mánudagur, október 30, 2006

 

Í dag stal ég könnu

af lífræna matsölustaðnum hérna á kampus. Þetta er fyrirtaks kaffi-/tekanna úr hvítum leir með marglitum doppum. Núna er ég að sötra chai úr gripnum og er það vel.

En byrjum á byrjuninni sem byrjaði í gærmorgun klukkan 7.

Vakna, lesa hemildir, kveðja Lindu, lesa heimildir, hádegismatur, klára að lesa heimildir...

...

Klukkustundirnar fljúga hjá og kem ég orði á blað? Nei. Ekkert. Það er allt fast inni í hausnum á mér eins og vondur kökkur. 12 klst í fyrirlestur í Amerískum samtímabókmenntum. Er ég búin að skrifa orð? Nei. Ekkert.

Svona er sunnudagurinn. Ekkert. Svo kemur sunnudagsnótt og um 1-leytið er ég farin að örvænta þó þetta sé eitthvað að mjakast. Fyrst sé ég fram á 4 tíma svefn. Svo lítur út fyrir að það verði tæpir 3. Og loks er ljóst að ég verð að skrifa alveg þangað til tími er kominn á sturtu. Þetta hefst, svona, klæða sig.

Á leiðinni á seminar hitti ég Tom sem er einmitt í þessum tímum með mér. Það kemur á daginn að við erum nágrannar. Það kemur á sama daginn að Tom er alls ekki leiðinlegur eins og talið var heldur fínn bara. Hann vakti líka í alla nóttina og las bókina svo við erum jafn þreytt, jafn kaffiþyrst.

Fyrirlestur, og nema hvað: "Excellent! Thank you very much in deed", segir Dr. Brown og bara orðlaus. Þetta skrípi tók á sig mynd um fimmleytið í nótt og ég hafði bara sett markið á að klára hann. Gleði, gleði, góður dagur og ritstíflan skelfilega löngu gleymd.

Póshústið - og þar er Tom! Hvorugt okkar er búið að fá kreditreikninginn sem er afar dularfullt. Hins vegar er Royal Mail með endemum lélegur dreifingaraðili. Þeim finnst fátt notalegra en safna saman öllum pósti sem þeir finna og fela hann í London.

Að sjálfsögðu eigum við Tom samleið í bankann (okkur er greinilega ætlað að vera saman). Svo fer hann að leita sér að vinnu því hann á engan pening en ég kaupi mér samloku því ég er siðblind. Að sjálfsögðu rekumst við aftur á hvort annað á lífræna bitastaðnum Harvey's þar sem gott kaffi fæst (Tom getur keypt kaffi þó hann eigi ekki aur, háskólanemar geta alltaf keypt kaffi) og þar eru líka fallegustu könnurnar á campus. Ég viðra skoðanir mínar á þeim málum og hann segir: "You wanna steal them?" Þar sem ég er jú siðblind þá samþykki ég það.

Ránið reynist sorglega löðurmannlegt í framkvæmd og veldur okkur vonbrigðum. Við reynum að finna betri orð yfir verknaðinn heldur en "steal" sem er afskaplega ruddaleg sögn. Sættumst loks á það að hafa "purloined the mugs". Það hljómar voða posh.

En augnlokin síga í þrátt fyrir allt kaffið og loks drattast ég heim að leggja mig. Sem er klárlega heimskulegt því nú mun ég sofna allt of seint og sofa allt of lengi á morgun og þurfa að læra frameftir og vakna seint og... Oh.

En! Ég á könnu.

föstudagur, október 27, 2006

 

Ég snýst

í hringi kringum það sem ég held að ég haldi. Ég efast og fer hinn hringinn. Um stund, þangað til ég er komin í ógöngur og á einskis úrkosti en að skipta aftur um hring. Eftir hring eftir hring.

Ég veit ekki neitt en ég held, fast, dauðahaldi í afstöðu, skoðun, hugmynd sem er bara ljósmynd af afriti af annarri ómynd og frumritið er týnt en ég held áfram að leita.

Fyrirgefðu, þú sem ég er ekki búin að tala við lengi, og líka þú sem fékkst aldrei svar. Ég lofa að reyna að hætta að fela mig og hverfa inn í sjálfa mig og týnast þar dögum saman. Ég er ekki vansæl, bara ringluð. Eiginlega er ég frekar sæl.

Te. Bakaðar kartöflur. Bakaðar baunir. Avakadó eru fullkomin matvara.

Um daginn sneri vindurinn regnhlífinni minni við svo ég þarf að kaupa nýja. Mig vantar líka andlitssápu því ég gleymdi flöskunni hjá Drífu.

Ég fæ aldrei nóg af íkornunum sem skjótast annað slagið yfir göturnar hérna. Og ég get ekki hætt að hugsa um krossfiska. Í The Book of Daniel eftir E.L. Doctorow mótmælir téður Daniel því að armar þessarra dýra vísi út í uppgjöf eða dauða, sem er ástæða þess að þeir eru oft taldir ógæfumerki. Þess í stað vill hann meina að krossfiskurinn vísi inn, inn í sjálfið og upphaf alls.

Ég er krossfiskur and I Grow Back Like a Starfish.

Úrvalið í fataskápnum mínum er að verða talsvert takmarkað en ég nenni ómögulega að þvo. Má heldur ekkert vera að því þar sem ég þarf að halda fyrirlestur í Contemporary American Fiction á mánudagsmorgun. Byrja á ritgerð um leið og það er yfirstaðið.

Ég las The Bell Jar og segi hér með öllum stautfærum manneskjum að fylgja því fordæmi. Íslenska þýðingin heitir Glerhjálmurinn og þetta eru rétt rúmar 200 bls kilja. Það eru til bækur sem fylgja mér alltaf, það er ekki bara í skáldsögum sem skáldsögur breyta lífi manna. Sylvia Plath er dáin, Virginia Woolf er dáin, James Joyce er dáinn, W.B. Yeats er dáinn en Paul Auster er reyndar á lífi þó hann sé gránaður. Þegar ég finn fyrstu gráu hárin mun ég spurja mig:

Ertu búin að fara til Indlands?
Ertu búin að lesa biblíuna?
Ertu búin að ganga eftir Kínamúrnum?
Ertu búin að segja mömmu þinni að í hvert skipti sem þú horfir í spegil þá sjáir þú hana standa á bak við þig, með hárbursta og teygju að flétta 9 ára hárið þitt?

Ertu búinn að borga visareikninginn?

mánudagur, október 16, 2006

 

Tíminn er afstæður og óverulegur

og líður illa.
Sumt gerist allt of fljótt en annað kemst aldrei í verk.

Núna er ég skrýtin í skapinu og aum í sálinni - ekki vansæl, bara furðulega varnarlaus. Seint í kvöld, þegar ég er búin að brasa nóg þá ætla ég að leggjast á gólfið og grufla. En ekki strax.

Kannski er ég svona ringluð vegna Paul Auster. Ég tók hann með mér til London á síðastliðinn miðvikud. og las The New York Trilogy í lestinni og á kvöldin og svo aftur í lestinni heim í gærkvöldi. Terry Eagleton gerði svo illt verra með þrugli sínu um post-structuralism.

Þið verðið að afsaka þetta but post-structuralism deconstructs. I'm only a fragmented identity, made up from all that is me and all that isn't. The relationship between a signifier and its signified is reflected in the relation and connection between me, the others and the world. If a signifier obtains its meaning from the things it does not represent, just as well as the thing it does symbolize, than I must be made from all selves that differ from me as equally as from my own self. My identity is everybody elses, and everyone is me. I'm shattered, scattered, all over the world but because there is no transcendental signified there is no essential me.

Ég fór til London og borgin gleypti mig, melti og leyfði mér að streyma um æðar sér eins og næringarefni sem gæði blóð hennar lífi. Milljónir og milljónir af agnarsmáum einstaklingum flæða á milli líffæra stórborgarinnar og til samans erum við hvort annað og heimurinn.

Undanfarnir dagar voru Addi í heimsókn frá Íslandi og við tvö saman í heimsókn hjá elsku Drífu. London er ótrúleg stórkostleg og skelfileg og the Underground er æði.

Paul Auster er dularfullur. Hann er persónan Paul Auster í bókinni, rithöfundurinn Paul Auster sem við sjáum mynd af aftan á bókarkápunni, og maðurinn Paul Auster sem á heima í New York og kaupir sér brauð og tannkrem og klósettpappír og andar og sefur og ropar og svitnar eins og ég og allir hinir.

En undanfarnir dagar voru ég að missa af lestinni í Stoke-on-Trent þrátt fyrir að standa tilbúin á brautarpallinum; horfði á dyrnar opnast, beið uns þær lokuðust og horfði loks á lestina hverfa - hví? Ég og Addi að missa af lestum. Ég og Addi að þrasa um komutíma lesta. Ég og Addi í lestum. Á Waterloo. Á Wimbleton.

Við á Tate Modern, sem hann fann algjörlega kortalaus. Ratvísi skrattakollur. Við að leita að stað sem selur pizzusneiðar. Við að þykjast vera hipp og kúl Lundúnabúar og felum myndavélarnar. Við á Piccadilly Circus. Addi að neita að skoða London A-Z. Við í rauðum tveggja hæða strætó. Við í vitlausum strætó. Við að keyra í hringi um Piccadilly Circus.

Undanfarnir dagar voru góðir, fullir af hlutum sem fylla mig af kjánalegri vellíðan sem ég held að heiti gleði. Við að rölta með Drífu að sækja Daniel og Isabellu í skólann og leikskólann og þar var fullt af oggulitlu fólki í skólabúningum og einn strákur í svörtum leðurskóm sem voru örugglega þyngri en hann sjálfur. Daniel og Izzy að sturlast úr tilhlökkun því nú voru þau að fara í frí - Izzy holiday! Burr, burr, holiday, Izzy burr! Hún með dauðahald á sínum allra fyrsta sleikjó og Daniel glókollur. Við að borða M&S örbylgjulasagne því eldhúsið á Woodend er í rúst. Drífa að leiðbeina okkur um undirheima almenningssamgangna stórborgarinnar og að kaupa handa okkur kort. Drífa, Drífa, Drífa mín. Elsku Drífs.

Við á útsölu í Virgin Megastore og Joni Mitchell og Bilie Holiday og Jeff Buckley. Við á Oxford Street og Addi að gera stórkaup meðan ég leyta út um allt að svörtum ballet pumps. Við að borða hádegismatinn í strætó meðan við virðum fyrir okkur útsýnið. Við seint að kvöldi á brautarstöðinni í Sutton Common en pokinn hans Adda ennþá í lestinni. Við í sorg. Við í rusli.

Við ætlum ekki að sóa London en sofum endurtekið yfir okkur. Big Ben, House of Parliament, leitin að beyglustaðnum þar sem amma var vön að kaupa mat fyrir Drífs meðan hún lá inni á St. Thomas', Westminster Abbey sem við tímdum ekki að borga okkur inn í. Við aldrei með þolinmæði í biðraðir. Við og styttan af Winston Churchill á umferðareyjunni sem þarf að stelast yfir á. Við með myndavélarnar, kúlið alveg búið. Við á Portobello Road og ný (gömul) hálsfesti og eyrnalokkar, nema hvað. Notting Hill og pílagrímsferðin að Arsenal leikvanginum, bæði nýja og þeim gamla á Highbury - héðan af neyðist ég til að vera dyggur stuðningsmaður the Gunners því þetta voru hreinlega mín fyrstu kynni af enska boltanum. Við aftur á Oxford Street svo Addi geti endurkeypt það mikilvægasta af glataða varningnum. Leðurtaskan, mín dýrustu kaup hér í Englandi so far.

Soho. Soho er dásemd og draumur og fullt af unaðslegu fólki sem er að meika statement bara með því að vera þar sem það er á því augnabliki - á laugardagskvöldi í Soho, Soho.

Snatch og það er ekki HÆGT að skilja hreiminn sem Brad Pitt talar með.

London, London, London. Og Paul Auster. Og ég veit ekki hver ég er, bara að það er ekki hægt að komast að því svo ég verð að láta mér duga að sjá brotin af mér í þér og kannast við mig.

laugardagur, október 07, 2006

 

Ooooooh


ég er svo góð að taka strætó!

Enda æfði ég mig í sumar á Akureyri, eh...
Nei, svona í alvörunni, færni minni virðast engin takmörk sett. Síðan ég kom hingað til UK hef ég þurft að treysta hræðilega mikið á almenningssamgöngur, og í gær tókst mér meira að segja að leiðbeina öðrum farþegum, jess! Alvöru cosmopolitan sko.

Ég er svo sjóuð að ég geri jafnvel kjarakaup á strætókortum. Það vill svo til að strætófyrirtækið var að setja ný kort á markaðinn, svona 10-skipta klippikort, sem ég keypti strax á útgáfudegi. Hins vegar eru engar klippur komnar í vagnana svo í 3 daga hef ég rúntað frítt því bílstjórarnir nenna ekki að gera neitt í málunum. Ég notaði tækifærið og brá mér í hinar ýmsustu skoðunarferðir um nærliggjandi byggðarkjarna og er núna víðförlasti Erasmus-neminn á svæðinu.

Hér að ofan er mynd af mér og Kríu á sérstöku "útlendingahlaðborði". Það er ekki svona eins og sjávarréttahlaðborð, samt.

En þetta er mynd af mér með hattinn hans Simon -

Þetta er afskaplega merkilegur hattur og miklu máli skiptir að bera hann rétt, svo miklu að ég fékk ekki leyfi til að nota arabahálsklútinn minn þetta kvöldið - það þótti einfaldlega óviðeigandi.

Annað sem er óviðeigandi er að virða ekki biðröð. Í Englandi eru biðraðir heilagar og það að ryðjast fram fyrir (queue-jumping) er ekki bara glæpur heldur SYND. Englendingum finnst svo gaman í biðröð að þeir stilla sér upp 7 mín áður en strætó kemur. Á Íslandi myndi biðröð eftir strætó teljast fréttaefni, enda þykja almenningssamgöngur einungis vera fyrir gamalmenni, leikskólabörn, fatlaða og geðbrenglaða. Come to think of it, þá myndi biðröð eftir einhverju á Íslandi vera stórfrétt.

Hvað fréttum viðkemur þá er ég reyndar alveg úti að aka (kannski í strætó, haha...nei, ekki fyndið). Meðan ég var að vinna í Bókval í sumar þá fylgdist ég vel með gangi mála í bresku dag-/slúðurbleðlunum en núna, hérna úti í UK, þá hef ég ekki mínútu aflögu til að glugga í blöðin. Það gæti verið búið að leggja niður Coronian Street og skjóta David Beckham án þess að ég hefði minnsta grun. Ætla mér alltaf að kaupa Sunday Times en ég þarf að lesa svo mikið fyrir mánudaginn að ég legg ekki í meira. Ég er nefnilega trassi og fór bara með Kríu til Newcastle í dag, hah, og hún keypti allt sem hún þurfti en ég allt sem ég þurfti ekki, eins og mini-roll on frá Dove, ég elska Dove.

Ég elska líka NUS-kortið mitt, það er National Union of Students. Ég elska að fá afslátt. Ég elska gömlu-konu-inniskóna mína og ég elska hestinn sem býr við hliðina á blokkinni minni þó hann sé líklega mannæta. Ég elska Like a Starfish með Anthony and the Johnsons og ég elska stafrænar myndavélar og ég elska ilmvatnið mitt og ég elska Andra bró sem má ekki missa af Melrose Place. Ég elska nýja vetrarjakkann minn og ég elska Drífu frænku og ég elska London og fer þangað í næstu viku. Ég elska Gvend vonda og Agatha Christie og elska hnetusmjör og hnetusmjör og hnetusmjör. Ég elska ekki einn mann og ég elska að kaupa afmæliskort hérna í UK. Ég elska Hamlet og ég elska gráu töskuna mína og ég elska www.abebooks.com og ég elska Keele-kortið mitt og ég elska kaffi eins og sést hér að neðan

sunnudagur, október 01, 2006

 

Á vinstri hönd

- yðar einlæg í Manchester.
Á morgun er það svo Agatha Christie's Murder at the Vicarage.

Framhald síðar.
Cheers!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?