föstudagur, september 30, 2005

 

Mér var svo kalt

á höndunum, á tásunum, á maganum og meira að segja á sálinni
þangað til að ég hitti Andra litlabróður á msn og hann sýndi mér ÞETTA!

http://www.folk.is/joi_andri

Sem eru sumsé brósi minn og félagi hans, frændi Valdísar.

Þeir eru 12 ára börn sem setja "Top 5 Girls" inn á bloggið sitt.

Aldrei var ég svona svalur gæi.

fimmtudagur, september 29, 2005

 

Gamli karlinn

sem ég leigi hjá er búinn að fá annan enn eldri félaga sinn til að klifra út um baðherbergiskýraugað mitt, út á brunapall og upp á þak, í þeim tilgangi að gera þar við leka.

Mér finnst þetta hljóma varasamt fyrir sprækan ungling og fyrir áttræðan öldung a.m.k. stórhættulegt.

Þó að félaginn óski sér dauða, þá liggja íslensk refsilög við því að aðstoða mann við sjálfsmorð.

Mér finnst ég vera ábyrg - morðsnautur? Kannski verðandi, ó ó.

Ó ó, ég heyri gamla vappa um yfir höfði mér...

 

Sveinn Daníel,

ef þú þú lest þetta, ég held barasta að ég hljóti að vera ástfangin af þér... Ég er alltaf að hugsa um þig, og í nótt þá dreymdi mig meira að segja að þú værir hérna en ekki einhvers staðar í Danmörku eða á Vopnafirði eða guðmávitahvar.

Hm, og þó. Líklega er ég bara geðveik í hausum, og líklega lest þú aldrei þetta blogg hvort eð er.

Um þessar mundir virðist ég líka stöðugt hugsa um eina tána mína sem er með brotna nögl, og í þessum draumi þarna var líka Voldemort íslenskukennari viðstaddur. Hann elska ég tæplega.

Svo er ég líka tilfinningalega geld.

miðvikudagur, september 28, 2005

 

Á mælandi að fara eftir forskrifuðum málfræðireglum eða á að semja málfræðireglur sem lýsa því hvernig talað er?

Í ensku er gríðarlega "mikilvæg" regla sem segir: Do not split the infinitive!
Myndi útleggjast sem: Ekki troða (atviks-) orði milli nafnháttarmerkisins og sagnarinnar!

Maður myndi kannski spyrja: Why not? What's wrong with a split infinitive?

Ég skal sko segja ykkur að það eru ýmsar góðar og gildar ástæður fyrir því:
a) it breaks up the verbal unit (fair enough)
b) it is a barbarous and illogical construction (villimannsleg málnotkun, bíddu nú aðeins...)
c) it is not found in Classical Latin (heyri ég einhvern tala fornlatínu? hélt ekki)

Ætti mönnum ekki að vera sama nú tímum hnattvæðingar og yfirdráttarheimilda? Ekki aldeilis!

1998 leyfði New Oxford Dictionary of English (höfuðvígi enskrar tungu, NODE ræður, alltaf) að split infinitive væri notaður við viðeigandi aðstæður. Þá fóru menn í blöðin...

Shock! Outrage!

Advance news of it [the NODE, allowing split infinitives] yesterday led the Queen's English Society to call for an English Academy to be set up on the lines of the Academie Francaise to protect the language from damage.
Joyce Morris, patron of the society, said: "The Oxford University Press is very powerful. If it is going to say this kind of thing, goodness knows what is going to happen to English." (The Guardian, 13.8.98)

Jebb, linguistics námsefnið mitt er ekki alveg leiðinlegt... (dæmi fengið frá Matthew Whelpton)

þriðjudagur, september 27, 2005

 

Ég vil ekki vera að monta mig

en við kellingarnar 3 vorum að ljúka við að skrúfa saman nýja rúmið mitt. Hamarinn sem pabbi færði búinu kom í góðar þarfir og gæti jafnvel haldið áfram að gegna mikilvægu hlutverki í hinu daglegu lífi. Nú er staðan nefnilega sú að við höfum skipað okkur sess sem leiðinlega-háværu-berja-stál-með-hamri-seint-að kvöldlagi-nágrannarnir, og þurfum því eflaust einhverskonar varnarvopn til að halda okkur á daglegu lífi.

Hlakka til að leggjast niður og kúrakúrakúrakúra... Þarf reyndar að skreppa í IKEA og leggja þar út fyrir púðum, mublunni til handa, svo hún fái þjónað hinum tilgangi sínum sem sófi. En ekki núna, núna er nótt og allar húsgagnaverslanir líklega lokaðar nema þessi þjóð sé orðin endanlega geðveik.

Meðan ég man, þá er rússneska fantasíu-hryllingsmyndin alls ekki góð. Eiginlega bara mjög súr. Nokkurskonar LOTR/Star Wars crossover með alveg einhverju slappasta handriti sem um getur. Og það er bara ekki persónusköpun, aðeins Rússar. Smá blóð og vampírur og fleira svoleiðis smotterí, einn svona "Hinn mikli" smástrákur sem er, jú, sonur aðalpersónunnar og gengur til liðs við myrkraöflin því að pabbinn var einu sinni vitlaus gelgja. Líka ein "Mær" sem á hvílir bvölvun og mun steypa heiminum í glötun. Og herir góðs og ills sem berjast eins og niðursoðnir steingervingar miðaldariddara á kókaíni. Jafnframt hamskiptingur. Mikið af flugum, sólgleraugum, gelrbrotum, rússnesku tekknópoppi, hráu kjöti, blikkandi ljósum, vodka, bílum sem keyra hratt og glannalega, hnífum og saklausu fólki í lífshættu, þrumum og hvirfilbyljum.

Æi nei, sama og þegið.

 

Hún dó

Einhver bresk fyrirsæta var víst myrt í gær eða fyrrinótt. 18 vesalingur. Og fréttaskotið á mbl.is sagði að hana hefði dreymt um að verða næsta Kate Moss.

Bjánar.

Öll ung módel langar til að verða næsta Kate Moss.

Maður þarf ekki einu sinni að vera fyrirsæta, nóg að vera stelpufífl. Reyndar er Mossinn ekkert sérlega öfundsverður í augnablikin, opinber kóknös sem missir samninga við Chanel og fleiri.

Persónulega dreymir mig um að verða næsta Emily Dickinson, bara ekki svona þunglynd.

Hugsið ykkur að það er ekki hægt að reka breska dómara. Og þeir fara ekki á eftirlaun fyrr en um 75 ára aldur. Hvað er nú það? Hérna um árið voru einhver sakborningagrey í Englandi að reyna að áfrýja sakfellingu sinni á þeim forsendum að dómarinn hefði sofnað í miðri vitnaleiðslu, og þar af leiðandi ekki hlýtt á sönnunargögnin sem verjandinn hafði fram að færa. Vitiði hvernig það fór?

"The judge admitted having fallen asleep, but denied having snored loudly..."

Áfram nú, lesa svo aðeins meira... Ætla í spinning seinni partinn, og svo erum við Kata og Erla að spá í að skella okkur í bíó í kvöld - þessi rússneska mynd, hvað heitir hún aftur? Sú fyrsta í einhverjum hryllings-fantasíu-þríleik. Unnur var búin að láta mig horf á trailerinn (kannski ætti maður að skrifa treilerinn þegar þetta hugtak er "íslenskað"... hvað veit ég um það?) sem var voðalega fínn og fallegur, en hins vegar hefur myndin víst verið að fá fremur slappa gagnýni. Hm, mér er svo sem sama, við eigum frímiða, og best að dæma svona lagað á eigin forsendum. Og ég þoli nú flest, svo lengi sem það felur ekki í sér geimveruklám.

Svo drap ég líka annan gullfiskinn hennar Kötu um daginn. Hún sagði að hann hefði ekkert látist úr næringarskorti en það var örugglega bara til að hugga mig. Hvernig á ég að fara að því að sjá um barn síðar meir, þegar ég get ekki einu sinni staðið með að gefa gullfiski?

 

Hress (KLUKK!)

núna, kl. 00:45.

Drekk klárlega of mikið kaffi.

Í dag fékk ég póstkort frá Rússlandi - reyndar var rithöndin Unu, en ég kýs að láta blekkjast. Æstur skóli og ég ætla til Rómar að finna Shelley og Keats. Þeir liggja víst í sama kirkjugarðinum. Ég er ekki enn búin að setja saman nýju (fallegu) rúmgrindina mína. Vex mér eitthvað í augum en Kata er búin að lofa mér dyggum stuðningi og viðbótar-verklagni. Svo get ég alltaf hringt í Adda.

Survivor Guatemala er steingeldur og ekki drengilegur. Einn gaur laug því að hann væri ekki former quarterback, og svo fatta ég varla fídusinn í því að fólk sé að kjósa burtu góða liðsmenn frekar en slappa. Skilst að það hafi eitthvað með það að gera að þá eigi maður meiri séns sjálfur. Hm, ég er alls ekki nægilega undirförul. En O.C. er málið, félagi Seth er alveg að gera í buxurnar og Summer er of sæt.

Já, og klukkið mitt:

1. Ég er með litað hár og þarf mjög að láta endurnýja það.
2. Ég græt þegar ég les falleg ljóð eða prósa, líka þegar ég er umkringd fólki, eins og tja, öllum 3.A.
3. Ég er óstjórnlega hrædd við höfnun.
4. Ég hef hlaupið 10 km á 42 mín.
5. Mér finnst gott þegar er togað í hárið á mér en best þegar afi hlýjar mér á höndunum.

Ég klukka: UNNI, SIGGA, KÖTU, ÓSKAR OG ALDÍSI!

sunnudagur, september 25, 2005

 

tíminn

líður ekkert og mér leiðist. Leiðist að hafa ekkert að gera í vinnunni. Hér er í íslensku deildinni er voða lítil afgreiðsla í dag og þar sem ég er "ný" þá dettur mér ekkert skemmtilegt og uppbyggjandi í hug til að framkvæma, fyrirtækinu til góða. Náði bara í plastpoka, vei!

Leiðist að hafa ekki tíma til að læra. Leiðist að hafa samviskubit. Leiðist hvað allt er dýrt á Íslandi. Leiðist hvað ég er dugleg að sóa í vitleysu. Leiðist að þekkja engan sem er með mér í enskunni. Leiðist að vera með complexa yfir sjálfri mér. Leiðist að vinir mínir eru út um hvippinn og hvappinn og bara yfirhöfuð langt í burtu. Leiðist að vera svona leiðinlegur bloggari en mér leiðist bara svo ógeðslega.

En hey, ég er með afslátt á Súfistanum!

Fór í gærkvöldi með Björku á Te & kaffi þegar vinnan var búin. Kvöldið hafði líka í för með sér japanskan doktor í cardiology, sem ég veit ekki hvað er á íslensku. Hann hafði svo sjálfur í för með sér flóknustu myndavél sem ég hef komist í kynni við.

miðvikudagur, september 21, 2005

 

Heyriði,

eru menn ekki orðnir leiðir á hnattvæðingunni?

hafið þið prófað að drekka krækiberjate með mjólk?

hver vill fóstur í jakkafötum sem borgastjóra, svona í alvöru?

er hægt að borða of mikið af eggjaköku?

hvað kostar pakki af hafragraut?

af hverju er hægt að halda áfram að prenta þegar prentarinn hefur tilkynnt að blekið sé búið?

hvenær kemur Visareikningurinn?

hver fann upp strokleðrið?

af hverju líður dagurinn bara ekki en er svo allt í einu búinn?

er snjór í Taivan á veturna?

hvenær á ég að vinna upp alla hljóðfræðina?

er hægt að gleyma gæludýri?

hvað er klukkan?

hvenær kemur Erla heim úr skólanum?

hvernig skiptir maður um sprunginn hæl?

af hverju sendi ég leirskálar í pósti?

hver hringdi í mig frá Þýskalandi í gær?

er Páll Skúlason skemmtilegur?

hvenær kemst ég til Akureyrar?

er ekki Spaugstofan dáin?

af hverju þurfti Bessi Bjarnason að deyja?

hvenær læri ég af reynslunni?

hvenær drattast ég til að læra yfirhöfuð?

hvenær hef ég efni á að fara í klippingu?

er hægt að ákæra mann fyrir að myrða gullfisk af gáleysi?

hversu leiðinlegt er ritgerðarefni dagsins?

hvenær er America's Next Top Model endursýnt?

hvað er ég að gera við líf mitt?

þriðjudagur, september 20, 2005

 

Fulkomin uppskrift að slæmum degi

- vakna vitandi að maður náði ekki að undirbúa sig fyrir tímann sem maður þarf að sækja kl. 8:15
- vakna of seint til að hafa tíma til að klára morgunkaffið
- fara í næfurþunnar íþróttahlífðarbuxur í stað þess að klæðast almennilegum buxum úr ullarefni, sérhönnuðum fyrir íslenska námsmenn sem eiga ekki bíl
- fara í nýja skó sem ná að valda ólýsanlega hryllilegu hælsæri áður en maður er einu sinni kominn inn í Hljómskálagarðinn
- staulast þ. a. l. eins og spýtukarl með grettu á (greppi)trýninu alla leið í Háskólabíó
- þurfa að bíða eftir síðbúnum kennaranum, sem óhjákvæmilega hefur í för með sér að fyrirlesturinn lengist um 10 mín
- sulla vatni yfir glósurnar og buxurnar sínar í miðjum tímanum
- labba heim, sárkvalin og óhamingjusöm í úrhellisrignungu, og þá meina ég ÚRHELLI - regndroparnir voru á stærð við snjókúlur
- opna ískápinn heima og uppgötva að kotasælan er búin

Og klukkan er ekki einu sinn orðin 10...

föstudagur, september 16, 2005

 

Áttavillt

Klárlega bý ég í Austurbænum en ekki Vesturbænum.
So be it!

2 vikur í Háskóla Íslands og ég nenni ekki enn að læra. Þetta er allt mjög áhugavert og mér finnst gaman að því sem ég get drullað mér til að líta á... En ég er enn að upplifa eftirköstin af skólaleiða síðasta vors.

Nenni ekki eilífu stressi í kringum heimanám, próf og verkefnaskil.

Hm, og langar ekkert sérlega til að vera fátækur námsmaður í, tja, 8 ár eða svo. Stend sjálfa mig æ oftar að því að lesa atvinnuauglýsingarnar í blöðunum: afgreiðslustúlka í bakarí, afgreiðslustúlka í sjoppu, póstburðarkona... Jafnvel fullt starf hjá Pennanum...

Heyrðu, Helga... Hvað heldurðu að þú þénir á þessum annars ágætu störfum? Þú kæmir aldrei neinu í verk af því sem þú þykist ætla að framkvæma í þessu lífi.

Bíddu bara þar til þú þarft að fara að sjá fyrir fjölskyldu... Já, mér skilst að það sé nú ekki ódýrt að ættleiða börn frá Kína.

Svo má líka setja dæmið upp sem svo:
- ég er háskólanemi til að eiga möguleika á mannsæmandi framtíðartekjum og áhugaverðu starfi þar sem ég væri einhvers metin (get heldur ekki neitað því að ég er svo lánsöm að hafa skráð mig í rétt fag, mér finnst enska afar skemmtileg)
- pabbi og mamma hafa stutt svona vel við bakið á mér undanfarnar vikur því þau vita hversu erfitt er að vera fátækur námsmaður að stíga sín fyrstu skref utan foreldrahúsanna - þau hafa fylgt mér fullkomlega úr hlaði og á þessa braut, svo að lágmarkið væri nú að reyna að standa sig fyrsta árið
- ég bý í þessari fullkomnu íbúð á þessum fullkomna stað eingöngu á þeim forsendum að ég sé háskólanemi sem fari heim til Akureyrar á sumrin

Einmitt, þetta háskólanám er grundvöllur þess að ég er þar sem ég er á þessari stundu

Svo er ég bara fúl út í stofnunina HÍ. Hún er leiðinlegt skrifræðisbákn þar sem engu má treysta og nemendur njóta lítillar virðingar. Og framboð og skipulag námsins, sem menn státa sig af að sé svo stórkostlegt á heimsvísu, er bara ekki til fyrirmyndar. Það eru ljót göt í leiðinlega kerfinu sem enginn nennir að stoppa í; t.d. krefst hitt og þetta "framvísun skólaskírteinis" sem er ekki til. Nemendafélög einstakra skora skilst mér að hafi reynt að sjá fyrir einhverju í þá veruna, en nú eru barasta alls ekki allir nemendur svo heppnir að eiga greiðan aðgang að svona félagi. Kata sem er í listfræðinni og Erla og Bergþóra í almennu málvísindunum eru fullkomnir utangarðsmenn. Og stúdentapólitíkin er yfirborðslegt skítkast.

Ég ætla til Skotlands.

Af eftirfarandi ástæðum er sjálfsálit mitt í lágmarki:
- ég hef verið löt við að læra
- ég hef verið löt við að þrífa
- ég hef verið að vaka fram á nætur og þ.a.l. skemmt marga daga sem annars hefðu getað nýtst til góðra verka og gáfulegra
- ég hef eytt of miklum peningum í óþarfa
- ég hef ekki verið dugleg að lesa þýsku
- ég hef ekki verið dugleg að skrifa e-mail til vina minna í Þýskalandi, Taívan, Japan og á N-Írlandi
- ég hef ekki verið að borða skynsamlega þ.s. ég
a) kann varla að skipuleggja innkaup og áætla matseðil fyrir mig eina, grundavallaðan á því
sem ég keypti og má sjá af
b) finn sífellda þörf fyrir að hugga sjálfa mig
- ég hef ekki verið að æfa almennilega þ.s. ég
a) er enn að jafna mig eftir hrapalleg og síendurtekin mjaðmarmeiðsli sumarsins
b) er ekki búin að koma æfingaráætlun inn í stundarskrána
c) er bara rétt búin að finna mér líkamsræktarstöð í nágrenninu og kaupa þar kort
- ég er full sjálfsvorkunnar yfir því að vera ekki til sem einstaklingur í nýja skólanum, á nýja vinnustaðnum og í nýju ræktinni
- ég er hræd um að allir gleymi mér heima fyrir
- ég sakna pabba & mömmu, afa & ömmu, Hildar & Andra, Unnar & Sigga & Stebbu & Jóhanns, Unu & Valdísar & Þórunnar, Freyju, & Valdísar & Steinlaugar & allra í Bókval, Öbbu & Óla & allra á Bjargi, Önnu Siggu & Tryggva & allra í Hjallalundi (líka þeirra sem eru fluttir að heiman), Bjössa & Sveinbjargar & allra í Beykilundi (þó þeir búi ekki þar að staðaldri), Gumma & Mæju & allra í Kotárgerði, allra annara sem ég umgekkst á Akureyri, Menntaskólans, Te & Kaffis og meira að segja Glerártorgs, fussum svei
- svo er ég með fílapensil á vörinni og sprungin hæl
- og ég þyrfti nauðsynlega að komast í klippingu

miðvikudagur, september 14, 2005

 

Lífið er hafragrautur

Það var sumsé gaman í Þýskalandi. En það er allt búið núna.
Ég er flutt að heiman. Það er allt að gera sig.

Ég á heima í BERGSTAÐASTRÆTI 69 í Þingholtunum, keyrið upp Njarðargötu eða Barónstíg og beygið til hægri eða vinstri, eftir atvikum.

Nú er húsið mitt gömul 3ja hæða bygging og ég bý í risíbúð - útsýnið er yndislegt og út um svefnherbergisgluggann minn sé ég Háskóla Íslands, þar sem ég stunda jú nám við Hugvísindadeild og nem enska tungu eins og mér væri borgað fyrir það. Sú er því miður ekki raunin.

Þar hafið þið það.

Klárlega þykir voða hipp og kúl að hafa aðsetur í 101, að maður tali nú ekki um þennan hluta Vesturbæjarins. Nágrannar mínir eru kóngurinn (næsta höll til hægri), forseti íslenska lýðveldisins (við götu rétt hjá) og Jóhanna Vigdís Arnardóttir (ská á móti).

Er þegar byrjuð að vinna í Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi 18. Þar er opið til 22 öll kvöld, endalaust úrval af bókum, alltof mikið af starfsfólki og sjálfur Súfistinn til húsa. Hann selur caffe latte í stórum skálum og það er gott.

Annars er ekkert svo slæmt að vera á svo stórum vinnustað, starfsmannafélagið er mjög öflugt, heldur meira að segja úti bloggi og skipuleggur leshringi. Já, dömur mínar og herrar, draumar mínir hafa ræst, ég kemst í leshring. Nú get ég dáið sæl.

Ég sakna bara Bókval svo voðalega. Sakna þess að þekkja hvern krók og kima, allar vörur í bókadeildinni og vita hvernig allt þetta litla og ómerkilega en mikilvæga gengur fyrir sig. Eins og til dæmis með mjólkina. Sakna samt mest alls fólksins. Mig langar til að verða aftur starfskraftur með stöðu og orðspor, ekki bara númer sem á vaktir aðra hvora helgi. Mig langar til að fólk þekki mig, og ég það.

Við Steinlaug eigum sömu helgar, ég á Laugaveginum og hún fyrir norðan, hún stakk upp á því að við hringdumst á í vinnunni á sunnudagsmorgnum, hí hí.

Heima í Kambagerði er guðdómlegur snagi sem hún gaf mér í brottflutningsgjöf, hann þykist vera heitavatnskrani, svona gamaldags stjörnulaga, og stendur á honum HOT. Bangsímonhandklæðið er hinsvegar inni á baði hér fyrir sunnan.

Klósettið mitt er blátt, vaskurinn líka.

Hér eru teppi á öllum gólfum sem er frekar fúlt því mér leiðist að ryksuga. Herbergið mitt er undir súð og ég bíð eftir nýju rúmgrindinni minni. Hún er svona svört, úr járni, með göflum og baki, ólýsanlega falleg. Svona sófarúm, ekki svefnsófi, heldur rúm með baki. Þarf bara að kaupa púða til að setja punktinn yfir i-ið.

Pabbi og mamma gáfu mér þetta ágæta rúm. Þau keyrðu með mér suður, Hildur og Andri líka, og við eyddum heilli helgi í að koma dótinu mínu fyrir og útvega það sem upp á vantaði.

Lítil handklæði, plastbox fyrir matarafganga, óhreinatauskörfu, ruslafötu, fatahirslur, hræriskálar... Ó, það er dýrt að hefja búskap. Ó ó.

Ó.

Við fórum í Bónus að kaupa morgunmat til að eiga meðan þau væru fyrir sunnan og mamma sagði mér að tína til eitthvað svo ég þyrfti ekki að fara í búð strax eftir helgi... Eða á næstu dögum, bætti hún svo við... Eða bara fyrr en í næstu viku... Svo skellti hún eggjabakka og oststykki í körfuna.

Ég fór að skæla við kornvöruhilluna. Við Kata og Erla erum síðan þá búnar að verða okkur úti um þvottabala, skóhorn, vatnskönnu, matardiska, þvottaefni og fleira í þeim dúr. Persónulega fjárfesti ég í unaðsfögrum brauðkassa úr tini með blómamunstri.

Við kaupum inn á miðvikudögum. Ég þarf að gera lista.

Og vinna hljóðfræðiverkefni.

Þórunn og Guðrún kíktu í kvöldkaffi áður en þær fóru til Spánar. Færðu okkur rifjárn, ísmolapoka og fleira skemmtilegt og bráðnauðsynlegt. Nú á ég ljósgrænan plastdisk fyrir flögur/grænmeti og ídýfu.

Unnur og Siggi komu í heimsókn þegar þau sneru aftur frá Prag og London, úff, hvað ég var búin að sakna þeirra. My Darling, Unnur, hann er yndislegur á bókaskenknum inni hjá mér og af fullkominni stærð fyrir huggukaffi.

Jafnframt hafa ungir vísindamenn sótt mig heim og gera enn í dag. Þeir ætla að sigra Rússland, en fyrst stefnum við saman á bíó í kvöld.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?