fimmtudagur, febrúar 24, 2005

 

Argh!

Mig vantar líka sundföt!

 

Á morgun

fer ég til Rvk, þar sem ég neyðist til að dveljast fram á þriðjudagskvöld. Svo sem ekkert slæmt að vera í höfuðborginni, nema þegar peningar (nú eða öllu heldur tilfinnanlegur skortur á þeim) setur stórt, ljótt strik í reikninginn - best að loka þessum reikningi, barasta.

Það eru reyndar tvær hliðar á málinu:
a) Ég hef alveg efni á að fara til Rvk í nokkra daga, ef ég bara hegða mér skynsamlega. Mig óar bara við því vegna þessa að...
b) Ég mun neyðast til að nota tækifærið þar semí borginni eru verslanir, og kaupa hluti sem mig vantar nauðsynlega, en myndi fresta því að fjárfesta í ef ég væri kyrr heima. Fresta og fresta... Og þ.s. sem ég fer á annað borð að skoða í búðir, þá mun ég væntanlega líka eyða í einhvern óþarfa.

Þetta er ekki einfalt. Og ég er í klemmu. Mig vantar:
- hlaupaskó, þ.s. mínir ástkæru Nike Air Pegasus Trail eru að syngja sitt síðasta. Hef vitað það lengi, en (eins og mín er von og vísa) hreinlega hunsað rotnunarþefinn, og "við lentum í tætara"-lúkkið sem hefur verið helsta aðalsmerki skónna undanfarið... Tja, árið.
- nærföt, sem ég kaupi sjaldan hér í bæ, þar sem valið stendur á milli Isabellu, sem selur stykkið af nærbuxum á 3000 kr (ókei, stundum hægt að kaupa á útsölu, en yfirleitt ekki það sem ég kýs helst), og Hagkaup, sem selur draslnærfatnað - sé brókin flottari en Sloggi bómullarbrók, þá má ekki þvo hana í þvottavél. Og þar sem ég þvæ nærbuxurnar mínar í þvottavél, hvað sem hver segir, þá hefur reynsla mín af Hagkaupsbrókum verið: léleg ending.
- buxur, helst einhverjar sem hægt er að klæðast síðum peysum/toppum við - hef nú rannsakað gaumgæfilega allar tískuverslanir á Ak, en ekki fundið það sem ég leita að (í minni stærð, þ.e.)
- íþróttabuxur - svona hlýjar, til að vera í utan yfir næfurþunnu hlaupabuxunum.
- úlpu, en rennilásinn í minni er klofnaður, og sökum þess að flíkin sjálf er ekki svo merkileg, myndi ekki borga sig að láta saumakona festa nýjan í.
- jakka fyrir vorið og sumarið. Á bara einn jakka, fremur hlýjan, eiginlega of hlýjan fyrir sumarið og alls ekki nógu fínan til að virka sem...
- betri yfirhöfn - gengur varla að eiga ekkert sparilegra en gráan, vatteraðan jakka, helst til of stóran.

Mig langar ekki til Rvk! Neyðist til að fara á háskóla- og starfskynningar, öðrum kosta mæta falli í LKN 121 - hvað er nú það? 1 skrattans eining, og maður þarf að leggjast í ferðalög upp á tugi þúsunda.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

 

The customer is always right

Af hverju halda menn að þeir hafi rétt til þess að ögra afgreiðslufólki, séu þeir ósáttir við e-ð í skipulagi viðkomandi fyrirtækis? Það er hægt að láta í ljós vanþóknun sína án þess að vera dónalegur við þá sem hafa ekkert með málið að segja. Af hverju ekki bara að kvarta við yfirmenn verslunarinnar, ef manni finnst svo að sér vegið, að þurfa að borga 15 kr fyrir plastpoka. ÞAÐ ER ÞANNIG Í ÖLLUM MATVÖRUVERSLUNUM! Og við rukkum ekki einu sinni fyrir hvern poka, heldur bara þessar skitnu 15 kr, og þú, fúli viðskiptavinur, færð eins marga og þú þarft undir vörurnar þínar. Þetta rennur allt í guðsvolaðan umhverfissjóð, og MANN MUNAR EKKERT UM 15 KR - og mann munar ekkert um almenna kurteisi í viðmóti við náungann, sérstaklega þann sem er að reyna að þjónusta þig.

Það stendur sko ekki í minni starfslýsingu að ég eigi að sitja undir skítkasti frá aumkunarverðum nöldurseggjum, en ég geri það, því "viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér". "að sjálfsögðu", "auðvitað", "því miður", "mér þykir það leitt, en ég get ekkert að því gert", "svona er stefna okkar"... Stundum á maður ekki einu sinni orð við athugasemdunum sem fólk kemur með. Ef þú ert svona hneykslaður/ósáttur/móðgaður/og allt svona ómögulegt AF HVERJU ERTU ÞÁ AÐ VERSLA VIÐ OKKUR?

Í gær afgreiddi ég aðila sem var með of stórar vörur undir litlu pokana sem við gefum ókeypis, en vildi ekki kaupa annan stærri undir varninginn sinn. Gott og blessað. En til þess að sýna mér hvað hún væri ósátt, þá bað frúin um fleiri litla poka og skæri og límband og FÓR AÐ KLIPPA SUNDUR LITLU POKANA TIL AÐ BÚA SÉR TIL EINN STÆRRI! Og allan tímann talaði þessi ágæta kona hátt við manninn sinn, sem stóð og skoðaði blöð, um hvað þetta væri nú ómerkileg og óviðeigandi stefna. En ekki nóg með það, heldur datt henni skyndilega í hug að spyrja hvað við rukkuðum fyrir innpökkun. Ég svaraði að það væri ókeypis þjónusta, og ítrekaði að ágóðinn af pokasölunni rynni til umhverfis- og góðgerðamála, en ekki í vasa fyrirtækisins. OG HÚN LÉT MIG PAKKA DRASLINU INN Í GJAFAPAPPÍR, skildi sundurklipptar pokatætlurnar, skærin og límbandið eftir á borðinu, og gekk út. Væntanlega norður og niður.

 

Ég kann ekki að telja

Samkvæmt góðfúslegri ábendingu leiðréttist hér með, að verðhækkun á litlu salatboxi í Hagkaupum er um 23% en ekki 45%, líkt og áður sagði.
Jafnframt tilkynnist að undirrituð mun ekki birta fleiri stærðfræðilegar staðreyndir á þessari síðu. Hún er ekki bitur, bara SÚR!

laugardagur, febrúar 19, 2005

 

ENDORFÍN

...er minn lífselexír!
Þvílík sæla, sem ég öðlaðist í morgun. Mér flýgur í hug það sem Terence, "sérstaki viðskiptavinurinn" hennar Maríu í 11 mínútum e. Paulo Coelho, sagði um hvernig við finnum leið til frelsis, þá aðeins við þorum að mæta óttanum. Það er sannleikur. Heimspekilegar skoðanir Terence á sadó-masókismanum eru hins vegar rotin afbökun á fallegum staðreyndum. Leiðin til hamingju sem hríslast um hverja taug, liggur í gegnum erfiði, sársauka sem maður leggur á sig án þess að niðurlægja nokkra sálu. Íþróttamenn eru fullkomið dæmi - þér líður kannski bölvanlega á erfiðri æfingu, en þú heldur áfram því þú veist að það gerir þér svo gott.

Í morgun hljóp ég í klukkutíma áður en Body Balance byrjaði - fáránlega erfiðan klukkutíma. Bókstaflega þaut af brettinu og inn í Tai-Chi uphitun, og það var bara himnaríki. Allir vöðvaþræðirnir stundu af vellíðan og lungun ætluðu að fljúga með mig á andardrættinum hærra, hærra... The Runner's High... Fyrirbærið hefur verið vísindalega rannsakað, skilgreint og viðurkennt. Það er þetta sem maður er alltaf að eltast við, eins og óður héri út um allan bæ, eða sturlaður kjúklingur á brettinu úti á Bjargi.

 

Varúð!

Salatbarinn í Haugkaupum hefur hækkað um heilað helvítis helling!
Núna kostar lítið box 367 kr (áður 299 kr), og er þ.a.l. það dýrasta í bænum. Þetta er... hm... 45% hækkun!

föstudagur, febrúar 18, 2005

 

Svikin

Af heilum kór - er furða að ég sé niðurbrotin?
Nefni enginn nöfn, en nú vantar heilan dagskrárlið á gospel-soul tónleikana sem ég þarf að halda í Birtingarvikunni. Bölvað vesen.

Ef e-r hefur hugmynd um góða flytjendur, endilega látið mig vita. Mætti vera öðruvísi en hefðbundið gospel, er t.d. með eitt band sem tekur Knocking on Heaven's Door. Á líka eftir að útvega undirleiksband; gítar, bassa og trommur...

Annað mál: Síðan hvenær er þrenna í fernu lagi? Ég bara spyr.

Í þriðja lagi: The Tell Tale Heart eftir Poe er allt of keimlík The Black Cat eftir sama. Í báðum tilfellum höfum við einstakling, veikan á geði sem fremur morð og felur líkið bak við fjalir. Þegar löggan kemur, býður hann þeim inn til að virðast með alveg hreina samvisku, og dvelur við staðinn þar sem líkiðer geymt, uns hann kemur sjálfur upp um sig. Og í báðum tilfellum gegnir bank mikilvægu hlutverki. Gaman að segja frá því.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

 

Hafið þið smakkað ferskt mangó?

Það er yndislegur ávöxtur svo ég ákvað að borða hann í kvöldmat og skellti saman uppskrift að ýsurétti og linsubaunasalati. 1 stórt mangó dugar í bæði fiskrétt og salat.

Maður verður náttúrulega að laga hlutföllin eftir hentisemi, ég trúi ekki á nákvæmar mælieiningar svo þið verðið að þola það.

Þetta magn dugar fyrir 3-4

Þetta er mjög einföld eldamennska, ekkert bras, bara brytja og blanda saman. Þeir sem vilja ekki olíu á salatið geta sleppt henni og notað bara lime-/sítrónusafa.
Fullkomlega hollt og næringarríkt, en ekkert leiðinlegt "megrunarfæðis-bastillu-hungursneyðaryfirbragð"
Bara gott bragð ;-)

Mangó-ýsa
- ýsa (magn eftir magaplássi matargesta)
- 1/2 kúrbítur
- 1/2 rauðlaukur
- 1/2 mangó
- BBQ-sósa
- soyasósa
- sítrónupipar

Skerið kúrbít og rauðlauk í fremur þykkar sneiðar og leggið í botninn á eldföstu móti. Kryddið ýsustykki með sítrónupipar, veltið vel upp úr BBQ-sósu og leggið ofan á (dreifið smá meiri BBQ-sósu á grænmetið sem stendur út undan). Skvettið smá soya yfir. Skerið mangó í bita og dreifið yfir allt saman. Setjið lok á formið og bakið við 180°C í ca. 15 mín.

Linsusalat með mangó
- 1 dós rauðar linsubaunir
- 2 lúkur salat (t.d. klettasalatblanda, spínatblanda eða jöklasalat)
- 2 stórir tómatar
- 1/2 rauðlaukur
- 1/2 búnt ferskt basilika
- 1 hvítlauksrif
- safi úr 1 lime/sítrónu
- 3 msk græn ólífuolía
- smá salt
- smá svartur pipar/cayenne pipar

Rífið salat, skerið tómata í báta, rauðlauk í strimla og saxið basiliku smátt. Hitið linsubaunir og hellið vökvanum af. Blandið linsubaunum og grænmeti saman í skál. Saxið hvítlaukinn smátt, kreistið safa úr lime/sítrónu, hristið hvort tveggja saman við ólífuolíu, salt og svartan pipar/cayennepipar og skvettið yfir salatið.

Bon appetit!

 

Glötuð augnablik

Dagurinn í dag hefur einkennst af tímasóun.

Eyddi 5 mín í að setja á mig svitaband áður en ég fór á Bjarg í morgun. Og áður en ég var svo mikið sem stigin upp á hlaupabrettið var helv... bandið skriðið aftur á bak og niður að ökkla. Afleiðingin var sú að ég leit út eins og hörmulegt 80s tískuslys, með toppinn út í loftið. Eins og það sé ekki nóg að vera alltaf grútmygluð og illa sofin þarna út frá, og í þokkabót eldrauð og rennandi sveitt. Skrýtið að ég sé ekki löngu búin að ná mér í eitt af þessum vöðvabúntum sem æfa á sama tíma.

Ææ

Eyddi 1 1/2 klst í að reyna að breyta stillingunum á þessari síðuómynd, svo að fyrirbæri á borð við About Me og Comments, mættu vera á hinu ástkæra ylhýra, en árangurslaust, þar sem ég er tæknilega heftari en Leppalúði.

Ææ

Eyddi 20 mín í að bíða eftir fundi með tónlistarmanni út af þessu Birtingarstússi. EN - þar sem ég dundaði við að skoða myndir af MA-stúdentum síðan á steinöld, fann ég mynd af elsta ömmubróður mínum, sem dó úr krabbameini þegar hann var 19 ára. Alltaf þegar amma Helga talar um hann virkar þetta fullorðinn maður, enda stóri bróðir. Samt er ég orðin eldri en hann varð nokkru sinni.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

 

Ég er flutt

Nýtt blogg, enda gamla löngu dáið. Mér líkar ekki við uppvakninga.
Líklega tengist þetta einhverju óþoli í mér - bráðum flyt ég að heiman.

Í haust reyndar - en 1/2 ár er stuttur tími með tilliti til þess að jörðin er margra milljarða ára gömul. Mín 20 ár eru eiginlega í mínus miðað við móður jörð, nú eða bara eldgömlu Ísafold.
Annars er ekki til siðs að ræða aldur kvenna/kvengervinga.

Hm... Líklega verð ég dáin og grafin áður en mér tekst að læra á þessa síðu...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?