var ánægjulegur! Vonandi verða þeir bara fleiri og lengri í náinni framtíð :)
knús og kossar í klessu!
Valdís Ösp
 
ofsalega var þetta fallegt blogg um hana hildi söru hér fyrir neðan.
og eitt enn, ég get ekki beðið eftir að fara til london. þú verður að sýna okkur allar skemmtilegu búðirnar.
 
Voru játningar syndgarans svona spennandi að þú gast ekki farið að sofa? Þó hún sé seinlesin er hún (að mínu mati allavega) algjörlega frábær.

Ég kannast SVO við þetta seinfæra afgreiðslufólk, þetta á nefnilega ekki bara við Englendinga, sjáðu til, heldur Skota líka. Kannski er þetta eitthvað sem Skotar lærðu af Englendingum, eða öfugt?
 
Greyið Chloe, og greyið Helga fyrir að sólin fór frá henni.

Já Englendingar eru hægfara, jafnvel hægfarari en ég! og þá er nú mikið satt.

All se best, eigðu góðan frankenstæn.
 
Mér fundust Frakkar ekkert sérlega hægvirkt afgreiðslufólk, en hins vegar voru aldrei aldrei, án undantekninga, allir kassar opnir. Þannig var það bara. Og ef maður kom 5 mínútum áður en búðin lokaði voru þeir búnir að læsa.
 
Hallo saeta!! Vona ad tu hafir tad gott!! Bradum attu lika afmaeli!! Tad er alltaf gott!!
Sakna tin helling!!
Love
Valdis
 
nu er kominn morgun hja mer, to tad se enn nott hja ter, eg uppgvotadi ad eg er ekki med simanumerid titt tarna uti i stora bretlandi!! Tvi akvad eg ad senda ter afmaeliskvedju i gegnum bloggid! elsku besta Helga min, megi framtid tin verda bjort og fogur og strad hamingjustraum! Eg hugsa afskaplega heitt til tin og ta serstaklega i dag, tar sem tu att afmaeli!! Hlakka svo til ad hitta tig i vor, kannski lata greyid Huldu Johannesar fa annad vaegt hjartaafall... hver veit!! Njotta dagsins hann er tinn og tu att tad svo sannarlega skilid!!
risa risa risa riiiiiiissssaaaaa stort knus
Valdis:*
 
Skrifa ummæli

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?