föstudagur, apríl 22, 2005

 

Þetta er erfitt líf

Skrýtin tilfinning að vera svona viljalaus. Þarf nauðsynlega að byrja á 30% íslenskuverkefni í dag en get það alls ekki. Nenni því alls ekki. Svo sem ekkert skrýtið við það, en hins vegar hlýtur að teljast nokkuð dularfullt að ég skuli ekki geta rifið mig upp og lært heima án þess að það freisti mín. Mjög ólíkt mér. Eiginlega er óskiljanlegt hvað er að verða um mig. Held að þetta hljóti að vera einhver lokanykkur á gelgjunni, einhver svona lífskvíði og framtíðarfælni. Athafnaröskun. Framtíðin finnst mér afar fráhrindandi eins og er.

Annað mál, pabbi gaf mér voða skemmtilegt nýtt dót þegar hann kom heim frá Þýskalandi um helgina - hef ekki haft svona gaman af einhverri græju svo lengi sem ég man. Þetta ku vera skrefmælir eða pedometer, upp á engilsaxnesku.

Features:

Jaman, og skemmtilegast af öllu er náttúrulega þetta blessaða panic alarm. Það er s.s. pinni sem er stungið í mælinn (sem maður hengir á buxnastreng/belti) og er jafnframt tengdur með spotta við klemmu, sem er fest við flík. Ef togað er í spottann svo pinninn losni úr þá heyrist ægilegt sírenuvæl. Það mun vera hugsað til að fæla óða hunda og varasama hlaupastalkera með nauðgunartendensa. Nú, eða til að gera vart við sig, skyldi maður vera svo óheppinn að detta eins og bjáni og brjóta fót og annan. Eða ef maður lendir í snjóflóði. Eða þannig.

Já, og í gær, hinn fyrsta dag sumars, þá prufukeyrði ég nýja tryllitækið í gargandi blíðu og hitabælu (alls óviðeigandi á sumardaginn fyrsta) og það bara svínvirkaði. Mælirinn sýndi 15,62 km og ég þóttist sátt við þá niðurstöðu. Úff, hvað það er gaman að eiga nýtt dót!

Já, og fræga vini... Fyrir þá sem ekki hafa frétt það, þá unnu Una, Valdís og Lilý landskeppni Ungra vísindamanna 2005 með nuddgallann sinn að vopni. Þar af leiðandi eru þær um 100.000 kr ríkari hver og á leiðinni til Moskvu næsta haust! Vei! Kíkið á heimasíðu verkefnisins þeirra, þetta er algott og hreinlega frábært!

http://nuddognand.golin-is.com/

Hafðu þetta, Anna Sigga vetniskona! Mig langar miklu meira í svona flotta samfellu heldur en eitthvað vetnishús!

Hm, kannski maður ætti að taka þessar ofurframkvæmdasömu vinkonur sér til fyrirmyndar og koma sér að verki.

Kaffibollar: 1 1/2 (and counting)

Kílómetrar: 10,5


miðvikudagur, apríl 20, 2005

 

Mikil ósköp

Þetta er allt mjög dularfullt. Um 5 vikur eftir af skólanum og þar af 4 í maí, sem vill verða svolítið losaralegur, þið vitið, Brynjuferðir, Litlu ólympíuleikarnir, dimmisjó... Jamm, er að verða stúdent. Vei! En s.s., það er ofar mínum skilningi hvernig ég á að ljúka þessum, tja, 80% sem eru eftir af áföngunum mínum. Bara stór og ljót verkefni, próf, ó, öll þessi viðurstyggilegu próf. Og það vill svo skemmtilega til að flestir kennaranna þykjast ekki ætla að hafa nein lokapróf, heldur frekar mörg verkefni og svona smápróf í síðustu vikunni fyrir próftíð. Það ætla allir að prófa í vikunni fyrir próftíð. Og dimmisjó er á þriðjudegi... Strembinn mánudagur, hah.

Var einmitt í mjög svo ekki ánægjulegu spænsku málfræðiprófi hjá Erni kallinum. Það var einhverjar 6 bls. upp úr gerundio, presente, preterito perfecto, preterito pluscuamperfecto, preterito indefinido, preterito imperfecto, futuro imperfecto, perfecto immediado og fleiri gömlum kunningjum. Alla vega, það var fremur fúlt og barasta erfitt.

Kannski bara erfitt því ég nennti ekki að læra neitt í gær. Það er nefnilega vor í maganum á mér og ekki möguleiki að ég nenni að sitja á rassgatinu og beygja sagnir til andskotans.

Svo nenni ég heldur ekki að sofa. Málið er jú að þegar maður er sofnaður, þá er dagurinn (og jafnvel nóttin) búin og þá kemur næsti dagur með öllu tilheyrandi. Og þá þarf maður að gera allt upp á nýtt, þetta leiðinlega sem maður var rétt búin að ljúka við þegar maður hallaði sér á koddann. Þannig að ég hef tekið þann pól í hæðina að fara bara ekkert að sofa þegar ég hef lokið dagsverkinu, heldur nýta þennan dauða (svefn)tíma í að lesa skemmtilegar skáldsögur. Og það skilar sér í svona gasalega flottum baugum og góðum geispum. Ég get auðvitað ómögulega gert neitt af viti yfir daginn fyrir syfju, og allra síst íhugað spænska djöflamálfræði. Það gæti náttúrulega verið ein af ástæðunum fyrir slöppu prófi áðan. Eða kannski HATA ÉG BARA MÁLFRÆÐI! Rass.

Kaffibollar: 1 (and counting)
Kílómetrar: 3,1

fimmtudagur, apríl 14, 2005

 

Ótroðnar slóðir

Undanfarnar vikur hef ég þóttst vera nýjungagjarn frumkvöðull sem þyrstir í hættulega og spennandi lífsreynslu og þráir ekker heitar en félagslegt sjálfsmorð.

- hef varið óteljandi sólarhringum (og heilu páskafríi) af lífi mínu í vinnu fyrir tónlistarsvið Birtingar
- hef vanist því að svar í gemsann jafnt að nóttu sem degi
- hef upplifað símreikninga upp á mörg þúsund krónur - hafði hingað til látið 500-1000 kall duga
- hef stofnað til afar óheilbrigðra en náinna símsambanda, og þannig eignast nýja bestu vini sem ég hef þó aldrei hitt
- hef fundið úldinn smjörþefinn af skrifræði samfélagsins
- hef setið fleiri klukkustundir við að skrifa tölvupóst en ég hef dvalið í draumalandinu
- hef hraðlært heima...það sem ég á annað borð læri heima
- hef hringt u.þ.b. 18.965 í skakkt númer
- hef sleppt því að mæta í ræktina 1 fimmtudagsmorgunn í örvæntingarfullri tilraun til að ná 5 tíma nætursvefni
- hef kynnst fjöldanum af ótrúlega góðu og skemmtilegu fólki
- hef neyðst til að eiga tímafrek samskipti við fólk sem mér leiðist mjög
- hef misst allt álit á ónefndum aðilum sem titla sig fagfólk
- hef lagt stund á útgáfustörf
- hef haldið tónleika
- hef skrópað á tónleik til að vera viðstödd æfingu
- hef farið snemma heim af árshátíð til að geta vaknað til að fara út að hlaupa fyrir vinnu á fyrri vakt svo ég gæti mætt á æfingu um kvöldið
- hef betlað og sníkt meira en góðu hófi gegnir
- hef lært að vinna sem hljóðmaður
- hef unnið sem rótari (með dyggri hjálp frá Valdísi Ösp)
- hef fengið 18 hjartaáföll, 7 taugaáföll, 54 svitaköst, 98 magasár, 16 rembihnúta í magann og 976 höfuðverkjaköst
- hef tárast undir flutningi Gunnhildar Völu og Jóns Helga á To Be Grateful og Hafdísar litlu á Ást
- hef heitið Eyþóri Inga eilífri þakkarskuld
- hef trúlofað mig - unnustinn heitir James Bóas Faulkner og bjargaði sáluheill minni svona 27 sinnum á 2 sólarhringum (ekki hafa hátt um þetta, hann veit ekki af þessu, drengurinn)

 

Listar

Eftir nokkra sjálfsrýni hef ég ályktað að ég sé ekki mjög iðinn bloggari. Af þeim sökum hef ég ákveðið taka upp reglubundin listaskrif - nokkuð villandi, hah? En listar geta komið miklum upplýsingum á framfæri án þess að púðri og orðum sé eitt í subbulegt málskrúð og umfangsmikil stílbrögð. Hrátt er gott.

 

Sjálfsvorkunn Episode 2

...því kunningi minn, nokkur, frjálsíþróttaþjálfari sem vinnur líka á Bjargi, spurði mig hvort ég vildi ekki koma og æfa hjá honum í sumar. Ég bara, já og amen. Voða ánægð, maður einfaldlega hunsar ekki tilmæli frá svona fagfólki.

Þá er það líka opinberlega staðfest að ÉG GET HLAUPIÐ!

Hah, en það eru náttúrulega æfingar öll kvöld, hm... Ekki svo hentugt þegar maður vill stökkva á alla yfirvinnu sem í boði er. Já, já, að æfa eða ekki æfa... Argh!

Já, en talandi um vinnu, þá þykist yfirmaður minn vera búinn að redda mér hlutastarfi hjá Pennanum-Austurstræti næsta haust þegar ég fer í háskólann fyrir sunnan. Ef hann er að segja satt, þá hefur (fjár)hagur minn vænkast nokkuð. Hins vegar þá hefur karlinn ekki haft samband við mig síðan hann fór á verslunarstjórafund í borginni, svo ég veit svo sem ekki málavöxtu mjög görla.

Maður verður bara að vona það besta.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?